Fréttablaðið - 11.04.2013, Síða 34
11. APRÍL 2013 FIMMTUDAGUR2 ● fréttablaðið ● mastersmótið 2013
Þorsteinn Hallgrímsson og mynda-
tökumaðurinn Friðrik Þór Halldórs-
son hafa undanfarna daga dvalið í
Georgíu og fylgst með aðdraganda
Masters-mótsins á Augusta National-
vellinum. Þeir eru þar að safna efni
í sjónvarpsþátt sem sýndur verður á
Stöð 2 Sport. Þetta er annað árið í röð
sem þeir félagar skella sér á Masters
og munu gefa íslenskum golfáhuga-
mönnum innsýn inn í þetta vinsæla
risamót.
„Við erum búnir að vera hér frá
því á sunnudag og höfum verið dug-
legir við að safna efni. Við urðum t.d.
vitni að því á mánudag þegar banda-
ríski kylfingurinn John Huh fór
holu í höggi á 16. braut. Við misst-
um reyndar af högginu þar sem
við vorum að mynda Tiger Woods á
sama tíma slá af 17. teig,“ segir Þor-
steinn og hlær.
Gríðarleg öryggisgæsla er á Aug-
usta National-vellinum og það er
ekki hlaupið að því að ná kylfingum
í viðtal. „Við erum reynslunni rík-
ari frá því í fyrra og kunnum betur
á þetta. Við náðum í nokkur góð við-
töl við kylfinga eins og Henrik Sten-
son, fyrrverandi risameistarana Ben
Crenshaw og Jose Maria Olazabal,
og David Toms. Við ræddum einnig
við Belgann Nicolas Colsaerts. Það
hefur hins vegar verið mjög erfitt að
ná þessum stórstjörnum í viðtöl. Það
er mikil gæsla og aðeins hægt að ná
viðtali við þessa kappa við klúbbhús-
ið. Aðgengi að leikmönnum er mjög
takmarkað. Okkur hefur hins vegar
tekist að ná í mikið af góðu efni sem
við munum sýna í sérstökum þætti
um ferð okkar á Masters,“ segir Þor-
steinn.
ALLIR VEÐJA Á TIGER WOODS
Tiger Woods fær mikla athygli í að-
draganda Masters-mótsins og nafn
hans virðist vera á allra vörum.
Hann hefur fjórum sinnum staðið
uppi sem sigurvegari á Masters og
Þorsteinn telur hann líklegan til af-
reka um helgina.
„Það spá allir Tiger Woods sigri
í þessu móti. Það er hins vegar ekk-
ert nýtt enda hefur hann verið tal-
inn sigurstranglegastur í þessu
móti síðast liðin fimmtán ár. Af
öðrum kylfingum minnast margir á
Phil Mickelson, Justin Rose og Lee
Westwood. Þetta eru allt kylfingar
sem hafa verið í toppbaráttunni und-
anfarin ár. Völlur inn hentar auðvitað
sumum kylfingum betur en öðrum.
Þó að Rory McIlroy hafi ekki gengið
vel í ár er hann líklegur eftir að hafa
orðið í öðru sæti í Texas um síðustu
helgi,“ segir Þorsteinn, sem telur að
mótið muni vinnast á flötunum.
„Flatirnar eru gríðarlega erfið-
ar og mikið landslag. Við fylgdumst
með mörgum kylfingum að pútta á
vellinum í gær og það kemur manni
hreinlega á óvart hversu mikið brot
er í flötunum. Það skiptir miklu
máli að hafa góða lengdarstjórnun,
sjálfstraust á flötunum og vera réttu
megin við holuna.“
AUGUSTA NATIONAL SKARTAR SÍNU
FEGURSTA
Það er ekkert til sparað til að gera
þetta fyrsta risamót ársins eins
glæsilegt og mögulegt er. Starfs-
menn vallarins vinna baki brotnu
við að fínpússa hvert einasta smá-
atriði í vellinum og var 14. flötin á
vellinum sem dæmi endurbyggð frá
grunni fyrir mótið í ár. Þorsteinn
segir að völlurinn líti jafnvel betur út
en fyrir ári síðan. „Völlurinn er í frá-
bæru ásigkomulagi og margir vilja
meina að hann sé betri í ár en á síð-
asta ári. Vorið kom aðeins fyrr á síð-
asta ári og það varð til þess að blóm-
in voru búin að blómstra fyrir mótið.
Þau eru akkúrat að blómstra núna
og völlurinn skartar sínu fegursta.
Nokkrir kylfingar höfðu það á orði
við okkur að flatirnar væru hraðari
en á síðasta ári og ef það reynist rétt
þá verður gífurlegur hraði á flötun-
um,“ segir Þorsteinn.
Líklega er ekkert golfmót í heim-
inum sem hefur sama sjarma og
Masters-mótið á Augusta National.
Mótið er eina risamótið sem ávallt
fer fram á sama vellinum og það að
klæðast græna jakkanum í mótlok er
draumur allra kylfinga.
„Það er mögnuð stemning á Aug-
usta National. Miðar á æfingahring
á mánudeginum voru að fara á svört-
um markaði fyrir um 1.000 dali, sem
eru gríðarlega fjárhæðir og sýnir
ótrúlegar vinsældir mótsins,“ segir
Þorsteinn. „Það er einnig magnað
að allt sem selt er inni á svæðinu
er merkt Masters bak og fyrir. Það
er hreinlega allt grænt á Augusta
National.“
Búist við gífurlega hröðum
flötum á Masters í ár
Þorsteinn Hallgrímsson
og Friðrik Þór Halldórs-
son fá tækifæri til
að kynnast Masters-
mótinu á einstakan
hátt. Þorsteinn sést hér
við háborðið í blaða-
mannaherberginu
þar sem kylfingarnir á
Mastersmótinu munu
fara yfir gang mála eftir
hvern hring. Friðrik Þór
Halldórsson er síðan
að sjálfsögðu klár með
vélina en þáttur um ferð
þeirra verður sýndur á
Stöð 2 Sport.
Körfuknattleiksmaðurinn Páll Axel Vilbergsson er
mikill aðdáandi Tiger Woods. Hann þefar uppi allar
beinar útsendingar frá þeim mótum sem Woods
leikur í en áhuginn dvínar ansi hressilega þegar
Woods er ekki með. Páll Axel spáir Woods öruggum
sigri á Masters í ár.
„Ég er rosalegur Tiger-maður. Ég sit límdur við
skjáinn þegar hann er að keppa. Tiger er búinn
að vera í uppsveiflu og hrista af sér persónuleg
vandamál. Það mun hjálpa honum að hann tók sér
frí fyrir mótið og kemur mjög ferskur og hungraður
inn í mótið. Ætli að hann verði ekki með 5-6 högga
forystu fyrir lokadaginn og svo klárar þetta örugg-
lega,“ segir Páll Axel, sem á ekki von á óvæntum
úrslitum.
„Það getur auðvitað allt gerst og það hafa nöfn
unnið þetta mót sem maður hafði aldrei heyrt um.
Ég held hins vegar að þetta verði árið hans Tigers.
Það verða samt þekkt nöfn í næstu sætum fyrir
neðan og kæmi mér ekkert á óvart ef það væru
bara stórstjörnur í lokaráshópunum á sunnudag.“
Páll Axel Vilbergsson
Tiger Woods
Leikarinn Gunnar Hansson er liðtækur kylfingur en
hann er með í kringum fjóra í forgjöf. Gunnar ætlar
ekki að láta Mastersmótið fram hjá sér fara og hefur
mikið dálæti af mótinu. Hann segir að erfitt verði að
horfa fram hjá Tiger Woods í ár og að hann sé mjög
sigurstranglegur.
„Það eru mestar líkur á að Tiger vinni þetta. Hann
hefur verið frábær í ár og er kominn með blóðið á
tennurnar. Það væri auðvelt að veðja á hann. Rory
McIlroy gæti einnig náð góðum árangri. Hann varð
í öðru sæti um síðustu helgi og þó að hann hafi
ekki verið að spila eins vel og í fyrra þá gæti hann
alveg unnið. Það eru alveg 25 kylfingar sem koma
til greina,“ segir Gunnar. Hann ætlar þó að veðja á
sinn uppáhaldskylfing til sigurs í ár.
„Sergio Garcia hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá
mér og það er rosalega gaman að sjá hann spila.
Hann fór í niðursveiflu fyrir nokkrum árum og virtist
ekki hafa sjálfur gaman af þessu. Það er allt annað
að sjá til hans núna og hann hefur verið góður
síðustu mánuði. Það er kannski frekar óskhyggja en
eitthvað annað að hann vinni. Það væri leiðinlega
skynsamlegt að veðja á Tiger og því segi ég Garcia.“
Gunnar Hansson
Sergio Garcia
Fjölmiðlamaðurinn Heimir Karlsson er gríðarlega
spenntur fyrir Masters-mótinu í ár og reiknar með
því að fylgjast með öllum fjórum keppnisdögunum.
Heimir er líka hinn fínasti kylfingur og hefur verið
duglegur að þræða golfmót í vetur og hita upp fyrir
golfsumarið sem er handan við hornið. Hann þarf
ekki langan umhugsunarfrest til að spá fyrir um
sigurvegara.
„Ég spái Dustin Johnson sigri – ekki spurning,“
segir Heimir. „Ég hef mikla trú á Johnson í ár. Þetta
er gríðarlegur íþróttamaður og hefur allt til þess að
ná mjög langt í íþróttinni. Hann hefur mikla högg-
lengd, er ungur og mjög fær kylfingur. Ég veðja á
hann.“
Heimir telur að mótið í ár eigi eftir að verða
spennandi. „Já, ég reikna með því. Það spá allir Tiger
Woods sigri í mótinu og það kæmi mér ekkert
á óvart. Tiger verður án efa meðal efstu manna.
Svo eru kylfingar líkt og Rory
McIlroy, Brandt Snedeker
og Phil Mickelson sem
gætu allir unnið þetta mót.
Masters-mótið er ásamt
Opna breska það mót sem
maður lætur ekki fram hjá sér
fara.“
Heimir Karlsson
Dustin Johnson
Atvinnukylfingurinn Ólafur Björn Loftsson á von á
spennandi Masters-móti í ár. Hann hefur mikla trú
á kylfingum á borð við Charl Schwartzel, Keegan
Bradley, Lee Westwood, Matt Kuchar, Brandt
Snedker og Steve Stricker.
„Þetta á eftir að verða mjög spennandi mót.
Westwood er talinn vera besti kylfingur heims
sem ekki hefur unnið risamót enda hefur hann sjö
sinnum lent í þremur efstu sætunum í risamóti án
þess að sigra. Ég held að hann verði í baráttunni í
ár ef pútterinn verður í lagi. Keegan Bradley, Matt
Kuchar og Brandt Snedker eru einnig líklegir. Ég hef
mikla trú á Steve Stricker,“ segir Ólafur.
„Ég myndi aldrei veðja gegn Rory McIlroy eða
Phil Mickelson sem eru alltaf líklegir en mér finnst
engin spurning um hver er besti kylfingur heims
um þessar mundir. Tiger Woods er langsigurstrang-
legastur að mínu mati. Hann hefur sigrað þrisvar í
ár og það er ekki annað hægt en að spá honum 15.
risatitlinum á Masters í ár.“
Ólafur Björn Loftsson
Tiger Woods