Morgunblaðið - 03.08.2013, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 03.08.2013, Blaðsíða 28
28 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 3. ÁGÚST 2013 Ferðalög, við förum í alls kon- ar ferðalög en lengsta og síðasta ferðalag Eyfa var ferðin heim til Íslands. Hann langaði svo heim og lagði allt í sölurnar til þess en svo stoppaði hann bara einn sól- arhring hér á leið sinni á allt aðr- ar slóðir og kvaddi þetta lífshlaup okkar. Eyfi Frændi, með stóru Effi, bjó heima hjá okkur, fylgdi með Lokastíg þegar mamma og pabbi keyptu æskuheimili þeirra bræðra og síðar í Barðavog. Þar var gleðin oftast við völd því þessir bræður voru mestu stríðnispúkar og húmoristar sem fyrirfundust. Æskuminningar mínar tengj- ast því Eyfa sterkum böndum, eins og stóri bróðir sem var til staðar og alltaf var hægt að leita til. Einstakir leikir hans með okk- ur systkinunum einkenndust af þjálfun í einbeitingu, þolinmæði, vandvirkni, gott veganesti og uppeldi. Alltaf tími til spjalls og ráðagerða í leik eða starfi. Ég átti því láni að fagna að ferðast með Eyfa 16 ára gömul til Englands. Fyrst til London í nokkra daga svo með lest til Fer- riby og Rochdale að heimsækja systur hans og fjölskyldur, ógleymanleg og skemmtileg minning. Það var reyndar alltaf skemmtilegt að vera með Eyfa, eitt sinn hittumst við í New York hjá Dísu systur, þá kom hann óvænt og einungis ég vissi af væntanlegri komu hans. Svoleiðis átti hann til að gera, koma fólki á óvart en hann var fjölskylduræk- inn og heimsótti oft ættingja í út- löndum. Þegar Bína elsta systir hans dó, fórum við Addý og pabbi til Englands að kveðja hana og vor- um þeir bræður, Pétur, Eyfi og pabbi þar allir saman í síðasta sinn, yndislegar stundir sem við áttum þar með börnum Bínu. Við hittumst í Kaupmannahöfn og áttum þar góðar stundir við rölt á milli kaffihúsa, en nú síðast hitti ég hann í Kalmar, fárveikan á sjúkrahúsi. Gátum við talað mikið saman um allt milli himins og jarðar, en nú á mun alvarlegri nótum en oft áður, þó var á ein- hvern sérstakan hátt notalegt að vera með honum þessa síðustu daga. Síðast þegar hann kom til Ís- lands á ættarmót, fyrir nokkrum árum gisti hann heima hjá okkur og sátum við gjarnan á pallinum með morgunkaffið í yndislegu veðri og spjölluðum og hlógum. Hann hafði þann eiginleika að sjá skoplegar hliðar á mannlífinu og nærvera hans var notaleg og af- slöppuð. Eyfi fylgdist vel með sínu fólki. Hann var virkur net- notandi, sendi „email“ sem voru svo skemmtileg enda hafði hann einstaka frásagnargáfu, að mað- ur hló yfirleitt eftir lestur bréfa hans eða brosti breitt. Síðasta skammstöfun hans í tölvupósti til mín var KISS (keep it simple stu- pid). Eyfi kvæntist Dúnu sinni á af- mælisdegi mínum 1983 og lét mig vita að ég væri vottur, viðeigandi, fannst þeim. Dúna átti þrjú börn og hafa þeirra börn verið honum sem hans eigin afabörn. Vil ég að lokum þakka fyrir allt Eyjólfur G. Þorbjörnsson ✝ Eyjólfur G.Þorbjörnsson fæddist á Lokastíg 28, Reykjavík, 28. október 1933. Hann andaðist á öldr- unardeild Land- spítalans í Fossvogi 19. júlí 2013. Eyjólfur var jarðsunginn frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði 30. júlí 2013. sem hann gaf mér sem bróðir, frændi og góður vinur alla mína ævi. Votta ég aðstand- endum hans mína dýpstu samúð og veit að vel hefur ver- ið tekið á móti hon- um á nýjum slóðum. Gunnhildur Ólafsdóttir. Margs væri að minnast er gamall skólabróðir, starfsfélagi og vinur heilan mannsaldur er kvaddur hinstu kveðju. Ég kynntist Eyjólfi Þorbjörnssyni í Menntaskólanum í Reykjavík, þaðan sem við útskrifuðumst árið 1956, en síðan átti það fyrir okkur að liggja að verða samferða á námsbrautinni enn um sinn. Við lögðum stund á náttúruvísindi og sér í lagi veðurfræði við Háskól- ann í Osló nokkur ár og bjuggum þá á sama stúdentagarði, Sogni, jafnvel um tíma í sömu fimm manna íbúðinni á garðinum, ásamt þremur „innfæddum“. Um síðir höfnuðum við á sama vinnu- stað, Veðurstofu Íslands, þar sem við unnum í námunda við hvor annan nokkra áratugina. Í raun- inni hafði ég haft óbeina nasasjón af tilvist Eyjólfs strax á Leifsgötu æskuára minna þar sem sægur af strákum undi glaður við sitt í leik að loknum skóladegi í Austur- bæjarskólanum. En þyrfti leikur- inn að berast út fyrir landamæri nágrennisins þótti óráðlegt að fara inn á umráðasvæði þeirra Lokastígsstrákanna handan við Skólavörðuholt. Þar átti heima tápmikill þjóðflokkur sem átti það til að forvitnast um ferðir stráka úr öðrum hverfum. Eyjólfur byrjaði snemma á Veðurstofunni, fyrir tvítugt. Hann hafði gert hlé á námi og fengið starf sem aðstoðarmaður í spádeild, veðurathugunarmaður og „plottari“, en plottarar unnu við að teikna á kort innsendar veðurathuganir. Eyjólfur kynnt- ist veðurfræðinni og ákvað að hefja nám á ný til að gerast veð- urfræðingur. Hann var svo ákveðinn að hann smitaði mig en ég var um tíma tvístígandi milli náttúruvísindagreina. Ég náði mér niðri á Eyjólfi síðar, en níst- ingskalda vetrardaga í Osló álas- aði hann mér fyrir að hafa lokkað sig yfir til Noregs frá Englandi þar sem hann hafði hafið veður- fræðinámið. Eyjólfur var góður íþrótta- maður á yngri árum og man ég að hann var í handboltaliði sem kom til Osló og lék þar spennandi leik. Íslenska nýlendan kom til að horfa á og stappa stálinu í sína menn. Þetta var áður en Eyjólfur hafði vent sínu kvæði í kross og haldið til Noregs í nám. Eyjólfur var höfði hærri en all- ur lýður, bar sig vel, beinn í baki og grannur. Hann var alla jafna ekki margmáll, en kíminn var hann og létti fyndni hans lund manna. Tölvubréf hans frá Sví- þjóð, með kveðju frá þeim Dúnu „og hundunum“, voru alltaf í létt- um dúr, jafnvel síðustu mánuðina er hann greindi frá veikindum sínum. Fyrr á tíð var skemmtileg þverstæða í fasi hans sú, að hann varð stundum í hópi manna er ræddust við alvarlegur á svip og fámáll. Þóttist ég þá vita að í hópi viðmælenda væri einn sem Eyj- ólfur vinur minn hefði ekki hitt áður. Mun hann af ókunnugum hafa verið talinn dulur maður. Eyjólfur var drátthagur og voru veðurkort hans með afbrigðum skýr og listilega dregin. Fór orð af þeim. En nú er öldin önnur, tölvuöld, og list Eyjólfs á þessu sviði hvorki stunduð né rómuð. Að leiðarlokum minnast bekkjar- systkin úr árgangi MR-1956 og samstarfsfólk á Veðurstofunni Eyjólfs með hlýhug og þökk. Við hjónin vottum stjúpbörnum hans, systkinabörnum og fjölskyldum þeirra allra samúð í söknuði þeirra. Þór Jakobsson. Sumarið hefur ekki verið gott. Engin sól, bara dimmt. Daginn sem Eyjólfur kom heim til Ís- lands til að deyja, grétu himnarn- ir meir en nokkru sinni. Daginn eftir kvaddi hann þennan heim og dagurinn varð sem kvöld. Með Eyjólfi Þorbjörnssyni veðurfræðingi er genginn einn af vænstu sonum Veðurstofunnar. Hugurinn hvarflar aftur í tímann, já um 43 ár. Ég sé þá fyrir mér saman, hann og Ólaf Einar Ólafs- son veðurfræðing, báðir einstakir menn. Á þessum tíma unnum við á flugveðurdeild Veðurstofunnar á Keflavíkurflugvelli sem síðar var færð til Reykjavíkur. Þeir voru mjög samhentir með það að stríða okkur stelpunum, hvor á sinn háttinn. Það var gaman að hlæja með þeim. Ég heyri hlát- urinn í Eyjólfi í hjarta mínu. Það er gott að minnast hans þannig. Mér þótti líka alltaf vænt um Ingólf Aðalsteinsson veðurfræð- ing en þegar hann og Eyjólfur mættust gerðist það alltaf með mjög sérstökum hætti. Þeir stukku upp í loftið í einhvers kon- ar ballettspori sem þeir kölluðu „pas de deux“. Eyjólfur var víst í ballett á yngri árum og Ingólfur hlýtur að hafa verið það líka því mikið var lagt í sporið. Eyjólfur hafði mjög fallega rit- hönd sem sagði heilmikið um hann því hann var afskaplega vandvirkur og traustur maður. Hann hafði óvenju góða nærveru og mikinn húmor eins og kemur fram hér að ofan. Margar setn- ingar og frasar sem upphaflega komu af hans vörum hef ég gert að mínum. Þannig heldur húmor- inn hans áfram í gegnum mitt líf, öðrum til gleði og sjálfri mér mest. Eyjólfur var einn lengi framan af ævinni en átti mörg systkini. Þau misstu móður sína snemma og héldu fast hvert utan um ann- að alla ævi. Við hittumst tvisvar á ári, sam- starfsfólk sem flest höfum unnið saman í marga áratugi. Við höf- um saknað Eyjólfs en undanfarin ár hefur hann búið í Svíþjóð ásamt konu sinni, Dúnu. Ég hugsa að flest okkar hafi verið ró- leg með það. Hann var hjá henni Dúnu, þess vegna hlaut allt að vera gott. En lífið er því miður ekki alltaf svona einfalt. Dúna lést í febrúar síðastliðnum og Eyjólfur var aft- ur orðinn einn en nú fjarri ætt- ingjum og vinum. Það var á síðasta samfundi okkar í vor sem ég heyrði af láti Dúnu. Ég vissi ekki af veikindum hans sjálfs, sendi honum tölvu- póst og hvatti hann til að koma heim. Ég fékk ekkert svar. Systkinabörn Eyjólfs settu sig í samband við okkur fyrir skömmu, í gegnum Þór Jakobs- son veðurfræðing. Mig langar til að þakka Þór og systkinabörnum Eyjólfs fyrir það hversu vel og nærfærnislega þau upplýstu okk- ur öll um líðan hans og baráttu fyrir því að fá að deyja á Íslandi. Þau ásamt stjúpbörnum Eyjólfs gerðu sannarlega allt sem þau gátu til að uppfylla þessa ósk hans. Í dag, nokkrum dögum eftir andlátið, skín sólin loks á suð- vesturhorn landsins. Himinninn er heiður og blár. Guð umvefji þig í ljósi sínu, elskulegur vinur okk- ar. Ég votta bæði systkinabörnum Eyjólfs og stjúpbörnum mína dýpstu samúð. Guð blessi ykkur og varðveiti elsku ykkar hvers til annars um ókomin ár. Stella Gróa Óskarsdóttir. Eyfa frænda verður sárt sakn- að. Hann var frændinn sem var mikið erlendis, allavega í þá daga þegar ég var barn. Ferðirnar voru dýrari og laun talsvert lægri. Hann var mikill vinur móð- ur minnar og var afskaplega gaman að hlusta á þau ræða gömlu góðu dagana. Eyfi og Dúna bjuggu í Svíþjóð eftir að þau fóru á eftirlaunaaldurinn en Dúna féll frá í febrúar á þessu ári. Hann kom og gisti hjá mér og minni fjölskyldu nokkrum sinn- um og vann við afleysingar hjá Veðurstofunni. Strákunum mín- um, Birni og Gunnari Val, fannst ekki leiðinlegt að fá hann. Hann var sérstaklega barngóður og með góðan húmor. Hinstu saknaðarkveðjur, Ída Valsdóttir. Það var alltaf gaman að vera á vakt með Eyjólfi. Hann vann lengst af við veðurspár, fyrst í Keflavík og síðan í Reykjavík þar sem ég vann með honum á spá- deildinni í mörg ár. Eyjólfur var ekki aðeins góður í fræðigreininni, heldur var hann einnig mjög flinkur þegar kom að því að greina og teikna veður- kortin, því hann hafði „dýnamik- ina“ í taugakerfinu. Kortin urðu því fínustu listaverk í höndum hans, fyrir utan að vera lógísk og sannfærandi. Þar fyrir utan kunni hann af- skaplega vel að greina kjarnann frá hisminu og þreyttist aldrei á að undirstrika það þegar hann leiðbeindi yngri veðurfræðing- um. Spárnar áttu að vera stuttar og kjarnyrtar og aldrei í neinum „fífilbrekkustíl“, eins og hann orðaði það. En Eyjólfur vandaði sig við allt. Var hann vanur að byrja morgnana á því að hella upp á „súrefniskaffi“ handa okkur sem vildum aðeins gæðakaffi. Fólst það í því að kaffikannan var hreinsuð vel og vatnið látið renna mjög lengi áður en hellt var upp á sterkt kaffi. Það gat ekki orðið betra. Eyjólfur hafði margar hliðar og var svo margt til lista lagt. Hann hafði verið mikill íþrótta- maður á árum áður og var gríð- arlega flinkur dansari. Var mjög eftirsóknarvert af samstarfskon- um hans að láta hann sveifla sér á dansgólfinu, og þar sem hann var hávaxinn, þurftu styttri dömurn- ar varla að snerta gólfið. Þegar honum fannst við heldur stirðar í dansinum tók hann upp á því að kenna okkur undirstöðuatriðin í ballett á milli vinnutarna, þótt ekki sé vitað til að hann hafi nokkurn tíma numið slíkt. Og allt í léttum dúr. Eyjólfur kunni líka þá list að stríða fólki án þess að það yrði reitt eða þreytt á því, eins og t.d. að hrista borðin þegar maður var að draga kortin svo jafnþrýstilín- urnar urðu allar hrukkóttar, eða lægðin lenti óvart á vitlausum stað svo maður þurfti að stroka út og byrja aftur, og alltaf hlæjandi. Eitt sinn þegar ég var að draga kort var Páll Bergþórsson með nemendur í kynnisferð á spá- deildinni. Allt í einu fer borðið að hristast og þegar ég ætla að biðja Eyjólf að hætta þessu verður mér litið framan í nemendurna og sé að þau fölna upp. Þetta var þá jarðskjálfti sem skók borðið en ekki Eyjólfur. Varð þá Páli að orði að Eyjólfur væri líkega bú- inn að gera okkur ónæm fyrir náttúruhamförum með stríðni sinni. Eyjólfur var „góður gæi“ og mjög vinsæll meðal samstarfs- manna sinna. Hann gerði nokkr- ar atrennur að því að hætta á Veðurstofunni og héldum við mörg kveðjupartí fyrir hann. En hann kom alltaf aftur og því urðu það vonbrigði fyrir okkur þegar hann ákvað að flytja til Svíþjóðar. Að leiðarlokum vil ég þakka Eyjólfi kærlega fyrir allt og ekki síst fyrir að lífga upp vaktirnar með öllum sínum góðu hliðum. Fjölskyldu Eyjólfs sendi ég mín- ar innilegustu samúðarkveðjur. Unnur Ólafsdóttir. ✝ Ástkær eiginmaður minn, pabbi okkar og afi, MAGNÚS V. ÁGÚSTSSON flugmaður, er látinn. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna. Halldóra Edda Jóhannsdóttir, Ásdís Magnúsdóttir, Arndís Magnúsdóttir, Guðrún Dís Magnúsdóttir, Ágúst Róbert Glad, Vigdís Marianne Glad, Edda Vigdís Brynjólfsdóttir, Brynjólfur Magnús Brynjólfsson, Bryndís Helga Traustadóttir. ✝ Innilegar þakkir til allra þeirra sem sýndu okkur hlýhug og samúð vegna andláts og útfarar móður okkar, tengdamóður, ömmu og langömmu, ARNHEIÐAR LILJU GUÐMUNDSDÓTTUR frá Efra-Apavatni, sem andaðist 17. júní. Sérstakar þakkir til starfsfólks dvalarheimilisins Grundar fyrir sérlega góða umönnun og hlýju. Guðrún Erla Geirsdóttir, Steinunn Jóna Geirsdóttir, Geir Arnar Geirsson, Sigurjón Guðbjörn Geirsson og fjölskyldur. ✝ Elskulegur faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, SUMARLIÐI PÁLL VILHJÁLMSSON bóndi, Ferjubakka III, Borgarhreppi, andaðist í Brákarhlíð, hjúkrunar- og dvalar- heimili, Borgarnesi, miðvikudaginn 31. júlí. Útförin fer fram frá Borgarneskirkju laugardaginn 10. ágúst kl. 14.00. Vilhjálmur E. Sumarliðason, Hjálmfríður Jóhannsdóttir, Eva Ingibjörg Sumarliðadóttir, Jóhannes Torfi Sumarliðason, Anna María Sigfúsdóttir, Þórdís M. Sumarliðadóttir, Jóhann B. Marvinsson, Pétur Í. Sumarliðason, Guðrún Kristjánsdóttir, Ólöf S. Sumarliðadóttir, Sigurbergur D. Pálsson, Sveinbjörg R. Sumarliðadóttir, Albert Ólafsson, Ágúst Páll Sumarliðason, Hafdís Gunnarsdóttir, afa- og langafabörn. ✝ Hjartkær fósturmóðir mín, tengdamóðir, amma, langamma og langalangamma, INGIBJÖRG BERGMANN HJÁLMARSDÓTTIR, lést fimmtudaginn 1. ágúst. Bogey Ragnheiður Jónsdóttir, Sigfús Þórir Guðlaugsson, Viðar Guðmundur Arnarson, Leó Geir Arnarson, Guðlaugur Andri Sigfússon, Inga Rún Sigfúsdóttir, Bára Huld Sigfúsdóttir, makar, barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn. ✝ Ástkær eiginkona mín, móðir, tengdamóðir, systir, amma og langamma, ÁSDÍS HARALDSDÓTTIR, Strikinu 10, Garðabæ, andaðist á Landspítalanum við Hringbraut fimmtudaginn 1. ágúst. Hún verður jarðsungin frá Dómkirkjunni í Reykjavík föstudaginn 9. ágúst kl. 11.00. Þeim sem vilja minnast hennar er bent á gjörgæsludeild LSH. Þorvaldur Ragnarsson, Ásthildur Þorvaldsdóttir, H. Jóna Þorvaldsdóttir, Jón Diðrik Jónsson, Anna María Þorvaldsdóttir, Jónas Halldórsson, Á. Inga Haraldsdóttir, Hafsteinn Reykjalín, barnabörn og langömmubörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.