Fréttatíminn


Fréttatíminn - 08.08.2014, Síða 32

Fréttatíminn - 08.08.2014, Síða 32
Afgreitt með fljúgandi stæl Þ Það er nauðsynlegt að sofa í góðu rúmi, það er margsannað, enda dvelj- um við víst þriðjung ævinnar í rúminu. Minn betri helmingur hefur verið á útkikki eftir bærilegu rúmi í sumar- bústaðinn. Þar var endurnýjunar þörf. Hún hafði skoðað og metið ýmis rúm og nú var málið komið á það stig að kalla þurfti til bóndann. Ég er lélegur í búðum, einkum þar sem þarf að máta, hvort heldur það eru föt eða rúm. Þar kemur þó að undan slíku verður ekki vikist. Við fórum því í leiðangur föstudags- síðdegið fyrir verslunarmannahelgi. Kannski ekki gáfulegasti tíminn til slíks en við höfðum ekki annan tíma. Þá grunaði mig ekki að málið yrði afgreitt með fljúgandi stæl. Ég fylgdi eiginkonunni í þá rúmabúð sem henni leist best á og lagði mig við hlið hennar í fjölda rúma, sneri mér á alla kanta, flesta að minnsta kosti, lá á bakinu og sitt hvorri hliðinni en kunni ekki almennilega við að leggjast á kviðinn. Sjálfsagt á maður að gera það enda erum við víst á fleygiferð í svefni allar nætur. Viðmótsþýð kona annaðist okkur og sýndi okkur hvert rúmið á fætur öðru. Sum voru mjúk, önnur harðari. Rúmsmekkur manna er misjafn. Það er verðið á rúmunum líka. Við veltum okkur fyrst í rúmum á bærilegu verði, ágætum að mér fannst enda lá ég ekki lengi í hverju þeirra. Að minnsta kosti tvenn hjón voru á eftir okkur og stunduðu sömu rúmfræði og við. Ég neita því ekki að það er svolítið undarlegt að horfa á önnur hjón veltast um í tvíbreiðu rúmi, sitt á hvað á rassi eða mjöðm, hossandi sér upp og niður til að kanna stífleika. Ég gekk ekki svo langt, lagðist bara í rúmið, sneri mér fljótt á hvora hlið, stóð svo upp og lýsti því yfir að rúmið væri ágætt. Það átti við um öll rúmin sem við mátuðum. Frúin fór fyrir í valinu. Hún vissi það fyrir – og ég líka. Ég sá fljótt að hún flutti sig frá hefðbundnu dýnunum yfir í þær sem laga sig að líkamanum. Ég elti og mátaði – og sagði sem fyrr að rúmið væri ágætt. Að lokum stóð valið milli tveggja dýnutegunda af aðlög- unargerðinni. Ég mátaði en fann varla mun. Önnur gaf kannski heldur minna eftir. Þessi gerð var dýrari en slíkt á maður ekki að setja fyrir sig þegar val- ið er rúm til margra ára. Ég samþykkti því umsvifalaust val konu minnar – en setti þó eitt skilyrði. Rúmið yrðum við að fá með það sama, þótt liðið væri á þennan annasama dag. Við værum á leið í sveitina til þriggja nátta og gamla rúmið farið. Afgreiðslukonan ljúfa hringdi á lagerinn og bað sína menn að fara ekki fyrr en við hefðum fengið rúmið. Síðan vísaði hún okkur leiðina að lagernum í Mosfellsbæ. Þangað brunuðum við með okkar sumarbústaðakerru í eftir- dragi. Það stóð heima, lagermennirnir voru klárir með dýnuna, rúmbotninn og lappir undir herlegheitin. Krafta- legir strákarnir skutluðu rúmdýnunni á kerruna og settu rúmbotninn ofan á. Kassa með rúmfótunum stakk ég inn í bílinn. Strákarnir lokuð lagernum snarlega, hlupu út í bíl og brunuðu af stað, sennilega á leið á Þjóðhátíð í Eyjum. Við stóðum eftir á lagerhlaðinu með hlaðna kerru. „Dýnan og rúmbotninn haggast varla,“ sagði ég við konuna en leið okk- ar lá heim í Kópavog áður en haldið væri í sveitina. „Þú metur það,“ sagði frúin en hún hefur stundum undrast þá iðju mína að binda alla skapaða hluti allt of rammlega á kerruna. Til þess er ég með langan bláan kaðal í bílnum. Ég er ekki eins flinkur á strappara svokallaða sem sérfræðing- ar, eins og sendibílstjórar, nota og eru mun handhægari og fljótlegra að eiga við – fyrir þá sem á þá kunna. Ég horfði á dýnuna og rúmbotninn á kerrunni, vitandi af bláa kaðlinum í bílnum, en mat það svo að hvort tveggja væri nógu þungt til að hanga á kerrunni á ekki lengri leið en úr Mos- fellsbæ í Kópavog. Rúmið fína myndi ég síðan binda vel og drengilega á kerruna áður en við héldum af stað í sveitina. Umferðin var þung á móti okkur á Vesturlandsveginum en rólegra var okkar megin á leið í bæinn. Ég var því áhyggjulaus þegar ég ók heim á leið með nýju dýnuna – og rúmbotninn. Það yrði ekki amalegt að leggjast til hvíldar í svo fínu rúmi í sveitinni. „Þetta hagg- ast ekki,“ sagði ég rogginn við kon- una þar sem ég fylgdist með rúminu í kerrunni í baksýnisspeglinum – en hafði ekki fyrr sleppt orðinu en ég sá rúmbotninn hefja sig til flugs á miðjum Vesturlandsveginum, svífa yfir báðar akreinarnar á okkar leið og brotlenda við járnþil sem skilur að brautirnar. Það vildi okkur til happs að umferðin var lítil okkar megin svo rúmbotn- inn skaðaði engan. Við vildum ekki hugsa þá hugsun til enda hefði flugferð rúmbotnsins verið lengri og náð yfir stálþilið. Þá hefði illa getað farið. Ég snarstoppaði bílinn, blótaði heimsku minni og kæruleysi um leið og ég þakkaði mínum sæla fyrir að hafa ekki skaðað neinn með bjánaskapnum – með bláa kaðalinn óbrúkaðan í skottinu. Við hlupum yfir akreinarnar báðar og sóttum leður- klæddan rúmbotninn. Á þeim eðla grip mátti sá að hann var ekki hannaður til flugferða. Þótt hann væri brúkhæfur, svona yfir helgina, kemst ég sennilega ekki hjá því að heimsækja konuna í rúmabúðinni og kaupa nýjan. Dýnan haggaðist hins vegar ekki á kerrunni svo ég hugga mig við það að þegar þar að kemur þarf ég ekki að máta. Jónas Haraldsson jonas@ frettatiminn.is HELGARPISTILL Te ik ni ng /H ar i 32 viðhorf Helgin 8.-10. ágúst 2014 Topp kiljur Matur, morð, ást og ógnandi óvissa Spennutryllir sumarsins www.forlagid.is – alvöru bókabúð á netinu 1.07.–31.07.2014 Kiljulistinn1 1.07.–31.07.2014 Kiljulistinn2

x

Fréttatíminn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttatíminn
https://timarit.is/publication/944

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.