Morgunblaðið - 25.02.2014, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 25.02.2014, Blaðsíða 31
MINNINGAR 31 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 25. FEBRÚAR 2014 með þeim bekk sem beið þeirra var bara einn bekkur eftir og einn nýútskrifaður ungur maður sem enginn þekkti deili á og var að klára kennaranám. Ekki var laust við að einhverjir væru með kvíða þegar þessi ungi maður tók miða af borðinu og á honum stóð J. Ekki átti neinum eftir að detta í hug á þessari stundu, að þessi kennari myndi fylgja J-bekknum alveg upp í 8. bekk, sem þá var síðasti bekkur í grunnskóla. Þarna hófst skólaganga nemenda sem urðu þeirrar gæfu aðnjót- andi að hafa sama kennara í gegnum allan grunnskólann. Kennara sem líka var að læra og allt nýtt fyrir honum sem og nem- endum. Kennara sem átti eftir að ganga í gegnum súrt og sætt í átta ár með sínum nemendum. Fylgjast með nemendum þrosk- ast og þeir að fylgjast með honum þroskast og verða að kennara sem síðar yrði skólastjóri og starfsmaður í menntamálaráðu- neyti. Hlusta á frumsamda sögu í kaffitímum sem mörgum árum síðar átti eftir að koma út á bók. Æfa alla nemendur í framsögn og að tala yfir hóp og margt fleira sem ekki taldist til hefðbundinna kennslugreina en nýttist okkur vel. Þarna hófst vinátta sem ekki þykir sjálfsögð í dag. Ekki grun- aði okkur sjö ára börnin sem fylgdum þessum nýráðna kenn- ara í skólastofu í fyrsta sinn að þessi sami maður myndi kveðja okkur síðasta daginn í grunn- skóla átta árum síðar. Við höfðum fylgst með fæðingum barna hans, tónlistarferli o.fl. Þarna hófst vin- átta sem átti eftir að endast fram á síðasta dag. Ekki grunaði okkur að þessi miði sem þessi kennari dró ætti eftir að marka skóla- göngu okkar svo rækilega. Það var ekki fyrr en löngu seinna sem maður átti sjálfur börn sem fóru í skóla, að maður áttaði sig á hvernig sumir kennarar eins og Ragnar voru og að ekki var um sjálfsagðan hlut að ræða. Vinnu- skyldan var langt umfram við- veru í skólastofu og leikrit jafnvel æfð heima í stofu með sofandi ungbarni. Þarna var kennari sem lagði líf og sál í kennsluna. Auð- vitað gekk á ýmsu eins og í öllum löngum samböndum en öll vanda- mál voru leyst í skólastofunni. Mörgum árum seinna, þegar maður fór að vinna með foreldr- um sem áttu börn í skólum sem hann var skólastjóri í, fylltist maður stolti þegar maður heyrði hrós um þennan skólastjóra sem vonandi var að nýta reynslu sína af okkur nemendunum í J-bekk. Blessuð sé minning Ragnars Gíslasonar. Hörður Davíð Harðarson, J-bekkur Öldutúnsskóla – 1964-árgangur. Ég hef ekki átt í reglulegum samskiptum við Ragnar Gíslason í rúm tuttugu ár eða frá því að ég var nemandi hans við Garðaskóla í Garðabæ. En oft hef ég hugsað til hans og ég finn ríka þörf fyrir að fá að minnast hans í nokkrum orðum. Ragnar Gíslason var kennari af Guðs náð. Það var mikil gæfa fyrir okkur unglingana í Garða- skóla að fá að njóta hæfileika hans og hlýs viðmóts. Ragnar hafði einstakt lag á að umgangast fólk á þeim krefjandi tímum sem unglingsárin eru. Auk þess að kenna okkur varði hann drjúgum stundum í félagslífið utan hins hefðbundna skólatíma. Þá voru stofnaðir ljósmyndaklúbbar, skólablöð gefin út eða bara gripið í gítarinn. Sumir kennarar virðast halda að þeir geti ekki öðlast virðingu nemenda án þess að skapa gjá á milli sín og þeirra. Þeir halda að virðingin hljóti að þurfa að vera óttablandin. Þetta er rangt, þótt e.t.v. sé sú leið fljótlegri og auð- veldari heldur en að vinna traust nemenda með einlægni eins og Ragnar gerði. Ragnar nálgaðist nemendur á jafningjagrundvelli, spjallaði við þá um daginn og veginn og hafði húmor fyrir sjálfum sér. Eitt sinn í frímínútum sagði ég honum t.d. frá því að mamma mín hefði dreg- ið upp plötu með hljómsveitinni Randver og sýnt mér að umsjón- arkennarinn minn hann Ragnar væri meðlimur í bandinu. „Ó, svo þar er hitt eintakið af plötunni okkar,“ svaraði Ragnar. Ég hef varið tæpum aldar- fjórðungi sem nemandi við menntastofnanir, hérlendis sem erlendis. Á svo löngum tíma kynnist maður auðvitað ótal kennurum og skólastjórnendum. Margir þeirra eru mjög góðir en aðeins nokkrir standa upp úr í minningunni. Frábærir kennarar kenna manni ekki bara námsefn- ið, heldur veita manni innblástur og hvatningu; hafa varanleg áhrif á mann. Ragnar Gíslason var slíkur kennari. Ég votta fjölskyldu Ragnars og öðrum nákomnum samúð mína. Megi minningarnar ylja um ókomna tíð. Hafsteinn Þór Hauks- son, lektor við lagadeild Háskóla Íslands. Elskulegi bekkjarbróðir og vinur. Stillt veður, fallegir vetr- armorgnar með einstaka birtu eins og margir hafa upplifað und- anfarnar vikur, minna okkur á þig. Því þrátt fyrir fjörið og gleðina sem einkenndi þig alla tíð, ekki síst í góðra vina hópi, þá varstu líka stilltur, fallegur og einstök birta í kringum þig. Þegar rifjaðar eru upp minn- ingar frá skólaárunum og síðar koma aðeins falleg jákvæð orð upp í hugann. Þú varst hug- myndaríkur, alltaf brosandi, orkubolti sem aldrei stoppaðir, ljúfur, samstarfsfús, einlægur og góður. Við minnumst þín með gítar- inn, að gleðja alla í kringum þig. Við minnumst þín sem ritstjóra SIRA með kímni í farteskinu. Við minnumst bjarta bliksins í aug- um þegar þú nefndir Ingibjörgu. Við minnumst þín sem eldhuga með ákveðnar skoðanir á mennt- un æskunnar. Við minnumst þín hlæjandi að semja brag um B- bekkinn. Við minnumst þín þegar eldmóðurinn gagnvart kennara- starfinu kviknaði í kjölfar æfinga- kennslu. Við minnumst þín sem hugsjónamanns sem vildir efla og styrkja íslenskt skólasamfélag. Við minnumst þín sem ákveðins skólamanns sem varðst öðrum til eftirbreytni. Við minnumst stjórnandans Ragnars, sífellt vakandi yfir nýjum straumum og stefnum. Við minnumst þín með húmorinn fram á síðasta dag. Við minnumst þín sem vinar. Vertu kært kvaddur og við biðjum Guð að styrkja Ingi- björgu, börnin og aðra í fjölskyld- unni sem horfa á eftir einstökum manni. Skólasystkini úr B-bekknum í Kennaraskólanum, Hanna Hjartardóttir. Ég vann undir stjórn Ragnars Gíslasonar síðustu árin sem hann var skólastjóri í Foldaskóla. Hann réð mig sem námsráðgjafa við skólann og var þetta mjög gefandi og ánægjulegt samstarf. Aldamótaárið 2000 fengum við Diane Gossen frá Kanada til að halda tveggja daga námskeið fyr- ir kennara skólans. Þetta var fyrsta „Restitution“-námskeið sem haldið var hérlendis. Hug- takið sem Diane gaf aðferðum sínum við að kenna nemendum góð samskipti kallaði hún „Res- titution – Self Discipline“. Að- ferðin fékk í þýðingu heitið „Upp- byggingarstefna“ eða „Uppeldi til ábyrgðar – Uppbygging sjálfs- aga“. Ragnar skynjaði mikilvæg- ið og var mjög áhugasamur að vinna þessu máli brautargengi. Reynt er að forðast jafnt umbun sem refsingu við að stjórna börn- um. Í staðinn er börnunum kennt að þekkja tilfinningar sínar og þarfir og hvernig þau geta sinnt þeim af ábyrgð. Mistök eru ekki til að skammast sín fyrir (eða skamma fyrir) heldur eru þau tækifæri til að læra betri leiðir í samskiptum, tækifæri til að efla kjark og drengskap, tækifæri til að verða sá sem maður vill vera. Ragnar veitti mér orlof til að fara til Kanada og læra beint af höfundi aðferðanna, fylgja henni eftir á fyrirlestrarferðum og skrifa handbók fyrir kennarana. Ég lagði af stað í lok febrúar 2001 og kom heim í ágúst með hand- bókina. Ragnar bætti mínu starfi á sig á meðan. Ragnar taldi þetta þó ekki nóg og nauðsynlegt væri að senda sem flesta kennara skól- ans á námskeið til Ameríku ef takast ætti að festa í sessi þessa nýju hugsun – þessa nýju skóla- menningu. Á næstu misserum nýttu allnokkrir kennarar Folda- skóla sér þetta. Áhugi Ragnars spurðist út og gaf öðrum skólum fordæmi. Um allt land vaknaði áhugi á þessum námsferðum og Uppbyggingarstefnunni. Þegar Ragnar varð skólastjóri Garða- skóla tveim árum seinna tók hann upp þráðinn þar og hreif kennara með sér. Þetta starf er enn í fullum gangi víða um landið. Félag áhugamanna var stofnað 2008 og heitir „Uppbygging sjálfsaga“. Það stendur fyrir námskeiðum fyrir kennara með erlendum fyr- irlesurum gjarnan í ágústmánuði ár hvert. Enn eru skólar að fara til Ameríku á námskeið og í skólaheimsóknir til að læra af Diane Gossen og Judy Anderson nánasta samstarfsmanni hennar. Skólastarf á Íslandi á því Ragnari Gíslasyni þökk að gjalda. Án hans hefði þessi viðleitni aldrei náð flugi. Ég votta fjölskyldu Ragnars Gíslasonar mína dýpstu samúð við fráfall hans. Magni Hjálmarsson. Ragnar Gíslason er látinn. Hann var skólastjóri Foldaskóla á árunum 1992 til 2002 eða um tíu ára skeið og skildi eftir sig djúp spor í sögu skólans og ekki síður í huga okkar sem með honum unn- um þennan tíma. Ragnar var afar áhugasamur og velvirkur skóla- maður og ötull brautryðjandi þegar um var að ræða framfara- mál á sviði kennslunnar. Undir hans stjórn varð Foldaskóli móð- urskóli í nýsköpun, hann lagði mikla áherslu á jákvætt samstarf við foreldra og átti þátt í að koma á svokölluðu ferðakerfi með hæg- ferð, miðferð og hraðferð, sem var mikið framfaraskref í þá átt að mæta mismunandi námsgetu nemenda án þess að skaða sjálfs- mynd þeirra. Hann vann að heils- dagsskólanum af metnaði og eins þegar tekið var á móti fötluðum og þeim gert mögulegt að sækja almennan skóla. Allt þetta studdi Ragnar af heilum hug og lagði ævinlega allt sitt í að gera eins vel og hægt var. Hann hafði brenn- andi áhuga á að breyta og bæta til að koma til móts við alla, ekki síst þá sem stóðu höllum fæti og áttu erfitt uppdráttar. Það var hans fólk. Ragnar fylgdist vel með fram- gangi nemenda, bæði sem náms- fólki og ekki síður sem persónum. Nemendur voru vinir hans og leituðu til hans sem félaga ef ein- hvers þurfti með. Hann var einn af þeim sem gerðu sér ljóst að drengirnir áttu um sumt erfiðara uppdráttar en stúlkurnar og vann meðal annars að því að bæta þar úr. Hann vann ötullega að forvarnarstörfum og ræktaði já- kvæð og heilbrigð viðhorf meðal nemenda. Sem yfirmaður okkar kennaranna var hann ljúfur í við- móti og leit ævinlega á okkur sem vini og félaga, úrræðagóður og hjálpsamur og vildi hvers manns vanda leysa, fljótur að sjá já- kvæðar hliðar á málum og ævin- lega tilbúinn að hrósa fyrir vel unnin störf og hvetja okkur til góðra hluta. Ragnar var áhugamaður um útivist og fjallgöngur. Hann vann um skeið við námsefnisgerð og sendi frá sér tvær unglingasögur sem sýndu ótvíræða hæfileika hans sem rithöfundur. Það var mikill skaði að ekki skyldi verða framhald á því starfi hans. Og svo var hann tónlistarmaður af lífi og sál, hafði reyndar komið fram sem slíkur allt frá því hann var ungur maður, meðal annars með hljómsveitinni Randver, og hvar sem hann fór var gítarinn aldrei langt undan. Við minnumst hans ekki síst fyrir hressilegan söng, glaðvært viðmót og gleði sem smitaði út frá sér hvar sem hann fór. Við þökkum Ragnari Gíslasyni fyrir ógleymanlegar samveru- stundir og sendum aðstandend- um hans samúðarkveðjur. Fyrir hönd samstarfsfólks í Foldaskóla, Kolbrún Ingólfsdóttir. Það er skrítið að þurfa að kveðja þig eftir 46 ára kynni. Líf okkar hefur legið saman mestan þennan tíma. Þegar ég hóf nám í Kennara- skólanum haustið 1967 var mér komið fyrir í B-bekknum. Fljót- lega sá ég að þar voru margir ein- staklega áhugaverðir einstak- lingar. Einn þeirra var kátur og hvatvís strákur. Þetta var hann Raggi sem var hrókur alls fagn- aðar frá upphafi. Við vorum sam- an í B-bekknum í fjögur ár og var þetta fjörugur tími. Við Raggi náðum fyrst vel saman þegar farin var skólaferð til Noregs. Gleymi ég því ekki þegar við fórum tveir einn dag til að heimsækja barnafataverslanir vítt og breitt um Ósló. Þú áttir von á þínu fyrsta barni og varst svo ákafur að finna eitthvað flott á barnið. Mér, sem var bara átján ára gutti, fannst þetta skrýtið en um leið heillandi því þú varst svo ákveðinn í að verða góður pabbi. Við útskrifuðumst svo úr Kennó og fórum hvor í sína átt. En fljót- lega lágu leiðir okkar saman aft- ur þegar ég varð aðstoðarskóla- stjóri í Garðaskóla og þú varst starfsmaður Námsgagnastofnun- ar og sást um úthlutun náms- gagna til skólanna. Samskipti okkar voru talsverð á þeim tíma. Síðan gerist það að þú kemur til mín og segir að þig langi til að fara að kenna aftur og hvort ekki sé eitthvað fyrir þig að gera í Garðaskóla. Ég segi þér að núna vanti okkur kennara í samfélags- fræði og mögulega fagstjóra í þeirri grein. Ég hvatti þig til að sækja um sem þú og gerðir. Þú varst síðan ráðinn til starfsins. Skemmst er frá því að segja að þú náðir alveg einstaklega vel til unglinganna og varst mjög far- sæll í starfi hjá okkur. Þú varst mjög vinsæll meðal nemenda og náðir að vekja áhuga á því fagi sem þú varst að kenna. Ekki fengum við þó að halda þér lengi þar sem mikill áhugi var á því að fá þig í skólastjórastarf í Reykjavík. Þú fórst en hélst samt alltaf sambandinu við okkur. Í fyrstu komst þú oft að spjalla. Þar átt- um við margar skemmtilegar samræður og einnig varst þú áfram með okkur félögunum í fót- bolta tvisvar í viku. Næst þegar leiðir okkar lágu saman var það þegar staða skólastjóra í Garða- skóla varð laus og þú ákveður að sækja um og færð starfið. Mér fannst eins og á vissan hátt fynd- ist þér þú vera að koma heim aft- ur. Samstarf okkar byggðist á trausti sem myndast hafði á löngum tíma og varð að mínu mati einstaklega farsælt. Það getur ekki spillt fyrir að hafa þekkst náið frá 17 ára aldri. Ingibjörg, um leið og ég votta þér og fjölskyldunni samúð mína vil ég þakka fyrir góð kynni í öll þessi ár. Þröstur V. Guðmundsson, fyrrverandi aðstoð- arskólastjóri Garðaskóla. Við Ragnar vorum vinir um áratuga skeið, eða allt frá því að við kynntumst í Kennaraskólan- um í lok sjöunda áratugarins. Þau tengsl styrktust enn betur eftir að ég kynntist konu minni, Þór- dísi, en hún og Ingibjörg kona Ragnars höfðu verið vinkonur frá barnsaldri. Ragnar var í skarpgreinur, skapandi og glaðlyndur. Hann hafði djúpstæðan og lifandi áhuga á skólamálum sem og mannlífinu í allri sinni mynd. Hann byrjaði að kenna í Öldu- túnsskóla strax að loknu námi. Í skólasamfélaginu naut hann trausts og virðingar, var hug- myndaríkur og skapandi kennari sem vakti eftirtekt. Jafnframt kennslunni vann hann fyrir menntamálaráðuneytið að gerð námsefnis í samfélagsfræði fyrir grunnskóla. Seinna á ævinni skrifaði Ragnar spennubækur fyrir unglinga. Hann skildi vel hugarheim unglinganna og bæk- urnar hittu í mark og urðu vin- sælar eins og við var að búast. Hann sat um skeið í stjórn Námsgagnastofnunar, var einnig formaður Vímulausrar æsku um árabil. Ragnar hætti kennslu í nokkur ár og vann þá sem útgáfu- stjóri hjá bókaútgáfunni Vöku – Helgafelli. Hann fór síðan aftur að kenna, varð deildarstjóri í Garðaskóla allt þar til hann var ráðinn skólastjóri Foldaskóla ár- ið 1992. Þeirri stöðu gegndi hann í tíu ár, eða þar til hann varð skólastjóri Garðaskóla 2002. Maður eins og Ragnar hefur ekki eitt áhugamál, heldur mörg. Eitt þeirra var tónlistin. Hann var tónlistarmaður af guðs náð, spilaði á gítar, mandólin, munn- hörpu, harmónikku og hljómborð og er þá ekki allt upp talið. Á fyrstu árum sínum í kennslu í Öldutúnsskóla stofnaði hann ásamt nokkrum samkennurum sínum söngsveitina Randver. Söngsveitin gaf út nokkrar plötur og naut mikilla vinsælda. Í gegn- um tónlistina fékk Ragnar útrás fyrir sköpunargleðina, enda fær spilari. Ég gekk til liðs við Rand- ver fyrir u.þ.b. 15 árum. Þarna vorum við þrír skólastjórar og einn háskólakennari, sem hitt- umst einu sinni í viku og spiluð- um saman. Tíminn átti til að teygjast, því að jafnframt því að spila var tekinn tími í að spjalla um heima og geima. Ragnar hrókur alls fagnaðar, umræðu- efnin skólamál, þjóðmál, tónlist, bókmenntir og svo mætti áfram telja. Það var alltaf grunnt á húmornum hjá Ragnari, svolítið gráglettinn og djúpur. Alltaf skemmtilegur. Ragnar og Ingibjörg fóru í framhaldsnám til Danmerkur og þangað heimsóttum við Þórdís þau og áttum með þeim ánægju- legar stundir. Eftirminnileg er ferðin til Soreyjar á slóðir Jón- asar Hallgrímssonar. Þegar Ragnar veiktist leitaði hann sér lækninga til Svíþjóðar. Eins og ávallt stóð Ingibjörg við hlið hans eins og klettur. Við Þór- dís urðum þeirrar ánægju aðnjót- andi að heimsækja þau til Stokk- hólms. Það voru dýrmætar stundir. Við röltum um borgina, skoðuðum merka staði og nutum samverunnar með þeim hjónum. Við Þórdís þökkum Ragnari einstaka vináttu um áratuga skeið og vottum Ingibjörgu konu hans, börnum, barnabörnum, ættingjum og vinum okkar dýpstu samúð. Sigurður Björgvinsson. Önnumst alla þætti útfararinnar ÚTFARARSTOFA KIRKJUGARÐANNA Vesturhlíð 2 • Fossvogi • Sími 551 1266 • www.utfor.is Þegar andlát ber að höndum REYNSLA • UMHYGGJA • TRAUST ✝ Hugheilar þakkir færum við öllum sem sýndu okkur samúð og hlýhug vegna andláts og útfarar KARLS GUÐMUNDSSONAR verkfræðings. Ásta Hannesdóttir, Rósa Karlsdóttir, John Fenger, Hólmfríður Karlsdóttir, Elfar Rúnarsson, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Pabbi okkar, tengdapabbi, afi og langafi, GUÐNI JÓNSSON, Hellu, verður jarðsunginn frá Oddakirkju föstudaginn 28. febrúar kl. 14.00. Þeir sem vilja minnast hans láti dvalar- heimilið Lund njóta þess. Hrafnhildur Guðnadóttir, Friðrik Magnússon, Hjördís Guðnadóttir, Auðun Gunnarsson, barnabörn og barnabarnabörn. Formáli | Minningargreinum fylgir formáli sem aðstandendur senda inn. Þar kemur fram hvar og hvenær sá sem fjallað er um fæddist, hvar og hvenær hann lést og loks hvaðan og hvenær útförin fer fram. Þar mega einnig koma fram upplýsingar um foreldra, systkini, maka og börn, svo og æviferil. Myndir | Hafi mynd birst í tilkynningu er hún sjálfkrafa notuð með minningargrein nema beðið sé um annað. Ef nota á nýja mynd skal senda hana með æviágripi í innsendikerfinu. Hafi æviágrip þegar verið sent má senda myndina á netfangið minning@mbl.is og gera umsjón- arfólki minningargreina viðvart. Minningargreinar

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.