Fréttablaðið - 28.11.2013, Síða 29
FIMMTUDAGUR 28. nóvember 2013 | SKOÐUN | 29
Íslendingar eru neyslufrekasta þjóð
heims. Það þýðir að engin önnur
þjóð notar meira af auðlindum jarð-
ar til að viðhalda lífsstíl sínum. Ef
allir jarðarbúar myndu haga lífi
sínu á sama hátt og meðal Íslend-
ingurinn, þyrftum við sex jarðir
til að anna eftirspurninni. En við
eigum ekki sex jarðir – við eigum
aðeins eina. Sú staðreynd er eina
óbreytanlega stærðin í reiknings-
dæmi tilvistar okkar.
Við Íslendingar tilheyrum ásamt
öðrum íbúum Vesturlanda þeim
tuttugu prósentum jarðarbúa sem
nýta tæplega 90 prósent gæða jarð-
ar. Á sama tíma njóta önnur 20 pró-
sent jarðarbúa, þau sem fátækust
eru, einungis tæplega tveggja pró-
senta þeirra gæða sem jörðin hefur
upp á að bjóða. Á meðan við Íslend-
ingar eyðum auðlindum jarðar á
sexföldum endurnýjunarhraða nátt-
úrunnar göngum við ekki aðeins á
mannréttindi annarra jarðarbúa
heldur gröfum við undan framtíð
okkar eigin barna. Loftslagsbreyt-
ingar eru bein afleiðing ofneyslu
mannsins á auðlindum jarðar og
það getur enginn stöðvað þann víta-
hring nema við.
Vísindaleg samstaða ríkir um
þá spá að án alvarlegrar íhlutunar
muni sífellt stærri hluti mannkyns
þurfa að takast á við ofsafengnar
náttúruhamfarir og skort – ekki síst
skort á drykkjarvatni því miðað við
framreiknaða bráðnun jökla mun
ferskvatnsuppspretta 40% mann-
kyns hverfa á næstu áratugum.
Hvað getum við gert? Við getum
öll innt af hendi verulegt framlag
með því að endurskoða lífsstíls-
val okkar og neysluvenjur, sem
og afstöðu okkar til athafna sem
skaða eða breyta náttúrunni varan-
lega. Hlýnun jarðar verður þó ekki
stöðvuð nema með sterku samstilltu
átaki þjóða.
Blekking
Einhverjir hafa bent á þá þversögn
að til að stemma stigu við lofts-
lagsbreytingum þurfi stjórnmála-
menn að taka óvinsælar ákvarðan-
ir sem skerði lífsgæði okkar og þar
af leiðandi muni þeir stjórnmála-
menn aldrei verða kjörnir.
Þessi þversögn er blekking því
hún skilgreinir lífsgæði út frá
neyslu. Það vita það allir sem eru
eldri en tvævetur að lífshamingj-
an finnst ekki í neysluvörum. Póli-
tískar ákvarðanir sem leggja höft
á ofneyslu og útblástur gróður-
húsalofttegunda eru ákvarðan-
ir sem stuðla að hreinna and-
rúmslofti, tryggara aðgengi að
drykkjarvatni, stöðugri veðurskil-
yrðum, færri náttúruhamförum og
almennt betri lífsskilyrðum allra
jarðarbúa. Þeir sem ekki kjósa að
horfa heildrænt á hlutina halda að
þetta þýði afturhvarf til fortíðar,
stöðnun lífshátta og andúð á tækni-
framförum. Nema síður sé. Tækni-
framförum ber að fagna. Þær hafa
skilað okkur aukinni hagkvæmni í
nýtingu auðlinda auk annarra aug-
ljósra kosta sem óþarfi er að til-
taka hér. Það sem vill hins vegar
oft fylgja tækniframförum sem
skila aukinni hagkvæmni í nýt-
ingu auðlinda eru hin svoköll-
uðu frákastsáhrif. Þau fela í sér
að umhverfislegi ávinningurinn
sem fæst við aukna hagkvæmni
er notaður í aðra neyslu og eyðir
því jafnfljótt ávinningnum. Þann-
ig má ljóst vera að það sem til
þarf er langt frá því að vera and-
staða gegn tækni og vísindum. Það
sem til þarf er hugarfarsbreyting
þeirra sem njóta góðs af tækni-
framförum. Hugarfarsbreyting
okkar allra. Hún felst meðal ann-
ars í því að finna út úr því hvern-
ig tækniframfarir geta stuðlað að
aukinni velferð allra í stað vaxtar
sumra. Og þar er velferð jarðar-
innar ekki undanskilin.
Dvergvaxnar fórnir
Baráttan gegn loftslagsbreyt-
ingum er því handan stjórnmála-
skoðana og flokkspólitíkur – við
eigum öll sameiginlegan viljann
til að lifa af og búa börnum okkar
góða framtíð. Stjórnmálamenn
allra flokka þurfa að taka einarða
afstöðu með mannfólkinu og þar
með náttúrunni því tíminn til að
bregðast við er núna. Löngu áður
en sjálfbærni varð tískuorð höfðu
frumbyggjar Norður-Ameríku til-
einkað sér hugarfar sem fólst í að
hugsa um afleiðingar allra gjörða
sinna á lífsskilyrði sjöundu kyn-
slóðarinnar sem erfa skyldi jörð-
ina. Slíkur hugsanagangur er til
eftirbreytni. Það getur hins vegar
verið erfitt fyrir nútímamanninn
sem vill allt í dag – og helst mikið
af því – að setja sig í spor komandi
kynslóða og velta fyrir sér hverj-
ar afleiðingarnar af neysluvenjum
hans munu verða. Ef slík hugsun
er erfið þá er ljóst að hegðunar-
breytingin verður enn erfiðari. Ef
menn hins vegar staldra aðeins við
og velta fyrir sér hvað efnishyggj-
an hefur fært þeim samanborið
við hinar ýmsu einföldu hamingju-
stundir sem við öll þekkjum og
kosta ekki neitt ætti öllum að vera
ljóst að að þær breytingar sem
þurfa að eiga sér stað eru dverg-
vaxnar fórnir miðað við þann
ávinning sem er í húfi.
Heimildir um vistspor Íslend-
inga: http://skemman.is/stream/
get/1946/5384/16167/1/Vist-
spor_%C3%8Dslands.pdf
Beislum neysluna
LOFTSLAG
Sóley Kaldal
áhættu- og öryggis-
verkfræðingur og
doktorsnemi í
umhverfi sverkfræði
Steinar Kaldal
meistaranemi í
umhverfi sstjórnun
og stefnumótun
➜ Við getum öll innt af
hendi verulegt framlag með
því að endurskoða lífsstíls-
val okkar og neysluvenjur,
sem og afstöðu okkar til
athafna sem skaða eða
breyta náttúrunni varanlega.
Hlýnun jarðar verður þó
ekki stöðvuð nema með
sterku, samstilltu átaki
þjóða.