Ský - 01.08.2007, Síða 10
10 ský
hef ég alltaf gert og hvorki beðist afsökunar á því né skammast mín
fyrir það. Ef ég væri í vörn gagnvart sjálfri mér gæti ég ekki haldið
þessu lífsbaksi áfram. Undirstaðan er að vera sátt við sjálfa sig. Það
hef ég verið mestanpart, þótt auðvitað megi eitt og annað betur fara
ef grannt er skoðað. Fólk sem skiptir um skoðanir eftir því hvernig
vindurinn blæs eða eftir þjóðfélagslegum hentugleikum er býsna
gegnsætt; ég held að það njóti ekki sérstakrar virðingar.“
En hvað finnst henni um unga fólkið í Saving Iceland og baráttu
þeirra? „Aðalatriðið er að fólk hugsi. Ég þekki ekki þennan hóp vel en
mér virðist þau hafa velt málunum fyrir sér. Og mér finnst fjölmiðlar
ekki hafa sinnt vitsmunalegu inntaki málstaðar þeirra sama áhuga og
baráttuaðferðunum; það virtist ekki eins söluvænlegt og að velta sér
upp úr birtingarmyndum andófs sem auðvelt er að sproksetja.“
Þau gerðu nú töluvert í því sjálf að snúa andófinu upp í eins
konar sirkus?
„Já. Og það er umdeilanleg aðferð. Ég ætla ekki að dæma þessar
aðferðir þeirra. Sjálf hef ég gert eitt og annað á lífsleiðinni sem betur
hefði mátt gera. Hver verður að ráða sér í þessu. Ég bara fagna því ef
til er ungt fólk sem gengur gegn þessum þunga meginstraumi. Flestir
fylgja honum vegna þess að það er svo þægilegt. Of mörgum finnst
hentugra að vera, en hvorki hugsa né gera.“
Hér og þar
Birna hóf sína baráttugöngu fyrir betri heimi í Víetnamstríðinu árið
1967. En væri hún að leggja af stað árið 2007 telur hún líklegt að
hún myndi slást í hópinn með Saving Iceland. „Náttúruverndin er
meginbaráttumál til framtíðar. Okkur hefur fundist að við ættum
ofgnótt í náttúruauðlindum; landið var óhagganlegt, fiskurinn átti
að vera endalaus, sjórinn geta tekið við öllu drasli og úrgangi sem
við sendum frá okkur, vatnið í ánum átti að vera eilíft, amen. Svo
vöknum við upp einn daginn og sjáum ísbjörn á svamli að berjast
fyrir lífi sínu í íslausu hafi. Stundum er eins og við höfum meiri
samkennd með öðrum skepnum en mannskepnunni.“
Hún er fædd og uppalin til fjórtán ára aldurs í fámennu og
einangruðu þorpi í Borgarfirði eystri. Var hún þá meðvituð um
náttúruna um í kringum sig og gildi hennar? „Ég var bara hluti af
náttúrunni,“ segir hún. „Mér hefur aldrei dottið í hug að ég gæti
átt náttúruna eða eignað mér hana. Blómið á túninu átti sig sjálft.
Ég pældi heldur ekki í því hvort einhver ætti náttúruauðlindirnar,
eins og miðin sem færðu okkur fisk. Ekki fyrr en ég fór að vinna
í frystihúsi kaupfélagsins og áttaði mig á að það átti fiskinn og
eiginlega allt annað í þorpinu líka.“
Með börnum sínum, Ingólfi og Ragnhildi: „Þau hafa algjörlega fengið að ráða sér, hafa sínar skoðanir og eru ólík ...“