Morgunblaðið - 25.02.2014, Qupperneq 27

Morgunblaðið - 25.02.2014, Qupperneq 27
MINNINGAR 27 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 25. FEBRÚAR 2014 sumar um erfiðu árin, aðrar um afa minn. Og þá var sem sól hefði snöggvast svipt af sér skýjahjúp því andlitið varð svo unglegt og augun svo mild og djúp. (Rafnar Þorbergsson) Anna Bríet. Það var glaðlegur hópur ung- menna sem útskrifaðist frá Verzlunarskóla Íslands vorið 1959. Í hópnum voru 23 stúlkur og 60 piltar. Mikil samheldni og vinátta einkenndi hópinn á skólaárunum og var oft glatt á hjalla í gamla skólanum, sem þá var við Grundarstíg. Skömmu eftir útskrift ákváðum við bekkj- arsysturnar 23 að stofna bekkj- arklúbb og starfar hann enn eftir hálfa öld. Fyrstu árin hittumst við á heimilum okkar, en á síðari árum höfum við þess á milli einn- ig hist á kaffihúsum, farið í bíó og ýmsar ferðir innanlands sem utan. Allar okkar samverustund- ir hafa verið góðar stundir og styrkt vináttu sem verður dýr- mætari með hverju árinu sem líður. Nokkrar ógleymanlegar ferðir höfum við einnig farið með eiginmönnum okkar og er þá vegleg dagskrá með þátttöku allra viðstaddra. Það eru forrétt- indi að eiga að slíkan vinahóp. Í byrjun febrúar kvöddum við Ágústu Högnadóttur og nú kveðjum við Möggu Úlfars. Það er skammt stórra högga á milli í hópnum okkar. Áður höfðum við kvatt þrjár bekkjarsystur. Magga fæddist og ólst upp á Seyðisfirði. Þegar hún var 17 ára flutti fjölskyldan til Reykjavík- ur. Árið 1960 giftist Magga Guð- bjarti I. Gunnarssyni stýrimanni og hófu þau búskap í Hafnar- firði. Þau eignuðust fjórar dæt- ur, sem nú sjá á eftir móður og vinkonu og barnabörnin kveðja ömmu, sem alltaf var til staðar fyrir þau. Þeirra missir er mikill. Magga vann nokkur ár í verslun en lengst af í Bókasafni Hafn- arfjarðar. Árið 1996 fluttu þau á Álftanesið. Magga og Bubbi voru samhent hjón og einstak- lega góð heim að sækja. Um tíma bjuggu þau í Namibíu og þar undu þau hag sínum vel. Þá sendi Magga skemmtileg bréf til okkar í bekkjarklúbbnum, þar sem hún sagði frá daglegu lífi og ævintýrum í Namibíu. Magga var góður penni og voru lýsingar hennar myndrænar og skemmti- legar þar sem einföldustu störf urðu að stórvirki. Í bréfunum leyndi sér ekki aðdáun hennar á landinu og fólkinu sem þar býr við aðstæður sem eru okkur svo framandi. Nokkrum árum síðar fóru þau aftur til Namibíu og var greinilegt að landið var þeim báðum afar kært. Þangað leitaði hugurinn. Þau hjón voru nýkom- in úr ferð til Tenerife og nutu þess að vera þar í sólinni, en stuttu síðar kom reiðarslagið; Magga var lögð fárveik inn á sjúkrahús og lést eftir nokkra daga. Magga hafði góða nær- veru. Hún var trygg og traust, hörkudugleg og ósérhlífin. Hún hafði yndi af handavinnu og var gaman að sjá fallega handverkið hennar sem hún lagði svo mikla alúð við. Síðast þegar við hitt- umst ákváðum við að hittast fljótlega aftur og bera saman bækur okkar í „saumalistinni“. Það bíður betri tíma. Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast, margs er að sakna. Guð þerri tregatárin stríð. (Vald. Briem) Við bekkjarsysturnar minn- umst Möggu með hlýju og sökn- uði og sendum Bubba, dætrun- um og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning vinkonu okk- ar, Margrétar A. Úlfarsdóttur. Guðrún Snæbjörnsdóttir. ✝ RagnheiðurSveinfríður Sóley Árnadóttir fæddist í Bolungar- vík 4. ágúst 1927. Hún lést á hjarta- deild Landspítalans að morgni 17. febr- úar 2014. Ragn- heiður var dóttir hjónanna Jónínu Sæunnar Gísladótt- ur, f. 10.11.1891 d. 5.5. 1964 og Guð-mundar Árna Sumarliðasonar, f. 20.3. 1893. d. 20.8. 1969.Systkini Ragnheiðar voru Krist-rún Sæunn Árnadótt- ir, f. 25.5. 1926, d. 25.11. 1942 og Guðmundur Jóhannes Árnason, f. 22.12. 1934, d. 27.2. 1991. Hálfbróðir samfeðra var Magn- ús Árnason, f. 9.5. 1917, d. 6.10. 1962. Ragnheiður var gift Sig- urði Gissurarsyni, frá Litlu- Hildisey, f. 11.5. 1916, d. 3.5. 2002. Börn þeirra eru Kristrún Árný Sig- urðardóttir, f. 16.2. 1951, maki Stefán Ragnar Einarsson, þeirra börn Ragn- heiður Sóley Stef- ánsdóttir og Inga Björg Stefáns- dóttir, Árni Jóns- son Sigurðsson, f. 2.3. 1955, maki Sjöfn Þórðar- dóttir, þeirra börn eru Ingibjörg Árnadóttir og Sigurður Aron Árna-son, og Jón Sævar Sig- urðsson f. 9.6. 1964. Barna- barnabörnin eru orðin 11 tals- ins. Ragnheiður kynntist Sig-urði manni sínum þegar hann kom vestur í Bolungarvík til að vinna í vélsmiðjunni þar en hann hafði lok-ið prófi sem vél- virki. Jónína móðir Ragnheiðar var með nokkra kost-gangara og þannig kynntust þau og felldu hugi saman. Þegar Sig- urður flutti aftur til Reykjavík- ur árið 1945, fór Ragnheiður fljótlega á eftir honum. Hún réð sig í vist hjá hjónum í Hlíðunum, sá um matseld og 2 ára barn þeirra hjóna, einnig vann hún í þvottahúsi við Laugaveg sem og í Hampiðjunni. Sigurður og Ragnheiður fluttu inn í húsið við Vesturgötu 28 í Reykjavík í maí 1951 og hófu sinn búskap, þar bjuggu þau alla tíð. Ragnheiður var alla tíð heimavinnandi hús- móðir en þegar börnin stækk- uðu skúraði hún hjá Heildversl- un Agnars Lúð-víkssonar og á fleiri stöðum. Útför Ragnheiðar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 25. febrúar, og hefst at- höfnin kl 13. Móðir mín, Ragnheiður Svein- fríður Sóley Árnadóttir, er farin og þar með lýkur hlutverki litla hússins að Vesturgötu 28. Aldrei aftur hægt að koma í litla eldhús- ið á Vesturgötunni og setjast nið- ur með mömmu og ræða um heima og geima. Sporin þegar hún leiddi mig í Öldugötuskólann og fór með mig í lestrarpróf hjá skólastjóranum. Hrein og vel straujuð fötin sem hún passaði svo vel upp á að ég klæddist og ferðin til Bolungarvíkur þegar ég var fimm ára. Mamma var fædd í Bolungarvík 4. ágúst 1927 og sleit barnsskónum í Minni-Hlíð. Lífið í Bolungarvík reyndist henni erfitt, og minningarnar svo sárar að hún kom þangað aðeins einu sinni eftir að hún fór þaðan 1945. Aðeins átta ára gömul fékk hún lömunarveikina, sem varð til þess að hún lamaðist öðrum megin í andliti. Þetta markaði djúp spor í sálarlíf hennar, raun- ar svo djúp að hún náði sér aldr- ei. Næsta áfall kom óvænt og án nokkurs fyrirvara þegar hún var 15 ára, þegar systir hennar, Kristrún Sæunn Árnadóttir, þá 16 ára, þurfti að gangast undir að því er talið var hættulausan botnlangauppskurð á Ísafirði. Saklaus botnlangauppskurður- inn mistókst og Kristrún systir hennar lést 25. nóvember 1942. Heltekinn af harmi heyrði hún föður sinn segja, hvers vegna þurftum við að missa dótturina sem heilbrigð var. Það er rétt hægt að ímynda sér hvílík áhrif þessi orð höfðu á móður mína, sem rétt hafði misst systur sína. Þáttaskil urðu í lífi mömmu þegar pabbi kom til Bolungarvík- ur til þess að vinna í vélsmiðj- unni hjá Einari Guðfinnssyni og gerðist kostgangari hjá ömmu. Þegar pabbi fór frá Bolungarvík 1945 fór mamma líka þrátt fyrir miklar fortölur til Reykjavíkur með aleiguna, sængina sína, eina í farteskinu. Þetta varð síðan til þess að afi, amma og Gummi frændi fluttu líka til Reykjavíkur í kjölfarið. Húsið að Vesturgötu 28 varð síðan að heimili allrar fjölskyldunnar, afi og amma bjuggu uppi og við á neðri hæð- inni. Pabbi vann í vélsmiðju Kristjáns Gíslasonar við Ný- lendugötu, afi í Fiskhöllinni við Norðurstíg og amma í Hrað- frystistöðinni við Mýrargötu. Rúna systir í Miðbæjarskólanum og ég í Öldugötuskólanum. Ég minnist þess ekki að nokkur hafi átt bíl, nema Óskar bróðir pabba sem átti belgjaskóda. Hann bauð reyndar fjölskyldunni einu sinni útúr bænum, en þar sem skódinn dreif ekki upp Ártúnsbrekkuna varð að snúa við. Alla sína ævi fór mamma aldrei í sumarfrí, það var óþekkt hugtak, hún fór aldrei til útlanda og eldhúsinnréttingin var sú sama frá upphafi. Þvotta- vélin niðri í kjallara og þvottur- inn þurrkaður úti á snúru. Henn- ar bestu stundir voru þegar hún fór með Pernellu vinkonu sinni á gömlu dansana í Brautarholti. Mér er sem ég heyri óminn af Piparsveinavalsinum og Kátir dagar koma og fara við dynjandi harmonikkuleik liðast út úr litla timburhúsinu á Vesturgötu 28. Að leiðarlokum sé ég mér fyrir hugskotssjónum mömmu stand- andi á tröppunum á Vesturgötu 28 í glampandi sólskini, laus við lúinn skrokkinn, brosandi í hinsta sinn. Hafðu þökk fyrir allt og allt. Þinn sonur, Árni Jónsson Sigurðsson. Mamma mín, ég minnist þín með þakklæti. Þú varst klettur- inn í mínu lífi og ég mun sakna þín sárt. Þú varst umburðarlynd í minn garð og vildir mér alltaf vel. Þegar ég seint og um síðir tók bílpróf, þá varst það þú sem aðstoðaðir mig af þínum tak- mörkuðu fjárráðum við kaupin á mínum fyrsta bíl. Ég man hvað okkur fannst gaman að keyra út að Gróttu og ganga þar um sam- an og heyra niðinn í öldunum. Þar fannst þú fyrir mikilli ró. Seinni árin, þegar heilsan leyfði ekki frekari gönguferðir, þá sátum við saman í sólinni á sumrin fyrir framan húsið þitt á Vesturgötunni og spjölluðum saman og höfðum það notalegt. Svo áttir þú þér áhugamál seinni árin sem ég er ekki viss um að allir hafi vitað um. Þú varst mikil áhugamanneskja um enska bolt- ann og áttir þar þitt uppáhalds- fótboltalið sem var Liverpool. Ég dáðist að því hvað þú hafðir allar reglur fótboltans á hreinu og oft þegar einhver skoraði vafasamt mark heyrðist réttilega í minni konu með hneykslunarróm í röddinni: „Hvað, var maðurinn ekki rangstæður?“ Ég er þakklátur fyrir að þú gast verið heima á Vesturgöt- unni alveg til dauðadags, þar sem þú hafðir búið alveg síðan um miðja síðustu öld og ég veit að þú hefðir hvergi kunnað betur við þig en þar. Ég veit að ég á eftir að sakna þess mikið að hafa þig ekki mér við hlið, og hér ætla ég að ljúka þessum fátæklegu minningar- orðum með eftirfarandi línum úr fallegu sönglagi eftir Braga Valdimar Skúlason, sem heitir: Líttu sérhvert sólarlag. Sérhver draumur lifir aðeins eina nótt sérhver alda rís en hnígur jafnan skjótt hverju orði fylgir þögn – og þögnin hverfur alltof fljótt. En þó að augnablikið aldrei fylli stund skaltu eiga við það mikilvægan fund því að tár sem þerrað burt – aldrei nær að græða grund. Líttu sérhvert sólarlag, sem þitt hinsta væri það. Því morgni eftir orðinn dag enginn gengur vísum að. Þú veist að tímans köldu fjötra enginn flýr enginn frá hans löngu glímu aftur snýr. Því skaltu fanga þessa stund – því fegurðin í henni býr. Jón Sævar Sigurðsson. Elsku litla stúlkan hún Ragn- heiður er á leiðinni í skólann sinn, hún er stödd í Bolungarvík og er á níunda aldursári. Ragn- heiður litla er nýstaðin upp úr lömunarveikinni og andlit henn- ar hefur lamast öðrumegin. Munnurinn svolítið skakkur og kinnin slök. Hún er samt ekki svo meðvituð ennþá um að til- vera hennar er breytt til fram- búðar. Þegar hún kemur í skól- ann þekkir vinkona hennar hana ekki lengur og einhver segir að hún sé orðin ljót. Lömunarveikin markaði hana mömmu mína fyrir lífstíð en hún varð samt hörku- kona sem stóð af sér ýmsa stórsjói með sóma. Fimmtán ára gömul missir hún systur sína Kristrúnu, sem deyr eftir botnlangaskurð. Nokkrum mánuðum seinna koma berklarnir til sögunnar, þá býr fjölskyldan á Hóli í Bolung- arvík. Árni faðir hennar fer á Vífilsstaði til að dvelja þar lang- dvölum, hún og Gummi bróðir hennar fara á Ísafjarðarspítala og eru þar í upp undir tvö ár. Jónína mamma hennar verður eftir og eldar fyrir fína fólkið eins og mamma orðaði það alltaf við mig. Til Reykjavíkur lá henn- ar leið um 1945, þá búin að kynn- ast pabba og 1951 þegar ég er þriggja mánaða flytjast þau inn í húsið að Vesturgötu 28, þar sem mamma bjó síðan til hinsta dags, eða næstum því, hún var þrjá daga á spítalanum. Yndislegt var fólkið á hjartadeildinni á Land- spítalanum, læknar, hjúkrunar- konur, sjúkraliðar, presturinn, bara allir og ekki varð andlegi þátturinn útundan hjá þeim. Takk fyrir það. Ég sé það í dag hvað hún mamma mín var dugleg kona, hún var alltaf heima, hugsaði um okkur börnin sín þrjú, matur alltaf á borðum á réttum tíma, að maður tali nú ekki um kaffið. Pabbi vann í smiðjunni á Ný- lendugötu og dró björg í bú, hann var eldklár vélvirki. Mamma sá um að við lærðum heima, hlýddi okkur yfir, passaði að við værum ekki of lengi úti á kvöldin, breiddi sig yfir ungana sína. Veikindin og systurmissir- inn gerði hana hrædda um að eitthvað kæmi fyrir okkur. Oft var farið í gönguferðir í bæinn, niður í Hljómskálagarð með nesti og teppi, þar sátum við oft með mömmu okkar. Ég man eft- ir að einu sinni var sko farið í langferð, tekinn strætó upp í Blesugróf, nestið og teppið með, við vorum sko að fara í sveita- ferð. Ég gleymi ekki hræðslu minni þegar eigandi landsins sem við sátum á (við höfðum klifrað yfir einhverja girðingu) kom öskureiður og rak okkur í burtu með ofsaskömmum. Við tókum öll til fótanna en mamma bara skellihló. Strætó heim í hvelli. Mamma mín var mikil dans- kona og stundaði gömlu dansana í Brautarholti ásamt vinkonum sínum. Mikið áttu þær nú fallega ballkjóla, það var mikið og skemmtilegt tilstand á laugar- dögum, farið í lagningu eða permanent, gull- eða silfurskórn- ir teknir fram og svo var stormað af stað í bestu kápunni til að dansa og þetta voru sko ekki neinar sukksamkomur, bara dans. Takk fyrir allt, mamma mín, ég elskaði þig alltaf mikið og mun alltaf gera, þú varst og verður hin sannkallaða hvers- dagshetja sem reis upp úr hverri raun eins og fallegasta fjallið á landinu okkar, „Herðubreið“. Hvíl þú í friði, elsku mamman mín. Kristrún Árný Sigurðardóttir. Það er komið að kveðjustund, í dag verður Ragnheiður tengda- móðir mín borin til grafar. Henn- ar verður sárt saknað, minning um yndislega hjartahlýja konu sem hafði sterkan persónuleika og allir í fjölskyldunni löðuðust að. Þegar ég kom inn í þessa fjöl- skyldu fyrir réttum 33 árum var mér tekið opnum örmum. Ragn- heiði var alla tíð mjög annt um velferð sinna nánustu, og þá sér- staklega barnabarnanna sinna. Hún fylgdist grannt með þeim öllum og gladdist þegar vel gekk í leik og starfi. Ragnheiður var ung í anda og ber áhugi hennar á fótbolta því gott vitni. Það var líkt og helgistund þegar Liver- pool var að keppa í sjónvarpinu og þá var öll truflun illa séð.Vest- urgatan var miðpunktur stórfjöl- skyldunnar og þar var oft mikið fjör í eldhúsinu. Lífið var ekki alltaf dans á rósum og hún fékk sinn skerf af erfiðleikum og áföll- um í gegnum tíðina. En hún lét það ekki buga sig. Elsku besta tengdamóðir mín, þinn tími var kominn og ég held að þú hafir verið hvíldinni fegin. Gott er til þess að vita, að þú munir samein- ast þínum nánustu hinumegin á ný. Þau hafa fagnað þér með op- inn faðminn. Hvíl í friði. Þín tengdadóttir, Sjöfn. Elsku amma, þú varst sko langbesta amman, að kveðja þig er svo sárt. Allar góðu minning- arnar sem ég á um þig og eru mér svo dýrmætar mun ég geyma í hjarta mér. Mér finnst ég svo rík að hafa átt þig að, það var alltaf gaman að koma í heim- sókn til þín til þess að spjalla og fá eitthvað gómsætt með kaffinu. Þú varst svo hress og kát, það var sko aldrei leiðinlegt að kíkja á ömmu Ragnheiði. Mér leið svo vel í návist þinni, þú tókst alltaf eftir því ef ég var í einhverju nýju. Það fór sko ekki framhjá þér, hvort sem það var nýr kjóll, jakki eða skór, þér fannst það alltaf svo fínt og flott og úr svo góðu efni. „Ingibjörg, þú ert allt- af svo fín,“ sagðir þú oft við mig, þú hafðir alltaf eitthvað fallegt og jákvætt að segja sem mér þótti svo vænt um. Ég man þeg- ar ég var lítil þá fórum við stund- um í göngutúr á Vesturgötunni, þá tókum við alltaf stóran sveig framhjá húsinu með grimma hundinum. Okkur leist sko ekk- ert á þennan hund sem trylltist alltaf þegar við nálguðumst hús- ið. Þótt ég hafi verið hrædd við hundinn þá var samt svo gaman að hlaupa með þér frá hundinum ógurlega, þú hafðir svo gott lag á að gera hlutina skemmtilega. Á Vesturgötunni lékstu við mig í dúkkó og búðarleik, það fannst mér skemmtilegt. Dúkkurnar voru púðar sem voru bundnir í miðjunni, þú kunnir sko að redda þér þótt þú hafir ekki átt dúkkur. Lífið verður fátækara án þín, ég mun sakna þess að sjá ekki fal- lega brosið þitt og heyra þig hlæja. Sjáumst. Þegar einhver fellur frá fyllist hjartað tómi en margur síðan mikið á í minninganna hljómi. Á meðan hjörtun mild og góð minning örmum vefur þá fær að hljóma lífsins ljóð og lag sem tilgang hefur. Ef minning geymir ást og yl hún yfir sorgum gnæfir því alltaf verða tónar til sem tíminn ekki svæfir. (Kristján Hreinsson) Kveðja, Ingibjörg Árnadóttir. Ég trúi því varla að hún amma mín sé farin, ég er bara engan veginn tilbúin til að kveðja hana. Undanfarna daga hafa minning- arnar streymt fram og ég hef séð hve mikil mín gæfa var að eiga hana Rögnu ömmu mína, já mér fannst ég eiga hana. Þegar ég horfi til baka sé ég að það sem hún amma mín gaf mér alltaf var tími. Hún amma gaf sér alltaf tíma til að leika við mig þegar ég var lítil og þau voru ófá skiptin sem við systurnar veltumst um af hlátri í litlu stofunni á Vest- urgötunni. Oft var einnig hlaupið með ömmu út á róló, eða farið með teppi og nesti út í Hljóm- skálagarð og svo voru það ferð- irnar í litlu búðina niðri á horni þar sem við fengum nýjar dúkkulísur eða púsl. Í huga og hjarta barnsins voru þetta ynd- islegar stundir og í hjarta mínu í dag ómetanlegar minningar. Hún amma mín gaf sér nefnilega alltaf tíma til að setjast niður og sinna mér. Hún gaf sér alltaf tíma til að hlusta og þannig náði hún að fylgjast með mér og öllu því sem var að gerast hjá mér. Hún stóð líka alltaf með mér og studdi allt sem ég var að gera, hjá ömmu fannst mér ég aldrei neitt rangt gera. Hún amma tók þátt í öllum mínum sorgum og sigrum, hún var einfaldlega alltaf til staðar fyrir mig og fyrir það verð ég henni ævinlega þakklát. Í huga mínum og hjarta var hún og verður alltaf algjörlega ein- stök. Elsku mömmu, Nonna og Árna sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur, en ömmu mína kveð ég með þakklæti í huga en sorg í hjarta. Ragnheiður Sóley Stefánsdóttir. Það er sárt að þurfa að kveðja jafn yndislega og skemmtilega manneskju og Ragnheiður var, en það er huggun harmi gegn að hún er komin á góðan stað. Það var fyrir rúmlega 33 árum sem við kynntumst og náðum við strax vel saman. Það var alltaf gaman að koma til hennar á Vesturgötuna. Ragnheiður var ung í anda, hún hafði mikinn húmor og var oft mikið hlegið. Hún var skilningsríkasta mann- eskja sem ég hef kynnst, ekkert kom henni á óvart í lífinu og ástæðan kannski sú að hún hafði upplifað skin og skúrir um æv- ina. Hún var mjög stolt af börn- unum sínum og barnabörnum og það segir kannski hvað hún var ung í anda að barnabörnin gátu talað um allt við ömmu Ragn- heiði, hún var svo góður hlust- andi og ráðagóð. Elsku Ragnheiður, ég kveð þig að sinni, ég veit að við hitt- umst seinna. Blessuð sé minning þín og hún mun lifa. Árna, Rúnu, Jóni og fjölskyld- um votta ég mína dýpstu samúð. Svala Þórðardóttir. Ragnheiður Sveinfríður Sóley Árnadóttir

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.