Morgunblaðið - 08.07.2014, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 08.07.2014, Blaðsíða 25
MINNINGAR 25 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 8. JÚLÍ 2014 aldrei að vita hvað gerist. Eftir að amma lést leit ég reglulega út um eldhúsgluggann til að athuga hvar ljós væri í glugga hjá þér. Oftast var ljós í eldhúsinu og þú við eldhúsborðið eitthvað að bralla. Ég var alltaf öruggari með að vita hvað þú værir að gera og einnig má telja að þetta hafi líka verið örlítil for- vitni. Ég mun halda áfram að líta reglulega yfir og athuga hver staðan er hinum megin eins og ég orðaði það. Þó svo að þið amma séuð nú komin í annan heim get ég lofað því að það verður áfram líf og fjör í Víðidal og ég veit að þið munuð halda áfram að líta eftir okkur. Þótt höggið sé mikið og þú sért farinn frá okkur án nokkurs aðdraganda er ég mjög þakklát fyrir að þú skyldir fá að fara eins og þú vildir sjálfur; heima, í hey- skapnum að garða á Deutzinum þínum með Aron og pabba þér við hlið. Ég kveð þig í bili, elsku afi minn, og þakka fyrir allar stund- irnar sem við áttum saman og vísurnar sem þú hefur ort til okkar, þær munu varðveitast vel. Ég bið kærlega að heilsa ömmu, þú knúsar hana frá mér, eigið góðar stundir saman. Þín Helga Sjöfn. Elskulegur afi minn. Nú er samleið okkar á þessari jörð á enda og er ég mjög þakklátur fyrir þann tíma sem við fengum saman. Þú varst góður vinur og fyrirmynd mín í einu og öllu. Allt frá því að ég var smápolli var ég mikið með þér í búskapnum og lærði flestalla þá búskaparhætti sem ég kann af þér og munu þeir nýtast mér vel í náinni framtíð. Við stóðum ævinlega saman í öllu og gerðum fram á síðasta dag. Ekki hefur alltaf verið öf- undsvert fyrir pabba að þurfa að eiga við okkur báða í búskapnum því að við gátum verið þrjóskir og höfðum okkar skoðun á hlut- unum. Þegar ég hugsa til baka er það fyrsta sem kemur í hug- ann söngurinn og gleðin sem ein- kenndi þig og er það mér mikill heiður að hafa náð nokkrum ár- um með þér í Karlakórnum Heimi. Ég þakka fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mun halda upp á allar vísurnar og heilræðin sem þú gafst mér. Ég er viss um að hvar sem þú ert ertu á hestbaki á honum Mósa þínum og syngjandi í góðra vina hópi. Farðu í friði, farðu hljótt færðu kveðju mína. Þig drottinn leiði dag sem nótt í dýrðarljóma sína. Þinn Aron. Þá ertu farinn elsku afi minn. Ég bjóst ekki við því að þurfa að kveðja þig alveg strax og er það því erfiðara en ella að sitja hérna og skrifa minningarorð til þín. Þú varst svo mikill vinur sem hægt var að spjalla við um allt á milli himins og jarðar. Aldrei vottaði fyrir dómhörku heldur varstu umfram allt umburðar- lyndur og komst fram við alla sem jafningja. Þú varst alltaf svo hlýr og tilfinningin sem fylgdi því að koma og vera hjá þér í Víðidal er ólýsanleg. Alltaf stóðstu á tröppunum með út- breiddan faðminn þegar rennt var í hlað. Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir öll árin sem ég fékk að hafa þig hjá mér og allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Þegar ég hugsa til baka geri ég mér grein fyrir því að allar minningarnar eru góðar minn- ingar, hvergi hefur fallið á skuggi. Sérstaklega er ég glöð yfir því að hafa fengið að vera hjá ykkur ömmu heilu sumrin á unglingsárunum. Það var alveg sérstakt andrúmsloft á heim- ilinu. Gífurlegur hressleiki og fé- lagslyndi hefur alla tíð einkennt þig og hlátur og gleði sem smita út frá sér. Það er sjaldan jafn- gaman og þegar við afkomendur ykkar ömmu komum saman, þá er heldur betur hlegið, sungið og spjallað. Við frændsystkinin eru gífurlega náin og auðvitað er það ykkur að þakka. Það hefur alla tíð verið haldið þétt um hópinn og er vináttan, virðingin og um- hyggjan sem ríkir okkar á milli bein afleiðing þess. Síðasta árið var auðvitað mjög frábrugðið þeim sem á undan voru. Þú tókst því að verða einn í kotinu með mikilli ró. Þú lærðir að elda og búa einn en varst samt duglegur við að sækja þér félagsskap. Þú varst vinmargur og áttir því létt með að skella þér í heimsóknir þegar þannig stóð á. Það er huggun harmi gegn að hugsa til þess að nú eruð þið amma sam- einuð á ný og haldið hönd í hönd saman út í eilífðina. Takk fyrir allt og allt elsku afi. Ég sakna þín. Marta Rut Ólafsdóttir. Kæri Stefán föðurbróðir minn. Ég vil þakka fyrir alla hlýjuna og góðvildina alla tíð. Mig langar að kveðja þig með þessum sígilda og fallega sálmi: Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. Grátnir til grafar göngum vér nú héðan, fylgjum þér, vinur. Far vel á braut. Guð oss það gefi, glaðir vér megum þér síðar fylgja’ í friðarskaut. (Vald. Briem) Hvíldu í friði, kæri frændi. Elsku frændfólk, Haddi, Pétur, Sigga, Magga og fjölskyldur. Minningin um yndislegan föður, tengdaföður, afa og langafa mun styrkja ykkur í sorginni. Jóhanna Sigurðardóttir. Ég vil minnast hér með nokkrum orðum hjónanna frá Víðidal, Stefáns Gunnars Har- aldssonar, sem lést 24. júní síð- astliðinn, og Mörtu Fanneyjar Svavarsdóttur, sem lést á síðasta ári. Í Víðidal hef ég komið svo lengi sem ég man enda ríkti mik- il vinátta á milli Mörtu frænku minnar og móður minnar. Víði- dalur iðaði af vinnusemi, gleði, gestrisni og tónlist. Þangað var gott að koma og tóku hjónin mér alltaf fagnandi og af kærleika. Eftir að fjölskylda mín flutti til Akureyrar dvaldi ég í Skagafirði flest skólafrí og kom það þá oft í hlut þeirra Stebba og Mörtu að keyra mig í rútuna eða sækja mig í Varmahlíð. Á unglingsárunum þegar tjaldútilegurnar tóku við var gott að koma í Víðidal og fá að strauja dressið og njóta samveru við heimilisfólkið. Síðar mætti ég með Tedda minn og börnin í ára- raðir þar sem okkur var fagnað og við umvafin. Þar höfum við átt margar gleðistundir í gegn- um tíðina sem við erum þakklát fyrir. Auk þess var ómetanlegt að fá sent jólatré úr firðinum fagra árum saman. Ég vil þakka Stebba og Mörtu fyrir kærleika og vináttu sem þau sýndu mér og mínum alla tíð. Elsku Haddi, Pétur, Sigga, Magga og fjölskyldur. Ég og fjölskylda mín sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hjónanna frá Víðidal. Helga Pálmadóttir. Í dag fylgjum við Stefáni föð- urbróður mínum hinsta spölinn. Ég minnist Stebba frænda míns með virðingu. Hann var maður sem bar höfuðið hátt, var hreinskiptinn, hjartahlýr og glaðlyndur. Það var alltaf gaman að hitta Stebba, spjalla, gantast og hlæja. Stebbi var söngelskur og tónelskur og hafði unun af því að spila á píanó og syngja. Hann var einnig hagmæltur og til eru fjölmörg ljóð eftir hann, mörg ort til ástvina hans. Hann var fé- lagslyndur og duglegur allt til hinstu stundar að sækja skemmtanir heima og að heim- an. Allt frá fyrstu stundu til hinn- ar síðustu, í næstum átta ára- tugi, ræktuðu þeir með sér náið bræðrasamband hann og faðir minn, tæplega sex ára aldurs- munur, Stebbi stóri bróðirinn sem alltaf var til staðar. Sam- band þeirra einkenndist af trausti og kærleika. Nú eru þau bæði horfin á braut, sómahjónin Marta og Stebbi í Víðidal, en hópurinn þeirra mun halda uppi heiðri þeirra og minningu. Elsku Stebbi. Þú varst föður mínum traustur og kærleiksrík- ur bróðir. Það var gott að eiga þig að. Hjartans þakkir fyrir allt. Hafðu Guðs blessun. Elsku frændsystkini mín Magga, Sigga, Pétur, Haddi og fjölskyld- an öll, hugur okkar Óla er hjá ykkur. Helga Sigurðardóttir. Í dag kveðja vörubílstjórar í Skagafirði einn af félögum sínum og samstarfsmann um áratuga skeið, Stefán Haraldsson í Víði- dal. Stefán gekk til liðs við Vöru- bílstjórafélag Skagafjarðar árið 1960 og starfaði þar á eigin vöru- bifreið í hátt í fjóra áratugi, mest við vegagerð og flutninga af ýmsu tagi. Hann byrjaði með litla 5-6 tonna bensínvörubíla eins og flestir á þessum tíma en fljótt stækkuðu bílarnir hjá hon- um og sá síðasti sem hann keypti var stærsta gerð af Scania, sem fékk nafnið Stóri Super. Á þess- um tímum voru vinnuflokkar að störfum í vegagerð og haldið var til í skúrum á vinnusvæðinu. Stebbi var skemmtilegur vinnu- félagi og gott að vera með hon- um í þessum úthöldum. Oft var slegið á létta strengi á kvöldin, sagðar gamlar sögur af svaðil- förum vörubílstjóra í hópnum eða einhverju öðru og mikið hlegið. Einstaka sinnum kom fyrir að teknar voru rispur með stóru R, til að hreinsa hugann og létta lundina, og þá var oft sung- ið mikið og munaði þar um söng- manninn Stebba í Víðidal. Nú þegar leiðir skilja og þú, Stebbi minn, hefur lagt í þá ferð sem allra bíður, viljum við þakka þér samstarfið og samveruna í gegn- um tíðina. Við fráfall góðs vinar lítur maður gjarnan um öxl og hugsar til baka. Það hefur verið gott að eiga þig að vini og sam- starfsmanni bæði í vinnu og í Karlakórnum Heimi, en þar átt- um við samleið í 15 ár af þeim 60 sem þú varðir í þeim ágæta félagsskap. Minningin um góðan samferðamann mun lifa í hjört- um okkar. Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama; en orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur. (Úr Hávamálum) Kæru vinir, Haddi, Pétur, Sigga, Magga og fjölskyldur. Við Sigurbjörg sendum inni- legar samúðarkveðjur til ykkar allra. Jón Sigurðsson. ✝ Ástkær eiginkona mín, dóttir, tengdadóttir, systir, móðir, tengdamóðir og amma, RAGNHEIÐUR ELÍSABET JÓNSDÓTTIR frá Litlu-Reykjum, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands hinn 3. júlí. Útförin fer fram frá Selfosskirkju miðvikudaginn 9. júlí kl. 13.30. Fyrir hönd aðstandenda, Þorvaldur Þórarinsson. ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir, afi og langafi, SIGURÐUR GUÐNASON, Herjólfsgötu 15, Vestmannaeyjum, lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja aðfaranótt sunnudagsins 6. júlí. Hann verður jarðsunginn frá Landakirkju laugardaginn 12. júlí kl. 14.00. Þeim sem vilja minnast Sigurðar er bent á Landssamtökin Þroskahjálp. Lilja Ársælsdóttir, Laufey Sigurðardóttir, Gunnar Einarsson, Lovísa Sigurðardóttir, Guðmundur Sv. Hermannsson, Guðni Sigurðsson, Olga Sædís Bjarnadóttir, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Hjartkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir, afi og langafi, EÐVAR Ó. ÓLAFSSON, lést á Landspítalanum, Fossvogi, laugardaginn 5. júlí. Útför hans fer fram frá Víðistaðakirkju mánu- daginn 14. júlí og hefst athöfnin kl. 15.00. Guðbjörg Guðjónsdóttir, Ólöf Eva Eðvarsdóttir, Trausti Jóhannsson, Hrund Eðvarsdóttir, Þorsteinn G. Aðalsteinsson, Gerður Eðvarsdóttir, Gísli Halldór Halldórsson, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, RAGNHEIÐUR KRISTINSDÓTTIR, Hrafnistu, Hafnarfirði, lést á Landspítalanum, Fossvogi, sunnudaginn 6. júlí. Ásta Úlfarsdóttir, Kristinn Þórir Sigurðsson, Þórunn Úlfarsdóttir, Haraldur Þór Ólason, Ásgeir Úlfarsson, Ína Skúladóttir, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Elskulegur eiginmaður minn, faðir, tengda- faðir, afi og langafi, KRISTJÁN GUNNLAUGUR BERGJÓNSSON (DIDDI) trésmiður, Dalsmynni, Dalbraut 6, Búðardal, andaðist föstudaginn 4. júlí á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Silfurtúni. Útförin verður haldin í kyrrþey en þeim sem vilja minnast hans er bent á Minningarsjóð Silfurtúns. Fjölskyldan þakkar starfsfólki Silfurtúns fyrir góða umönnun og mikla alúð. Guðbjörg Margrét Jónsdóttir (Bigga), Magnína Guðbjörg Kristjánsdóttir, Sigurður Ingvason, Ásthildur Kristjánsdóttir, Jóhann Þór Baldursson, Jónheiður Berglind Kristjánsdóttir, Pétur Ó. Pétursson, afabörn og langafabörn. ✝ Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, GUÐJÓN INGVI SÆMUNDSSON frá Borðeyrarbæ, Kveldúlfsgötu 24, Borgarnesi, verður jarðsunginn frá Prestbakkakirkju í Hrútafirði fimmtudaginn 10. júlí kl. 14.00. Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir, en þeim sem vilja minnast hans er bent á líknarfélög. Sigurrós Jóhanna Sigurðardóttir, Sæmundur Ingvason, Valdís Vilhjálmsdóttir, Sigurður Ingvason, Magnína Kristjánsdóttir, Guðný Ingvadóttir, Gunnar Gunnarsson, Eiríkur Ingvason, Elísabet H. Haraldsdóttir, afa- og langafabörn. ✝ Eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, ERLA B. VIGNISDÓTTIR félagsliði, lést á líknardeild Landspítalans mánudaginn 30. júní. Jónas Þór Arthúrsson, Ester Sigurðardóttir, Jónína Kristín Arnarsdóttir, Pétur Ragnar Arnarsson, tengdabörn, barnabörn og langömmubörn. ✝ Sonur minn og bróðir okkar, EIRÍKUR BECK STEINGRÍMSSON, Hamraborg 16, Kópavogi, lést á Landspítalanum, Hringbraut, sunnu- daginn 6. júlí. Ingibjörg Beck, Bjarni Steingrímsson, Páll Steingrímsson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.