Fréttablaðið - 15.03.2014, Page 32
15. mars 2014 LAUGARDAGUR| HELGIN | 32
Kristín S. Bjarnadóttir og Sóley María Hauksdótt-ir eru brosmildar þrátt fyrir að vera ósofnar eftir margra klukku-tíma ferðalag þegar þær
hitta blaðamann. Planið var að
hvílast á fluginu á leiðinni heim
enda um næturflug frá Bandaríkj-
unum að ræða og fyrir lá að keyra
heim í Eyjafjörðinn í framhaldinu
en einn farþeginn féll í yfirlið um
borð og það kom í hlut Kristínar,
hjúkrunar fræðingsins, að hlúa að
farþeganum á leiðinni heim. Hjálp-
semi og náungakærleikur mæðgn-
anna er einmitt ástæða ferðalags-
ins yfir hafið.
„Þetta byrjaði allt þegar ég sá
viðtal við Geir í Kastljósinu árið
2007. Margir spyrja mig af hverju
ég sé að þessu, af hverju er ég að
gera þetta fyrir ókunnugan mann?
En viðtalið var átakanlegt, þarna
eru framin mannréttindabrot alla
daga og þetta sat í mér. Ég hugs-
aði strax að þennan mann vantaði
meiri mannlega tengingu út fyrir
múrana og sem betur fer voru
fleiri en við sem brugðust við,“
segir Kristín.
Sjö ár eru síðan hún og fjöl-
skylda hennar hófu bréfaskipti við
Geir Gunnarsson, íslenskan mann
sem hlaut tuttugu ára dóm fyrir
alvarlega líkamsárás. Geir situr í
Greensville-fangelsinu í Virginíu-
fylki og hefur afplánað 16 ár af
dómnum. Nítján mánuðir eru eftir
en þá snýr Geir aftur til Íslands
enda óheimilt að dvelja lengur í
Bandaríkjunum.
„Geir er löngu búinn að taka út
sína refsingu og er breyttur maður í
dag, hann er hlýr og gefandi maður
með erfiða reynslu.“
Strangar öryggiskröfur
Eftir margra ára bréfaskriftir hittu
þær mæðgur Geir í fyrsta skipti
fyrir viku.
Ferðalagið var skipulagt í þaula
og búið var að fá undanþágu fyrir
mæðgurnar að heimsækja Geir í
fangelsið tvo daga í röð. Þær gistu
hjá móður Geirs, Guðrúnu Thoris-
son, og láta vel af dvölinni. Bróð-
urdóttir Geirs, Shelby Thorisson,
var einnig með þeim en þær Sóley
María eru jafnaldrar og hafa verið
pennavinkonur síðustu misserin.
„Við smullum strax allar saman
og nutum samverunnar, vel og inni-
lega.“
Allar fjórar heimsóttu þær Geir
í fangelsið saman, heimsókn sem
að þeirra sögn var tilfinninga-
rússíbani.
„Við vorum bæði spenntar fyrir
að hitta Geir en örlítið kvíðnar yfir
því hvað tæki á móti okkur í fang-
elsinu sjálfu,“ segir Sóley María
sem þurfti að fjárfesta í víðum
buxum vegna heimsóknarinnar
en gestir þurfa að fylgja ströngum
reglum varðandi fataval og fram-
komu innan veggja fangelsisins.
„Það var alveg ótrúlegt að koma
í fangelsið, í þá auðn og mannlegan
kulda sem þar er. Ég var stöðvuð í
fyrsta öryggistékkinu af fimm og
var látin fara út peysunni,“ segir
Kristín. „Síðan var ég gagnrýnd
fyrir að það sæist í berar axlirn-
ar á mér. Fleiri öryggisverðir voru
kallaðir til og stóðu yfir mér hrist-
andi hausinn. Ég benti þeim ítrek-
að á það augljósa, að ef ég fengi
að vera í peysunni þá sæist ekki í
axlirnar. Að lokum var yfirmaður
kallaður til og útskýrði fyrir mér
að ég hefði haft peysuna þannig
að hún væri meira eins og jakki en
ekki peysa, því hún hefði ekki verið
rennd alveg upp í háls þegar ég sást
koma í henni utan af plani. Ég varð
að lofa að hafa peysuna rennda upp
í höku allan tímann og aldrei koma
svona aftur. Þau Guðrún og Geir
höfðu varað okkur við duttlungun-
um þarna, sem snúast um að sýna
vald sitt þannig að þetta kom okkur
ekki á óvart,“ segir Kristín.
Langþráður hittingur
Þær mæðgur játa því að salurinn
sem þær hittu Geir í líkist því sem
sjá má í bandarískum bíómynd-
um. Stólar og lág borð úr plasti í
stórum sal þar sem fangar sitja og
taka á móti gestum. „Þetta er til að
koma í veg fyrir að eitthvað gerist
milli fanga og gesta undir borði.
Þess vegna eru borðin bara upp að
hnjám,“ segir Sóley María.
Stundin þegar þau hittust loksins
er þeim öllum ógleymanleg og ein-
kenndist af tærri gleði og væntum-
þykju. Geir sagðist hafa lifað á til-
hugsuninni um heimsóknina síðustu
mánuði. Fyrri heimsóknin varði í
sex klukkustundir og daginn eftir
náðu þær að dvelja hjá honum í
fimm og hálfa klukkustund.
„Það var eins og við hefðum
alltaf þekkst. Geir var mjög ein-
lægur og innilegur. Þó hann hefði
sagt okkur frá kvöldinu örlaga-
ríka í bréfum áður, hafði hann
þörf fyrir að fá að fara í gegnum
það með okkur aftur, fullur iðr-
unar og svo innilega meðvitaður
um að ekkert væri hægt að taka til
baka. Hann var hógvær og sagð-
ist stundum efast um að hann ætti
skilið þá hjálp sem hann fær frá
fjölskyldu og vinum. Það er mikill
einmanaleiki í fangelsinu og marg-
ar óskrifaðar reglur. Það er engum
treystandi og engin augnsambönd
mynduð,“ segir Kristín.
Mikil þörf fyrir einkalíf
Geir hlakkar til að öðlast frelsið og
geta búið einn þegar hann losnar
enda er hann aldrei einn í fangels-
inu og alls staðar hávaði, meira að
segja í heimsóknarsalnum var klið-
urinn yfirþyrmandi. Eftir að hafa
búið við þær aðstæður í 16 ár, í klefa
með tveimur rúmum og klósetti við
rúmið, er þörfin fyrir einkalíf orðin
mikil. Lífið innan veggja fangelsis-
ins er orðið bærilegra fyrir Geir
núna þegar hann sér fyrir endann
á dvölinni. Hann hefur láglauna-
vinnu á lagernum og er búinn að
klára tveggja ára grunnnám í við-
skiptafræði.
Þær mæðgur segjast ríkari eftir
að hafa hitt Geir og hefur Sóley
verið beðin um að halda fyrirlest-
ur í skólanum sínum, Brekkuskóla
á Akureyri. Og Geir bað fyrir skila-
boð til unglinganna: „Aldrei brjóta
af ykkur, aldrei lenda í fangelsi.“
„Samfélagið hefur líka breyst
heilmikið síðan Geir var dæmdur,
eins og til dæmis tölvunotkun. Geir
kann lítið á tölvur og internet, enda
ekki haft aðgang að slíku. Það er því
gleðilegt að hann er nú byrjaður á
tölvunámskeiði sem hluta af undir-
búningi fyrir að losna út á næsta
ári. Geir hlakkar annars mest til
litlu hlutanna, að geta gert allt
þegar hann vill, rétt eins og bara að
opna dyr sjálfur, hann hefur ekki
opnað dyr í 16 ár,“ segir Kristín en
þær mæðgur verða meðal fjölskyldu
og vina sem verða Geir til stuðn-
ings þegar hann kemur til Íslands
á næsta ári.
„Nú förum við á fullt að undirbúa
heimkomuna. Hann á náttúrulega
ekkert, ekki einu sinni föt. Þegar
hann var dæmdur var hann 25 ára
gamall og margt hefur breyst.”
Fyrir velunnara Geirs hefur verið
stofnaður styrktarreikningur til að
undirbúa heimkomu hans. Guðrún,
móðir Geirs, og Stella Friðgeirs-
dóttir, frænka hans, fara með pró-
kúru.
Reikningsnúmer: 515-14-612840
Kennitala: 630307-0900
Eins og við hefðum alltaf þekkst
Mæðgurnar Kristín S. Bjarnadóttir og Sóley María Hauksdóttir ferðuðust á dögunum til Bandaríkjanna í fyrsta sinn. Áfanga-
staðurinn var Greensville-fangelsið í Virginíufylki þar sem pennavinurinn til margra ára, fanginn Geir Gunnarsson, var heimsóttur.
HJÁLPSEMI OG NÁUNGAKÆRLEIKUR Það er margt sem situr eftir hjá mæðgunum Kristínu Bjarnadóttur og Sóleyju Maríu Hauksdóttur eftir ferðalagið vestur um haf.
FRÉTTABLAÐIÐ/DANÍEL
ÓGLEYMANLEGT FERÐALAG MÆÐGNANNA Í GREENSVILLE-FANGELSIÐ Í VIRGINÍU
FJÓRMENNINGARNIR Sóley María og Kristín hér ásamt móður Geirs, Guð-
rúnu Thorisson, og bróðurdóttur hans, Shelby, en þær hýstu mæðgurnar og
fóru með þeim í heimsókn í fangelsið.
JAFNALDRAR Sóley María og Shelby
hér fyrir utan fangelsið. Sóley þurfti að
fjárfesta í víðum buxum fyrir heim-
sóknina en sírenur byrjuðu að væla á
Kristínu þegar hún tók þessa mynd.
FANGELSIÐ
Gestir þurftu að fara í
gegnum þrjú örygg-
ishlið til að komast
inn í fangelsið sem
er umvafið þremur
lögum af gaddavír,
eða hnífavír eins og
Kristín orðaði það.
16 ÁR Geir hefur setið inni
í Greensville-fangelsinu í 16
ár og á 19 mánuði eftir. Þá
verður hann sendur beint til
Íslands.
FYRIR UTAN
FANGELSIÐ Kristín
ásamt móður Geirs,
Guðrúnu, en þær
fengu undanþágu til
að heimsækja Geir tvo
daga í röð og eyddu
alls með honum 11
og hálfum klukkutíma
sem voru fljótir að
líða að þeirra sögn.
Margir spyrja mig af
hverju ég sé að þessu, af
hverju er ég að gera þetta
fyrir ókunnugan mann?
En viðtalið var átakanlegt,
þarna eru framin mann-
réttindabrot alla daga og
þetta sat í mér.
Kristín Bjarnadóttir
hjúkrunarfræðingur
Álfrún
Pálsdóttir
alfrun@frettabladid.is