Ský - 01.08.2007, Page 34
3 ský
Á Akureyri bjó til skamms tíma vanaafbrotamaður sem fékkst við
innbrot. Lögreglan var alltaf mjög fljót að rekja innbrot til hans því
hann notaði alltaf sérstaka vettlinga með sjaldgæfu gúmmímynstri
við verkin og þekkti lögreglan því ummerki hans án flókinna
rannsókna. Þetta varði þar til seinheppinn lögreglumaður glopraði
því út úr sér við þjófinn hvernig hann þekktist og eftir það gætti
hann sín betur.
Maður nokkur sem fengist hafði við afbrot um hríð sneri frá villu
síns vegar og hvarf til hefðbundinnar launavinnu. Fljótlega hafði
hann komið undir sig fótunum svo vel að hann fluttist inn í nýbyggt
raðhús í Sandgerði með eiginkonu sinni. Í veglegu innflutningshófi
þar sem vín var frjálslega haft um hönd sinnaðist þeim hjónum
verulega og gekk húsbóndinn á dyr seint um kvöldið. Í reiði sinni
ákvað hann að hefja afbrotaferil á ný og hafði engar vöflur á heldur
ákvað að brjótast inn í eitt af raðhúsunum. Vegna ölvunar mannsins
varð fljótt vart við ferðir hans og lögreglan kom á staðinn þegar
hann var kominn hálfur inn um glugga en þá kom einnig í ljós að
hann var ekki nógu vel kunnugur í hverfinu og var því að brjótast
inn heima hjá sér.
Maður nokkur kom eitt sinn inn á lögreglustöðina á Akureyri
og var mikið niðri fyrir því bíll hans hafði verið skemmdur í stæði
þar í bænum rétt á meðan hann brá sér frá. Hann vildi að lögreglan
gengi þegar í málið og fyndi þrjótinn sem hefði skemmt ágæta bifreið
hans. Meðan á fundinum stóð barst símtal frá Rannsóknarlögreglu
ríkisins til lögreglumannsins þar sem hann var beðinn að handtaka
tiltekinn mann um leið og vart yrði við ferðir hans á Akureyri. Það
reyndist einmitt vera sá sem sat hinumegin við borðið og leitaði
réttar síns hvað ákafast svo heimatökin reyndust venju fremur hæg
í það skipti.
Afbrotamenn hafa nefnilega býsna sterka réttlætiskennd eins og sést
best af því að eitt sinn var brotist inn á myndbandaleigu og stolið fjölda
myndbanda. Eigandinn lagði ríka áherslu á að lögreglan endurheimti
talsvert magn klámmynda sem var hluti þýfisins og gleymdi því alveg í
hita leiksins að varsla og útleiga slíkra mynda er kolólögleg.
Einn af góðkunningjum lögreglunnar á árum áður fékk oft að
gista á Hverfisgötu en það fyrirkomulag tíðkast reyndar enn. Þessi
snillingur var gjörkunnugur húsaskipan lögreglustöðvarinnar og var
eitt sinn gripinn þegar hann var að læðast út í lögreglubúningi. Hann
féll ekki nógu vel inn í hópinn því hann hafði komist upp á efri
hæðir og stolið einkennisbúningi þáverandi yfirlögregluþjóns.
Einn þekktur innbrotsþjófur fór inn í ölgerð Egils Skallagrímssonar
að næturþeli en var svo óheppinn að slasa sig svo hann neyddist til
að hringja á sjúkrabíl. Í ljós kom að slysið mátti rekja til skorts á
lögboðnum öryggisbúnaði við vélbúnað og þjófurinn sem bjó yfir
sterkri réttlætiskennd sótti rétt sinn með málaferlum og varð ölgerðin
að lokum að greiða honum einhvers konar slysabætur.
Stéttarbróðir hans sem braust inn á Seltjarnarnesi skarst talsvert
á höndum við innbrotið en komst af vettvangi af sjálfsdáðum með
nokkurt þýfi. En blóðslóðina röktu lögreglumenn í rólegheitum
þráðbeint frá innbrotsstað að heimili hans og málið var því ekki
lengi óupplýst.
Sami atvinnubrotamaður þótti sýna talsverða bíræfni í bland
við hugmyndaflug þegar hann komst að því að hann átti reikning
í Landsbankanum með 21 krónu. Hann bað bankann að gefa út
ávísun með þessari upphæð og var orðið við þeirri beiðni. Okkar
maður fór beina leið til prests og lét gifta sig og hélt veglega veislu
á einu af veitingahúsum bæjarins og greiddi veisluföngin með
ávísuninni góðu. Hann var reyndar búinn að hækka upphæðina
verulega en komst upp með svindlið um stund þar sem ávísun frá
bankanum þótti traustvekjandi.
Í byggðarlagi á Vestfjörðum bjó maður sem vann að endurbótum
á húsi sínu og vantaði sárlega burðarbita til að skjóta undir gólf
milli hæða. Hann fór á stúfana að næturþeli og sótti niður að höfn
límtrésbita einn allgóðan sem hann hafði séð liggja þar fyrir utan
vörugeymslu. Réttur eigandi bitans hringdi í lögreglu snemma
morguninn eftir og við vettvangskönnun reyndist auðvelt að rekja
slóð bitans í nýfallinni mjöll heim að dyrum þjófsins. Auk refsingar
hafði hann það upp úr krafsinu að gárungar kölluðu hann Bjössa bita
árum saman eftir þetta.
Það eru ekki bara til seinheppnir afbrotamenn heldur líka
seinheppnir lögreglumenn. Einn slíkur starfar í sveitarfélagi ekki
langt frá Reykjavík. Þar annast lögreglan einnig sjúkraflutninga og
einn daginn barst beiðni um aðstoð frá manni við Geysi sem talinn
var bráðveikur, líklega með hjartastopp. Umræddur lögreglumaður
ók þegar af stað á sjúkrabílnum en læknir var á staðnum hjá sjúklingi.
Skömmu síðar var aftur hringt og spurt hvað tefði sjúkrabílinn.
Kallað var strax í talstöð og lögreglumaðurinn spurður hvar hann
væri. Hann reyndist vera staddur við Árbæjarhverfi á leið í bæinn og
hafði steingleymt að sækja sjúklinginn. sky,
M
yn
d:
M
B
L/
A
rn
al
du
r