Fréttablaðið - 31.01.2014, Qupperneq 30
31. janúar 2014 FÖSTUDAGUR| SKOÐUN | 30
Í Fréttablaðinu 24. janúar
sl. er sagt frá því að Mjólk-
ursamsalan hafi uppi áætl-
anir um að framleiða skyr
í Bandaríkjum Norður-
Ameríku og nota til þess
íslenskt undanrennuduft.
Útflutningsverð
Á fundi Félags kúa-
bænda á Suðurlandi
3/10/2012 upplýsti for-
stjóri MS félagsmenn
um að útflutt undanrennuduft
væri selt á heimsmarkaðsverði
en undanrenna flutt út í formi
skyrs til Norðurlanda skilaði allt
að 50% hærra verði (http://www.
naut.is/fundargerdir/nr/16405/).
Við fyrstu sýn virðist því skyn-
samlegt frá sjónarhóli MS að
auka skyrútflutning og draga
úr útflutningi undanrennudufts.
Heimsmarkaðsverð á undan-
rennudufti er nú óvenju hátt eða
um 3.400 til 3.500 evrur á tonnið.
Meðalverð á árinu 2013 var um
3.000 evrur tonnið eða um 530
krónur á kílóið. Verð í USA virð-
ist heldur lægra en Evrópuverð.
Af undanrennudufti sem flutt
er til USA þarf að borga 10-15%
toll. Skilaverð á undanrennudufti
sem MS flytti út til USA og seldi
á búvörumarkaði þar væri því um
420 krónur á kílóið.
Aðstæður á markaði fyrir skyr
á Bandaríkjamarkaði eru talsvert
aðrar en á Norðurlöndum. Á Norð-
urlöndum situr MS og samstarfs-
aðilar ein að markaðnum og geta
hagað verðlagningu skyrs í sam-
ræmi við þá staðreynd. Í Banda-
ríkjunum er fyrir framleiðandi
sem framleiðir skyr úr banda-
rísku hráefni og dreifir til smá-
söluaðila. Vegna þessarar sam-
keppni getur MS ekki reiknað
með að verð á undanrennu í formi
skyrs á Bandaríkjamarkaði verði
hærra en verð á undanrennu í
duftformi, þ.e.a.s. að skilaverð til
Íslands verði ríflega 400 krónur á
kílóið af undanrennudufti.
Innanlandsverð
Verðlagsnefnd búvöru
ákvarðar heildsöluverð á
undanrennudufti. Mjólk-
urvöruframleiðendur
(hugsanlegir samkeppnisaðil-
ar MS) fá undanrennuduft á 758
krónur á kíló, aðrir matvæla-
framleiðendur fá undanrennu-
duftið á 645 krónur á kíló. Í þeim
tilvikum að MS kaupi undan-
rennuduft af sér sjálfri er hærri
talan lögð til grundvallar (http://
www.samkeppni.is/media/sam-
keppniseftirlit/akvardanir/2006/
akvordun39_2006_erindi_mjolku_
ehf_vegna_osta-_og_smjorsol-
unnar.pdf). Leiða má að því líkur
að framleiðslukostnaður undan-
rennudufts sé nálægt 700 krón-
um á kíló.
Skyrinu slett í USA
Fyrirsjáanlegt tap MS af því að
flytja hvert kíló undanrennu-
dufts til Bandaríkjanna er um
300 krónur á kíló. Þá á eftir að
fjármagna tæki og markaðssetn-
ingu sem hleypur á milljónum
dollara. Yfirgnæfandi líkur eru á
að MS þyrfti að leggja fé til skyr-
framleiðslunnar í USA í stað þess
að hafa tekjur af þeirri fram-
leiðslu. Þegar til lengri tíma er
litið eru aðeins tvær leiðir fyrir
MS til að fjármagna slíkan tap-
rekstur: annaðhvort með því að
lækka verð til bænda eða með
því að hækka verð á mjólkurvör-
um til neytenda. Lauslega áætlað
tap hleypur á tugum til hundraða
milljóna króna á ári. Ætli reynsl-
an kenni ekki að neytendur muni
sitja uppi með reikninginn fyrir
skyraustur MS í USA ef af verð-
ur?
Skyrinu slett
á annarra kostnað?
Á sunnudaginn lá leið mín
í Gálgahraunið til að berja
augum hraunflákana sem
fjaðrafokið hefur staðið
um. Mig langaði að skoða
þetta svæði sem öldungar
höfuðborgarinnar hafa lagt
sig í líma við að vernda.
Eftir að hafa horft á frétt-
ir af lögreglu að bera silf-
urhært fólki af vettvangi
mótmæla og hlustað á frétt-
ir af lögsóknum á hendur
hinum öldruðu langaði mig
til að vita um hvað þessi
styr stæði. Eiga Íslendingar ekki
nóg af hrauni? Skilti sem á stend-
ur Óviðkomandi bannaður aðgang-
ur vísar leiðina, ég ákvað að þetta
svæði væri mér viðkomandi og
steig yfir það. Breiður vegur ligg-
ur í gegn um hraunið í Garðabæ en
rétt áður en komið er að hraunklasa
sem minnir á ævintýrahöll úr álfa-
sögum hefur hann ekki enn verið
breikkaður. Stutt frá er reisulegur,
stórbrotinn þríhyrningslaga klett-
ur, þetta er augljóslega álfakirkjan.
Sorglegir fánar blakta í vindinum,
minnismerki burt bornu öldung-
anna. Ég stend á gulri þúfu framan
við álfakirkjuna og halla aftur aug-
unum. Töfrar liggja í loftinu, helgi
álfakirkjunnar gagntekur mig, á
svipaðan hátt og ég verð bergnum-
in í Skálholtskirkju. Í loftinu liggur
blessun. Ég arka hugfangin áfram
á milli tveggja stórra hraunstapa
sem standa tryggir eins og vernd-
arvættir.
Skyndilega breytist umhverfið,
ég er aftur stödd í Garðabæ, heyri
umferðarniðinn og sé ömurlegan
skurð á landinu. Uppbrot er á þeim
stað sem Kjarval dáði og opin-
beraði fegurð hraunsins í málverk-
um sínum.
Til að geta myndað sér skoð-
un um þennan stað þarf að fara á
hann. Ég skora á þig að gera það.
Ekki til að upplifa sorg yfir for-
gengileika náttúrunnar í höndum
ráðandi stjórnenda heldur til að
vita hvað við enn eigum. Enn stend-
ur álfakirkjan, enn er möguleiki á
breytingum áætlana, enn er hægt
að hliðra veginum fram hjá þess-
um náttúruminjum og útbúa göngu-
stíga þar sem skörðin eru um þessa
hraunþyrpingu. Ef það yrði gert
kæmist þá Garðabær á kort ferða-
manna? Myndi sérhver erlendur
ferðamaður vilja skoða það fyrir-
brigði sem Íslendingar meta að
verðleikum, hina stórbrotnu nátt-
úru á borgarsvæðinu? Eigum við
að valta yfir hraunið, eigum við að
láta það í friði, eigum við að láta
minnisvarða um breytt hugarfar
verða að eftirsóknarverðum segli?
Hvers virði er helgi náttúrunnar?
Enn stendur
álfakirkjan
Ég set niður þessi orð að
gefnu tilefni.
Í fámenninu hér á landi
telur fólk sig vita stjórn-
málaskoðanir annarra
og jafnvel afstöðu til ein-
stakra mála, án þess að
hafa nokkurn tíma hitt
viðkomandi. Við erum öll
dregin í dilka, jafnvel þó að
við höfum ekkert ákveðið
mark í eyra. Ég er óflokks-
bundin og hef aldrei komið
nálægt starfi stjórnmálaflokks, en
ég neyti að sjálfsögðu kosningar-
réttar míns. Þetta er mitt val, en
þar með er ekki sagt að ég sé skoð-
analaus eða áhugalaus um þjóð-
félagsmál eða að ég geri lítið úr
hæfni þeirra sem helga sig stjórn-
málum. Þvert á móti. Ég hef alltaf
haft brennandi skoðanir á málefn-
um líðandi stundar, á stjórnmálum
og ekki síður þeim flóknu áskor-
unum sem blasa við samfélagi
okkar í dag. En ég hef einfaldlega
hvorki skaplyndi né falla skoðanir
mínar í svo einhlítan farveg að ég
geti bundið trúss mitt við stefnu
eins stjórnmálaflokks fremur en
annars. Síðustu ár hafa aukinheld-
ur sýnt að það eru fleiri og jafn-
vel áhrifaríkari leiðir til að hafa
áhrif á samfélag sitt en að vera í
flokkspólitík, og því hef
ég fagnað því þegar mér
hefur verið treyst fyrir
stefnumótandi verkefnum
í samfélaginu.
Lykilatriði
Ég gegni tveimur trúnað-
arstörfum nú um stundir,
annars vegar er ég for-
maður vísindanefndar
Vísinda- og tækniráðs,
skipuð af Katrínu Jak-
obsdóttur, og hins vegar er ég í
stjórn Ríkisútvarpsins, tilnefnd
af Illuga Gunnarssyni. Ég hef
verið beðin að taka að mér þessi
mikilvægu störf af ráðherrum í
tveimur ólíkum flokkum vegna
starfsreynslu minnar og mennt-
unar, og ég hef gengið til þeirra
af trúnaði gagnvart þeim sem ég
starfa fyrir, sem eru vitaskuld
skattgreiðendur.
Umræðan á Alþingi um skipun
í stjórn Ríkisútvarpsins fælir fólk
eins og mig frá því að gefa kost
á sér í störf þar sem flokksleg-
ur stimpill virðist skipta megin-
máli, þó að verkefnin snúist fyrst
og fremst um faglega vinnu og
breitt samstarf. Það er lykilatriði
að Alþingi og stjórnvöld almennt
hugi ekki aðeins að nákvæmum
prósentureikningi svokallaðs
minni- og meirihluta heldur leit-
ist markvisst við að laða breiðan
hóp fagmanna að trúnaðarstörf-
um í samfélaginu.
Það var sannarlega mikil gæfa
að allir flokkar áttu fulltrúa í
stjórn Ríkisútvarpsins á síðustu
mánuðum, þegar miklir erfiðleik-
ar blöstu við stofnuninni. Stjórn-
armenn stóðu þá þétt saman og
störfuðu ekki á forsendum stjórn-
armeirihluta eða minnihluta,
heldur með hag Ríkisútvarpsins
að leiðarljósi. Sú eindrægni og
fagmennska kom vel í ljós þegar
stjórnin tók samhljóða ákvörðun
um ráðningu nýs útvarpsstjóra.
Meðal annars af þeirri ástæðu er
það dapurlegt að Pétur Gunnars-
son rithöfundur skuli ekki lengur
eiga sæti í stjórn Ríkisútvarpsins.
Að gefnu tilefni
Alþingi hefur nú tekið
til umfjöllunar flutning
á raforku og flutnings-
kerfi sérstaklega með
tilliti til notkunar jarð-
strengja. Rétt er því að
halda til haga hversu
hratt hefur molnað undan
málflutningi Landsnets í
umræðunni um flutnings-
kerfi raforku á undanförn-
um mánuðum.
Það verður að horfa á staðhæf-
ingar og síendurteknar upphróp-
anir forsvarsmanna Landsnets,
einkafyrirtækis með einokun á
flutningi raforku á Íslandi, í ljósi
þeirrar staðreyndar að þeir hafa
hver um annan orðið uppvísir að
því að stórýkja mun á kostnaði við
lagningu raflína í jörð eða í lofti.
Staðfest hefur verið að munurinn
er ekki fimm- til nífaldur eins og
talsmenn Landsnets héldu fram
síðast í janúar 2013 heldur er hann
óverulegur.
Þetta hefur ítrekað komið fram
og síðast nú í lok síðasta árs þegar
kynnt var athugun verkfræðinga
sem að beiðni Landsnets skoðuðu
mun á kostnaði við jarðstrengi og
loftlínur. Komust þeir að þeirri
niðurstöðu að beinn kostnaðar-
munur væri svona álíka og munur
á kostnaði við að reisa 220 kV loft-
línu samanborið við að reisa 132
kV línu sem bæði Landsnet og
Orkustofnun hafa talið óveruleg-
an. Forsvarsmenn Landsnets geta
því varla haldið þessum
málflutningi til streitu.
Það stendur enda heima
að strax er farið að halda
á lofti þeirri stefnu fyrir-
tækisins að byggja fáar
og öflugar línur af því að
stjórn Landsnets telji það
svo gott fyrir umhverf-
ið og stefnu fyrirtækis-
ins varðandi notkun jarð-
strengja sem hefur verið
óbreytt frá stofnun þess.
Öll nema Landsnet
Sú mantra er einnig tuggin ítrekað
að horfa þurfi langt fram í tímann
og gera ráð fyrir alls kyns hugs-
anlegri og óhugsanlegri stóriðju
á víð og dreif um landið. Mikil er
spádómsgáfa forsvarsmanna fyr-
irtækisins sem telja sig geta sagt
til um hvernig umhorfs verður á
Íslandi, jafnvel í heiminum öllum
eftir hundrað ár.
Í umræðu um jarðstrengi er rétt
að hafa í huga að jarðstrengja-
nefndin sem svo hefur verið köll-
uð hafnaði alfarið stefnu Lands-
nets í jarðstrengjamálum svo sem
fram kemur í gögnum hennar, en
forstjórinn gerði stefnu Landsnets
að sinni tillögu að lokaniðurstöðu
nefndarinnar. Ekkert af tillögum
hans rataði í sameiginlega niður-
stöðu nefndarinnar.
Til eru alþjóðleg samtök sem
fjalla um flutningskerfi raforku og
jarðkapla. Þessi samtök, Jicable,
halda reglulega ráðstefnur þar
sem farið er yfir þróun og áherslur
í flutningskerfum og þróun í jarð-
strengjum. Þessar ráðstefnur
sækja öll helstu flutningsfyrir-
tæki í heiminum, þar á meðal hið
norska, danska og önnur evrópsk
– nema Landsnet.
Margt merkilegt kemur sam-
kvæmt skýrslum fram á þessum
ráðstefnum og má nefna umræðu
um gagnsemi þess að að rýna í
óendanleikann og þörfina á nýrri
nálgun í hugsun við hönnun og
útfærslu flutingnsneta, þar sem
spurningar eru settar við hvort
sé endilega hagstæðast að hafa
fáar og stórar línur og hitt að telja
sig geta spáð fyrir um umhverfið
og afstöðu almennings eftir 70 ár
eða meir. Þessar spurningar hafa
greinilega ekki náð eyrum tals-
manna Landsnets.
Þeim er kannski nokkur vor-
kunn. Erfitt er að fóta sig þegar
veröldin hrynur og hvert hald-
reipið eftir annað hefur brostið.
Því er hangið á afdankaðri hug-
myndafræði síðustu aldar – eins
og hundur á roði.
Eins og hundur á roði
Hörmuleg dauðaslys í
umferðinni undanfarnar
vikur vekja til umhugsun-
ar um ástand þjóðvega á
Íslandi. Fjögur ungmenni
hafa látið lífið þegar bílar
úr gagnstæðri átt skullu
saman. Ef bílunum hefði
verið ekið á svokölluðum
2+1 vegi með vegriði á
milli akbrauta í gagnstæða
átt er líklegt að afleiðing-
ar slysanna hefðu orðið allt
aðrar.
Ég minnist þess að árið 2006
voru uppi áætlanir um svokall-
aða 2+1 vegi á helstu þjóðbraut-
um út frá Reykjavík. Þrýstingur
hagsmunaaðila og kjördæmapot-
ara varð til þess að ákveðið var að
leggja áherslu í staðinn á tvöföldun
vega – illu heilli. Svo varð hrun og
engir peningar til að leggja slíka
lúxusvegi.
2+1 vegir í útlöndum
hafa sannað gildi sitt sem
fyrirbyggjandi mannvirki
til að fækka dauðaslysum
í umferðinni. Í sænska
tímaritinu Motor kemur
fram það mat sérfræð-
inga að á árunum 2000 til
2012 hafi 2+1 vegir með
milliveg riði bjargað 600
mannslífum og um það bil
10.000 manns frá annars
konar alvarlegum slysum.
Talið er að það kosti einn tutt-
ugasta af verði tvöfaldrar hrað-
brautar að breyta 13 metra breið-
um vegi í 2+1 veg. Þannig er þetta
tiltölulega ódýr aðferð til að fækka
banaslysum á vegum landsins.
2+1 vegir eru ekki gallalaus-
ir. Snjóruðningstæki geta tafið
umferð. Í þungri færð að vetri til
geta sjúkrabílar og löregla átt í
erfiðleikum með að komast á slys-
stað. Mótorhjólamenn verða að
gæta sín og draga úr hraða. Þeir
sem eru að flýta sér geta þurft að
draga úr hraða tímabundið. Fyrir
mér er það nú bara kostur. Þess má
geta að á góðum 2+1 vegum í Sví-
þjóð er hámarkshraði sums staðar
120 km á klukkustund.
Íslensk stjórnvöld eru hvött til
að fjölga 2+1 vegum á Íslandi til
að fækka alvarlegum umferðar-
slysum.
2+1 = fjöldi mannslífa
LANDBÚNAÐUR
Þórólfur
Matthíasson
hagfræðiprófessor
➜ Fyrirsjáanlegt tap
MS af að fl ytja hvert
kíló undanrennudufts
til Bandaríkjanna er
um 300 krónur á kíló.
NÁTTÚRU-
VERND
Steinunn Anna
Gunnlaugsdóttir
sjálfstæður atvinnu-
rekandi
➜ Skyndilega breytist
umhverfi ð, ég er aftur
stödd í Garðabæ,
heyri umferðarniðinn
og sé ömurlegan
skurð á landinu. Upp-
brot er á þeim stað
sem Kjarval dáði og
opinberaði fegurð
hraunsins í mál-
verkum sínum.
UMFERÐ
Ingimundur
Gíslason
augnlæknir
➜ Ég minnist þess að árið
2006 voru uppi áætlanir um
svokallaða 2+1 vegi á helstu
þjóðbrautum út frá Reykja-
vík. Þrýstingur hagsmuna-
aðila og kjördæmapotara
varð til þess að ákveðið var
að leggja áherslu í staðinn á
tvöföldun vega – illu heilli.
ORKUMÁL
Ólafur Valsson
ráðgjafi
➜ Sú mantra er einnig
tuggin ítrekað að horfa þurfi
langt fram í tímann og gera
ráð fyrir alls kyns hugsan-
legri og óhugsanlegri stóriðju
á víð og dreif um landið.
RÍKISÚTVARPIÐ
Guðrún Nordal
situr í stjórn Ríkis-
útvarpsins
➜ Umræðan á Alþingi um
skipun í stjórn Ríkisútvarps-
ins fælir fólk eins og mig frá
því að gefa kost á sér í störf
þar sem fl okkslegur stimpill
virðist skipta meginmáli, þó
að verkefnin snúist fyrst og
fremst um faglega vinnu og
breitt samstarf.