Litli Bergþór - 01.12.2012, Side 29
Litli-Bergþór 29
Kjalvegur var þá enn illfær, en Eiríkur í Gýgjarhóls-
koti, sem sótti féð, var með tönn á traktórnum og gat
rutt sér leið.
Margar ferðir voru farnar eftir þetta inn á Biskups-
tungnaafrétt í leit að fé. Eftirsafnsmenn fóru helgina
28. til 30. september og fundu 69 kindur, þar af 26 á
innafrétti og 43 á framafrétti. Síðan hafa fundist 15
kindur samanlagt í nokkrum ferðum. Eitt lamb setti
sig í Hvítá og synti yfir í Hrunamannahrepp en náðist
nokkrum dögum síðar. Ær með tveim lömbum frá
Gýgjarhólskoti fannst fennt inn í Þjófadölum, en ann-
að fé hefur ekki fundist dautt eftir bylinn í fjallvikunni
og almennt vantar ekki margt fé af fjalli.
Þetta óvenjulega hausthret gerði okkur Tungnamönn-
um og öðrum fjallmönnum á Suðurlandi þó lítinn
óskunda miðað við það óveður sem geisaði á Norður-
landi og þann fjölda fjár sem fennti þar. Það var af allt
annarri stærðargráðu og nú í nóvember er ekki enn
orðið ljóst hvert tjónið er, en talið að um 10 Þúsund
fjár vanti eða hafi fundist dautt á öllu Norðurlandi, frá
Húnavatns- að Þingeyjarsýslum.
Það var ekki laust við að okkur fjallmönnum kæmu
Reynistaðabræður í hug meðan stormurinn geisaði
úti fyrir á Kili og það má þakka það elju og dugnaði
áhugamanna um uppbyggingu og rekstur skála á Bisk-
upstungnaafrétti, hvað núorðið fer vel um fjallmenn
og hross þeirra í fjallferðum, þó svona veður geisi.
Fjallmenn voru:
Loftur (fjallkóngur) og Vilborg Myrkholti, Kjartan og
Guðrún í Bræðratungu, Sævar, Sigríður, María, Bjarni
og Teitur frá Arnarholti, Hallgrímur, Geirþrúður og
Ægir á Miðhúsum, Rúnar, Jóna og Vilborg á Vatns-
leysu, Brynjar á Heiði, Jón Hjalti og Þjóðbjörg Gýgj-
arhólskoti, Eyvindur Magnús á Kjóastöðum, Egill í
Hjarðarlandi, Óskar á Bóli, Klemenz K. Guðmunds-
son frá Selfossi, Magnús Flygenring og Kristján
Ólafsson Reykjavík, Sveinbjörn Guðjónsson og Ole
Elmquist frá Danaveldi.
Camilla í Ásakoti og Guðný Rósa á Tjörn voru
matseljur að vanda og í fylgd með þeim á trússbíln-
um var Runólfur í Birkihlíð.
Geirþrúður Sighvatsdóttir.
Myndir í greininni eru frá Ólöfu Hermannsdóttur
og greinarhöfundi.
Fjallvísur
Ýmislegt varð fjallmönnum að yrkisefni á meðan
beðið var eftir betra smalaveðri og voru þau frænd-
systkin María og Jón Hjalti úr Kotinu drýgst í því.
Hér birtist sýnishorn af þeim andans æfingum.
Um kamarmál á Hveravöllum:
Yfir kaldan eyðisand
engum fært í bili.
Frýs í koppum fúlnar hland
úr fjallmönnum á Kili.
KKG
Á kamarsetu löng er leið,
langi þig að skíta.
Ekki er sú gatan greið,
gegnum storminn hvíta.
MÞJ
Arnarholtsfjölskyldan bíður af sér veðrið í Gíslaskála.