Ský - 01.08.2007, Page 17

Ský - 01.08.2007, Page 17
 ský 17 tilviljun. Þá skrifaði ég örljóð í staðinn fyrir minningargrein um Jón Gunnar Árnason listmálara og vin minn, síðan um Nínu Björk og Rósku. Ég átti auðveldara með að tjá tilfinningar mínar í svo knöppu formi. Annað sem ýtti mér í þessa átt var reiði mín í garð manns sem ég var ástfangin af og hann endurgalt ekki með þeim hætti sem mér hæfði. Þá orti ég til hans áhrínsorð sem eru reyndar í ljóðabókinni. Ég sá að þetta var upplagt og hélt áfram að skrifa.“ Bitu áhrínsorðin á manninum? „Að sjálfsögðu! Hann á ekki að geta gagnast nokkurri annarri konu! Og svo mun verða.“ Hún segist vera ánægð með sum ljóðanna, önnur síður. „En það var fyndið, að bókin fékk umsögn í einum fjölmiðli en hún fjallaði ekki um bókina heldur mig. Ég kalla mig ekki skáld. Það er of stórt orð. Ég skrifa einkum smámyndir af einhverju sem ég sé eða heyri.“ Er hún alltaf lífs- og baráttuglöð. Aldrei döpur og vonlaus? „Jú. Ég er nú bara manneskja. Þetta gerist einkum þegar ég hef farið fram úr sjálfri mér. Hef sogið mig upp til agna. En ég hleyp ekkert út um borg og bí þegar ég er döpur. Þá er maður heima og heldur sig til hlés. Ég fletti þá gjarnan upp í Sigfúsi Daðasyni eða hlusta á upplyftandi tónlist.“ Hvernig finnst þér að eldast? „Fínt. Það eina sem fer í taugarnar á mér er að ég get ekki unnið í jafnlöngum törnum og áður. Í vor hafði ég unnið í sjötíu tíma samfleytt og var alveg búin!“ Gerirðu eitthvað til að vinna gegn aldrinum? Ferð í líkamsrækt, lifir heilbrigðara lífi? „Í mörg ár hef ég farið tvisvar í viku í Kramhúsið. Þar er minn heilsubrunnur. Svo geng ég mjög mikið, eðli málsins samkvæmt. Og ég á hund sem þarf sína hreyfingu, ekki síður en ég.“ Hugsarðu nokkurn tíma um dauðann? „Ekki nema sem eðlilega endastöð sem nálgast með aldrinum. Það eina sem mér finnst leiðinlegt er að geta ekki verið viðstödd eigin útför. Ekki síst erfidrykkjuna, því ég er svo veisluglöð.“ Ertu viss um að þú getir ekki verið viðstödd? „Já. Ég er ekki svo heimtufrek.“ Ef þú værir núna ung stelpa í Borgarfirði eystri, heldurðu að þú myndir vilja verja lífinu með öðrum hætti en þú hefur gert? „Ja, ég færi ekki seinna að heiman, ég myndi flýta mér meira í gegnum skólakerfið og reyna að nýta þann tíma betur til að læra það sem ég hef áhuga á að læra. Mér finnst til dæmis hundfúlt að hafa ekki lært grísku á sínum tíma.“ En núna er hún að fara að læra ítölsku. Draumar Birnu Þórðardóttur geta því ræst. Hún sér um það sjálf og bíður ekki eftir fyrirgreiðslu, „heil og drenglynd og sjálfstæð,“ eins og góður vinur hennar lýsir henni. sky, Birna Þórðar

x

Ský

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Ský
https://timarit.is/publication/1110

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.