Ský - 01.08.2007, Síða 51

Ský - 01.08.2007, Síða 51
 ský 51 Finnanum en Óskari var afskaplega mikið í nöp við Hrafnhildi vegna einhverra orða sem hún látið falla á prenti um næfa listamenn. Knútur Bruun, sem var handgenginn Óskari á þessum árum, hafði milligöngu um þessa heimsókn og var afráðið að hann hitti finnska listamanninn á heiðinni og gengi með honum að híbýlum Óskars. Þegar á hólminn var komið var Hrafnhildur mætt þrátt fyrir bann Óskars og var ákveðið að hersingin gengi öll á vettvang og léti skeika að sköpuðu en Knútur brýndi mjög fyrir Hrafnhildi að segja ekkert og láta fara lítið fyrir sér. Þegar þau gengu í bæinn seig talsvert brúnin á Óskari þegar hann sá að Hrafnhildur var með. Þegar inn var komið blasti við stórt teppi eftir Óskar með myndum af dansandi nöktum konum innan um karlmenn með nautsgrímur á höfði. Hrafnhildur hreifst þegar í stað af myndinni og sagði: „Mikið er þetta erótísk mynd hjá þér Óskar.“ Listamaðurinn stökk æpandi á fætur og hugðist láta hendur skipta við listfræðinginn sem varð að forða sér á hlaupum undan honum en aðrir gengu á milli og fúkyrðaflaumurinn bergmálaði í klettunum á eftir henni. Knútur hafði einnig milligöngu um að franskur ljósmyndari, sem var að vinna m.a. fyrir Paris Match, fékk að heimsækja Óskar og mynda hann og verk hans. Sá leiðangur fréttist meðal íslenskra ljósmyndara og skömmu síðar freistaði Sigurgeir Sigurjónsson ljósmyndari þess að fá að heimsækja Óskar og taka myndir en Óskar rak hann í burtu með formælingum og barsmíðum með skrúbb. Með þessum undantekningum sem nefndar hafa verið var Óskar ekki hrifinn af því að blaðamenn væru að fjalla um verk hans eða kringumstæður. Hann lagði sérstaklega mikla fæð á sérfræðinga á þessu sviði og lagðist yfirleitt gegn umfjöllun um verk sín og tók henni illa þegar hún birtist. Björn Th. Björnsson skrifaði eitt sinn um verk Óskars sem hann sá á sýningu og fékk skammadembu frá Óskari í ritlaun þótt umfjöllun hans hefði verið fremur vinsamleg. Þegar Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur setti saman bók sína um einfara í íslenskri myndlist þar sem fjallað er um ævi og verk nokkurra næfra listamanna hafði hann hug á að einn kaflinn fjallaði um Óskar en af því varð ekki því Óskar vildi ekkert við hann tala. Óskar lét eftir sig allmörg veggteppi sem munu flest vera í einkaeign nokkurra safnara en sýningar voru haldnar á þeim nokkrum sinnum meðan hann lifði, bæði einkasýningar en einnig átti hann verk á samsýningum. Vin í auðninni Ómar Ragnarsson lýsir fyrstu fundum þeirra Óskars í Litlu kaffistofunni í nóvember 1992 en þá var Óskar fluttur af heiðinni en var á leið upp eftir til að líta eftir húsakosti sínum. Óskar hélt mikla þrumuræðu yfir Ómari og úthúðaði honum og fjölmiðlum samtímans af fádæma mælsku og kynngikrafti. Um veru sína í heiðinni og ástæður fyrir sjálfskipaðri útlegð sagði Óskar: „Sjáðu til. Það er alvara á bak við þennan torfbæ. Hann er ekki bara eins og eitthvert fíflalegt stöðutákn í þéttbýlli sumarbústaðabyggð þar sem er sjónvarpsloftnet á hverju þaki, farsímar í öllum herbergjum, lúxusjeppi í hverju hlaði og bústaðabyggðin orðin svo stór og þétt að á hverju strái eru skilti sem banna hundahald! Nei, þessi bær er vin í auðninni. Hér hljómar rödd hrópandans í eyðimörkinni. Þess vegna stendur hann uppi á fjalli fjarri allri firringunni.“ Eflaust má halda því fram að Óskar hafi í sérvisku sinni og einstæðingshætti verið sjálfum sér samkvæmur. Hann átti sér þann draum að lifa í sátt við náttúruna fjarri afskiptum mannanna og fylgdi þeirri sannfæringu sinni með útlegðinni á Hellisheiði. Draumsýn Óskars varð að engu í miskunnarlausum íslenskum veruleika og sú sama þvermóðska og gerði hann að heiðarbúa gerði hann einnig að útlaga í mannlegu samfélagi. Sönnuðust þar orð annars skálds sem einnig stóð utangarðs og orti svo eftirminnilega: Í draumi sérhvers manns er fall hans falið, þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg, af blekkingum sem brjóst þitt hefur alið, á bakvið veruleikans köldu ró.“ Rústir heiðarbýlisins sumarið 2007. M yn d: P Á Á .

x

Ský

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Ský
https://timarit.is/publication/1110

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.