Tímarit Máls og menningar - 01.06.1993, Page 102
og virðingu fyrir hæfileikum hvors annars þótt
víglína kalda stríðsins hafi skilið þá að. Thor
dregur hér fram þær mótsagnir sem óhjákvæmi-
lega koma upp hjá þeim gáfuðu mönnum sem í
senn hrífast af því sem er hrifningar vert en eru
um leið svo bundnir af stjómmála- og stéttar-
skoðunum að þeir hljóta að þurfa að vaða í eins
konar mótsagnagraut líkt og kom berlegast fram
í sambandi Kristjáns við Halldór Laxness.
En lýsingin á þessum athyglisverða núningi
er í stöðugu reiptogi við ættarhugsun sem sífellt
er á sveimi í bókinni, hvort sem hún birtist sem
skyldleikaræktun borgarastéttarinnar eða sem
heimsmynd bændasamfélagsins, en í hvorugt
þessara fyrirbæra hefur Thor sótt sér neinn safa
í verkum sínum. Hann hneigist því eins og
ósjálfrátt til að láta spurninguna um „hverra
manna hann sé“, sem getið var um í upphafi,
kaffæra hina spurninguna sem óneitanlega er
athyglisverðari. Þessar ættfærslur bæta engu
við nema til að upplýsa lesendur um að þessi
eða hinn sé tengdur hinum eða þessum o.s.frv.
og verður á stundum hálf hvimleitt. Ég held
meira að segja að hin eiginlega þungamiðja
Radda í garðinum, garðurinn sem Thor ræktar
í huga sér, sé í andstöðu við þessa hugsun: mynd
garðsins táknar í raun og veru einkaheim hins
móderníska rithöfundar, sem byggður er á hans
eigin skynjun og er ræktaður af hugsun hans.
Raddirnar sem þangað koma hljóma að handan,
hann hleypir þeim inn að vild til að auka upp-
skeruna en hún fer fyrst og fremst eftir því
hvemig hugarræktunin gengur íyrir sig en ekki
eftir ætt og fjölskyldu.
Þetta verður einkum ljóst í seinni hlutanum,
þegar kemur að alþýðufólkinu fyrir norðan.
Meginstef seinni hlutans er sambandið við for-
tíðina sem Thor er að reyna að koma á ekki
aðeins við það fólk sem stendur honum nálægt
í minningunni heldur við heilu kynslóðirnar, við
ómálga strit nafnlausrar alþýðu, við hin erfiðu
kjör fólks á Tjörnesi, í utanverðri Kinninni og í
Flateyjardal. Þarna sleppir minninu og eftir
verða sögur úr munnmælum en þær em allar í
einhverri yfirmennskri stærð sem þó nær því
aldrei að verða goðsöguleg. Þæreru „hrikaleg-
ar“ en þó fjarlægar lesanda og ná ekki að þyrlast
upp í blæbrigðaríkan strók líkt og þær sögur
sem Stefán Jónsson sagði í sjálfsævisögu sinni
Að breyta fjalli (1987) og vom af svipuðum
slóðum og oft af sama fólki. Það er ekki sök sér
þótt tveir menn segi frá á ólíkan hátt en saman-
burðurinn er hér nærtækur og þar skortir það í
sögum Thors sem gerir hinar „hrikalegu" sögur
Stefáns margræðar; að hið kómíska vegi salt á
móti hinu „hrikalega". Thor hrífst af þessu fólki
en hrifning hans hindrar hann í að finna tjáning-
arform sem hæfir henni. Hann sneiðir meðvitað
framhjáhinni „goðsögulegu" leið ýkjusögunn-
ar en daðrar við það sem oftast er kallað „þjóð-
legur fróðleikur“, form ævisöguþáttarins með
öllu sínu búandliði sem flakkar um grunnmynd
byggða á jarðnæði, ættum og búskap, fólki sem
ekkert er svo sem vitað um annað en það sem
greinir frá í stopulum skeytasendingum kirkju-
bókanna, munnmælum og einstaka heimildum
samtíðarmanna sem síðan er púslað saman með
frösum eins og: „í kirkjubók er párað“, „var
meðalmaður á hæð, móeygður“, „var gefinn
fyrir tóbak“. Að vekja fólk þannig upp úr
óminninu er eins konar línudans milli rígbund-
ins forms og „þess sem á penna heldur“ og
reyndar er því svo farið að kannski best lukkuðu
tilraunir „atvinnuhöfunda" á seinni árum til að
færa sér þetta form í nyt eru þegar öllu er á
botninn hvolft algerlega innan þessarar hefðar,
það er að segja: Hallgrímur smali og húsfreyjan
á Bjargi (1990) eftir Þorstein frá Hamri og síðan
þriggja binda verk Hannesar Péturssonar: Mis-
skipt er manna láni (1982-86). Þar var ekki í
sjálfu sér hróflað við forminu sem slíku en
listfengi í meðferð máls og nákvæm og greinar-
góð heimildavinna lyfti þessum verkum upp í
undraverðar hæðir. Tilraunir Thors til að nýta
sér þetta form sem millilið til að greina frá sögu
lands og fólks við norðurströndina bera hins
vegar ekki sannfærandi árangur. Það er eins og
áður sagði einkenni á þessum síðari hluta að
reynt er að greina frá samfélagi sem nú er horfíð,
setja fólk aftur í eyðidali og við hrjóstrugar
100
TMM 1993:2