Skessuhorn


Skessuhorn - 15.04.2014, Blaðsíða 16

Skessuhorn - 15.04.2014, Blaðsíða 16
16 MIÐVIKUDAGUR 15. APRÍL 2014 Ein af grunnþjónustunni í landinu er póstþjónustan og gerðar eru miklar kröfur um hana. Fólk vill fá póstinn sinn helst daglega og engar refjar. En það er ekki langt síðan póstdreifing var miklu sjaldnar og það sem meira er að það er styttra en marga grun­ ar frá því að pósturinn sinnti sínum ferðum á hestum. Skessuhorni var bent á mann í Dalasýslu sem lík­ lega hefur verið með seinustu land­ póstunum sem fóru á hestum í póst­ ferðir. Þetta er Jóhann Sæmunds­ son sem síðustu ár hefur búið á Ási í Laxárdal skammt sunnan Búðardals. Jóhann var landpóstur árin 1956­ ´65. Hann bjó þá í Saurbænum og sinnti póstferðum á Strandahringn­ um sem kallaður er. Þá er farið suð­ ur Svínadalinn og um Fellsströnd­ ina, fyrir Klofning á Skarðsströnd­ ina í Saurbæinn. Jóhann fór reyndar sínar ferðir að mestu leyti á Willys­ jeppa, en að vetrinum þurfti hann að vera tilbúinn með tvo hesta á járn­ um til að sinna póstþjónustunni. Föðurbróðir Jóhanns, Guðjón Guð­ mundsson, var landpóstur í nokkur ár á undan honum. Hann, sem og margir forverar Jóhanns í landpóst­ inum, sinntu sínum ferðum og fóru Ströndina fram og til baka hálfs­ mánaðarlega, en þegar Jóhann tók við 1956 voru póstferðirnar orðn­ ar vikulegar. Nokkru eftir að Jó­ hann hætti sem landpóstur tók við starfinu á Strandahringnum yngri bróðir hans, Kristján Sæmundsson á Neðri­Brunná. Kristján var land­ póstur frá 1981 til 2012. Póstsstarf­ ið hefur því haldist nokkuð í fjöl­ skyldunni. Þegar Guðjón byrjaði póstferðir var ein á brúuð þessa leið og í miklum vatnavöxtum gat þurft að sæta sjávarföllum og fara niður á fjörur. Af fátæku fólki Þegar blaðamaður Skessuhorns heimsótti Jóhann, sem orðinn er hálfníræður, í Ás á dögunum sagð­ ist hann hafa fæðst 16. október 1928 á hinum forna kirkjustað Búðar­ dal á Skarðsströnd. Foreldrar hans voru þau Margrét Jóhannsdótt­ ir ljósmóðir f. 1898 og Sæmundur Guðmundsson f. 1889. Þau kynnt­ ust þegar þau voru vinnuhjú á Stað­ arfelli hjá Þorsteini Þorsteinssyni sýslumanni. Síðar voru þau í eitt ár, 1928­1929, í húsmennsku í Búð­ ardal á Skarðsströnd. „Móðir mín var í Ljósmæðraskólanum 1926­ 27 en árið 1929 fékk hún ljósmóð­ urstarfið í Saurbæ í Dalasýslu. Þau bjuggu því fyrst í Hvammsdalskoti en þar sem þau voru fátæk fengu þau ekki að vera þar nema í eitt ár því jarðareigandinn treysti þeim ekki til þess að greiða leigu til fram­ tíðar. Því fluttu þau í húsmennsku í Tjaldanes og voru þar í eitt ár, síð­ an að Bjarnastöðum og bjuggu þar fram til 1945 er þau keyptu jörðina Neðri­Brunná.“ Jóhann segist snemma hafa eign­ ast kindur og hóf búskap sinn í Skóg­ um á Fellsströnd 1953 með eigin­ konu sinni Jarþrúði Kristjánsdótt­ ur. Voru þau þar í eitt ár en þeim leiddist og fékk Jóhann því að vera í húsmennsku hjá foreldrum sín­ um á Neðri­Brunná árin 1954­57. Þá fluttu þau að Efri­Múla til for­ eldra Jarþrúðar og þar byggði Jó­ hann íbúðarhús. Jarþrúður og börn­ in sáu að mestu um þetta litla bú. Þau eignuðust sjö börn, elsti dreng­ urinn lést þegar hann var níu ára, en hin lifa. Hópurinn ásamt sínum fjölskyldum kemur gjarnan saman á hverju ári að vori eða sumri, eina vinnuhelgi. Ber glæsileg verönd í Ási meðal annars merki um að þá er tekið til hendinni. Sagan á bak við fyrsta jeppann Jóhann segir að á stríðsárunum og eftir það hafi verið skömmt­ unartímar. Eftir stríð var skipað í jeppa úthlutunarnefnd og var for­ maður hennar Jóhann Þ. Jóseps­ son. Nefndin úthlutaði til bún­ aðarfélaga sem aftur úthlutuðu til bænda. Árið 1946 sóttu bræðurn­ ir Sæmundur Guðmundsson, fað­ ir Jóhanns, og bróðir hans Rögn­ valdur Guðmundsson í Ólafsdal til Búnaðarfélagsins um úthlutun á jeppa. Búnaðarfélagsstjórnin út­ hlutaði þeim einum jeppa saman. Jóhann sagði að þessi hálfi jeppi hafi nátturlega nýst illa þar sem átta kílómetrar eru á milli Neðri­ Brunnár og Ólafsdals. Á þeim tíma hafi þurft að sæta sjávarföllum þar sem vegurinn lá um fjöruna á kafla. Margrét móðir Jóhanns sinnti ljós­ móðurstörfum sínum í Saurbænum og fór allra sinna ferða á hesti. „Ég vildi því reyna að fá annan jeppa til að geta hjálpað henni á sínum ferð­ um og ákvað því að ræða við for­ mann úthlutunarnefndarinnar um að fá annan jeppa. Formaðurinn, Jóhann Þ Jósepsson, taldi það ekki hægt. En faðir minn talaði þá við Þorstein sýslumann um hvort hann gæti hjálpað til í þessu máli. Lofaði hann að athuga þetta og nokkrum dögum síðar hringdi Þorsteinn og sagði að ég gæti fengið bíl. Þegar ég tók við póstinum fékk ég mér ann­ an Willis. Ég komst að því nokkru síðar að jeppaúthlutunarnefndar­ menn höfðu 20 bíla hver til eigin úthlutunar. Spilling var til þá eins og nú. Bíllinn sem ég fékk var frá Einari Olgeirssyni þingmanni en þeir Þorsteinn voru góðir félagar á þingi þó þeir væru pólitískir and­ stæðingar. Ég sem sagt fékk bíl frá Einari Olgeirssyni en hef þó aldrei kosið vinstri menn,“ segir Jóhann og brosir. Flutti gamla póstinn til Akureyrar Jóhann segir að hann hafi því verið kominn með sinn eigin jeppa þeg­ ar Guðmundur Blöndal landpóstur í Saurbænum hætti í póstinum og flutti til Akureyrar 1948. Hann hafi flutt Blöndal þangað á jeppanum. Við starfinu af Guðmundi Blön­ dal tók áðurnefndur Guðjón Guð­ mundsson föðurbróðir Jóhanns. „Fram að þeim tíma sem ég tók við póstinum af Guðjóni föðurbróð­ ur mínum 1956 voru póstferðirnar hálfsmánaðarlega en urðu vikulega eftir að ég tók við. Póstferðirnar gengu þannig fyrir sig að ég lagði af stað að heiman yfirleitt í kring­ um hádegið. Ég fór suður Svínadal og var kominn í Ásgarð í Hvamms­ sveit um tvö leytið, en þar var póst­ afgreiðslustöð og rútan kom þang­ að. Þaðan fór ég yfir á Fellsströnd­ ina og þar var stoppað á næstu póst­ dreifingarstöð sem var á Staðarfelli. Þar var pósturinn lesinn í sundur. Næsta póstdreifingarstöð var svo út við Klofning á Hnúki. Þegar kom­ ið var fyrir Klofning var síðan síð­ asta póstdreifingarstöð á leiðinni á Skarði. Yfirleitt var ég komin heim úr póstdreifingunni seint að kvöld­ inu.“ Tróð hrís í forarvilpuna Jóhann segir að vitaskuld hafi veg­ irnir á starfstíma sínum í póstin­ um verið eins og það sem í dag eru kallaðir vegslóðar. Aurbleyta var mjög algeng á öðrum tímum en há­ sumrinu. Sérstaklega var hún vara­ söm í leysingum að vorinu. Sums­ staðar var vegurinn líka mjög vara­ samur. „Það kom fyrir að ég þurfti stundum að fara vel upp fyrir veg­ inn til að krækja fram hjá hættum. Það var til dæmis hjá Nábeina­ vík rétt utan við Staðarfell sem var mjög varasamur kafli. Svellbunkar mynduðust þar oft og keðja þurfti bílinn. Á öðrum stað skammt frá Staðarfelli var ansi skrítin glompa eitt vorið, greinlega forarvilpa. Í það skiptið var ég með farþega í bílnum, Steingrím Samúelsson frá Heiðnabergi á Skarðsströnd. „Hvað gerum við nú,“ sagði ég við Steingrím, en vatt mér svo út úr bílnum. Það var greinlegt að for­ in náði langt út fyrir veg, þannig að það var ekki um annað að ræða en að fara yfir. Ég reif upp hrís við vegkantinn. Stappaði hann ofan í vilpuna og keyrði svo yfir. Það var svo skemmtilegt með það að mörg­ um sinnum eftir að ég keyrði þarna um á eftir varð ég var við að hrísinn var að koma upp úr veginum, enda var það ekkert smáræðis magn sem ég tróð í þessa forarvilpu,“ segir Jó­ hann og hlær. Eftirminnilegar póstferðir Jóhann segir að sem betur fer sé þessi póstleið fremur snjólétt nema að Svínadalur gat verið erfiður. Það hafi þó ekki verið nema einn vetur sem hann þurfti aldrei að nota hest­ ana. „Þetta voru yfirleitt 2­4 ferðir á hestum að vetrinum og ég þurfti alltaf að hafa þá tvo tilbúna á járn­ um. Tvo vetur þurfti ég að fara átta ferðir sitthvorn veturinn á hestum. Það var ekki nema einu sinni sem ég þurfti að ganga frá bílnum og komst ekki alla leið. Þá var ég kom­ inn fyrir Klofning og var að nálgast Skarð. Ég var búinn að moka mig áfram í fjóra tíma þegar tveir menn komu gangandi í stórhríðinni. Þeir sáu þó alltaf ljósin og grunaði hver þarna var á ferð. Þá fór ég að Á og gisti þar. Skildi ég bílinn þar eftir og fékk bóndann til að flytja mig á dráttarvél að Ytri­Fagradal. Þang­ að fékk ég mann með mína hesta að heiman. Nokkrar næstu póstferðir voru farnar á hestum og leið mán­ uður þangað til ég gat sótt bílinn. Þegar ég var á hestunum komst ég allra minna ferða en sumar gátu tekið langan tíma. Oftast gisti ég þá á Hnúki þegar ég var á hest­ um. Einu sinni gerðist það að rút­ an kom ekki í Ásgarð fyrr en seint um kvöldið. Þá gisti ég í Ásgarði og lagði ekki upp í póstferðina fyrr en næsta morgun. Sú ferð tók mig þrjá daga, enda ríðandi. Eftirminnileg­ asta póstferðin mín var þó 9. apríl 1963 í páskahvellinum sem kallað­ ur var. Klukkan tíu um morgun­ inn var tíu stiga hiti í Saurbænum. Þegar ég kom í Ásgarð klukkan tvö var hitinn kominn niður í tvö stig. Þegar ég kom svo heim í Efri­Múla klukkan tíu um kvöldið var frostið orðið tólf stig. Hitastigið sveiflað­ ist sem sagt um 22 gráður á hálf­ um sólarhring. Veðurhæðin var óg­ urleg og víða, sérstaklega út á Fells­ ströndinni, þurfti ég að hanga utan í bílnum þegar ég setti póstinn í póstkassana. Ég man að úti á Vogi á Fellsströnd fauk hreinlega brúsa­ pallurinn sem póstkassinn var fest­ ur við. En eftirminnilegasta ferð­ in á hestum var þegar Kaupfélag Saurbæinga og Króksfjarðar létu moka Svínadalinn fyrir jólin, en þá þurftum við Eyjólfur vesturpóstur að fara yfir. Þar sem einungis hafði verið rutt í gegn en ekki mokað út skóf í skorningana og var erfitt að komast með hestana yfir. Eyjólfur fór fyrstur og endaði á því að fara af baki sínum hesti til að reka hann á undan sér til að ryðja brautina fyrir töskuhestinn.“ Gerði út á uppbygg- inguna til sveita Jóhann segir að honum hafi ver­ ið sagt upp starfi sem landpóst­ ur 1965 þegar mjólkurbílstjórinn var settur í hlutverk póstsins. „Ég sá ekki eftir starfinu. Póstferðirnar voru slítandi og ég var löngu orð­ inn þreyttur á þessum þvælingi. Þessi breyting var reyndar bölvuð vitleysa, enda gekk hún ekki upp til lengdar,“ segir Jóhann. Hann seg­ ist mikið hafa unnið utan heimilis, auk póstsstarfsins mikið í bygging­ arvinnu. Það var rétt undir lok tím­ ans í póstinum sem hann fór ásamt tveimur félögum sínum að gera út á uppbygginguna í Saurbænum og víða um Dalasýsluna og nágrenni. Var með seinustu landpóstunum sem flutti póstinn á hestum Jóhann Sæmundsson í Ási var landpóstur á Strandahringunum 1956-1965 Jóhann við eldhúsborðið í Ási. Landpóstarnir og bræðurnir Jóhann og Kristján Sæmundssynir. Jóhann að fara inn í Willysinn frá 1947, sem hann notaði fyrst undir póstinn. Prúðbúnir gestir skoða bílinn, móður- bræður Jóhanns, enda þeir staddir í gullbrúðkaupsafmæli foreldra sinna. Upphaflegi bíllinn sem notaður var í póst-flutningana. Annar hestanna sem Jóhann notaði í póst - ferðirnar. Willis sömu árgerðar og sá fyrsti sem tók við sem póstflutningabíll.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.