Ský - 01.08.2007, Síða 56
56 ský
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík fer fram í fjórða sinn dagana 27. september til 7.
október. Á skömmum tíma hefur hátíðin
fest sig í sessi sem höfuðvígi alþjóðlegrar
kvikmyndagerðar hér á landi og jákvæð
umfjöllun í erlendum miðlum hefur borið
hróður hátíðarinnar langt. Dagblaðið
Boston Pheonix sagði dagskrána í fyrra
eina þá „bestu á jörðunni“ og vefsíðan
Stylus Magazine kallaði hátíðina „best
geymda leyndarmálið á hátíðarúntinum.“
Aðstandendur hátíðarinnar eiga von á
um 200 gestum erlendis frá; leikstjórum,
kvikmyndaframleiðendum, fjölmiðlum, og
sjálfboðaliðum sem hafa boðist til að starfa á
hátíðinni, auk fjölda ferðamanna.
Þessi mikli áhugi kemur kannski ekki á
óvart í ljósi þess hversu metnaðarfull dagskrá
hátíðarinnar er. Alls eru um 80 kvikmyndir
á dagskránni og það vekur sérstaka athygli
að nær allar þeirra, sem ekki eru sýndar sem
hluti af yfirliti yfir feril ákveðins leikstjóra,
eru frá þessu ári – 2007. Enda segist hátíðin
leggja áherslu á glænýjar kvikmyndir og
unga og upprennandi leikstjóra.
Vitranir
Keppnisflokkur hátíðarinnar er einungis
skipaður myndum sem eru fyrstu eða
önnur verk leikstjóra og í ár keppa fjórtán
myndir um aðalverðlaun hátíðarinnar:
Gullna lundann. Meðal áhugaverðra mynda
í keppninni eru danska kvikmyndin Listin
að gráta í kór (Kunsten at græde í kor)
sem fjallar um hinn ellefu ára gamla Allan
sem er að vaxa úr grasi í Danmörku á
áttunda áratugnum. Önnur mynd sem gerist
á áttunda áratugnum er enska kvikmyndin
Stjórn (Control) sem er ævisaga söngvarans
Ians Curtis sem gerði garðinn frægan með
hljómsveitinni Joy Division. Curtis
stytti sér aldur einungis 23 ára að aldri
og er fyrir löngu orðinn að hálfgerðri
goðsagnaveru í rokkheiminum.
Athygli vekur að tvær myndir í
keppninni eru frá Ísrael (Japan Japan
og Heimsókn hljómsveitarinnar),
en einnig eru fulltrúar frá Íran,
Argentínu, Grikklandi, Tékklandi og
Bandaríkjunum svo fátt eitt sé nefnt.
Nýju fötin keisarans?
Heimildarmyndir setja nú sterkari svip á
hátíðina en undanfarin ár. Fjórar myndir
eru tileinkaðar stríðinu í Írak og fjalla
um það frá ólíkum hliðum, auk þess sem
sérstakt málþing um ástandið þar ytra mun
fara fram. En myndirnar koma úr öllum
áttum: Mynd um sérstakar rokk-sumarbúðir
handa stúlkum – Stelpur rokka! (Girls
Rock!) – grípur augað strax, og sömuleiðis
Á elleftu stundu (The 11th Hour) þar
sem Leonardo DiCaprio segir áhorfendum
frá umhverfisástandi heimsins og reynir að
leita lausna. Ætli DiCaprio ætli sér að fara
fram í stjórnmálum? Saga hinnar fjögurra
ára gömlu Mörlu Olmstead sem er rakin í
Krakkinn minn gæti málað þetta! (My Kid
Could Paint That) er einnig áhugaverð,
en sú litla skaust upp á stjörnuhimininn
fyrir myndir sem hún málaði og þóttu
minna á verk Jacksons Pollocks og Picassos.
Sjálfur dregur leikstjórinn enga ályktun, en
myndin er gott innlegg í umræðuna um
hvort nútímalist sé kannski ekkert nema
nýju fötin keisarans.
Schygulla og Kaurismäki
Heiðursgestir hátíðarinnar eru tveir, þýska
leikkonan Hanna Schygulla sem lék í
fjöldamörgum myndum R.W. Fassbinders,
og finnski leikstjórinn Aki Kaurismäki
sem þykir með bestu leikstjórum Evrópu
um þessar mundir. Sá síðarnefndi er tíður
gestur á kvikmyndahátíðinni í Cannes
og hefur einnig verið tilnefndur til
Óskarsverðlauna fyrir myndina Maður án
fortíðar. Kaurismäki lét sig að vísu vanta á
verðlaunaafhendinguna í mótmælaskyni við
Íraksstríðið og hefur lagt bann við því að
nýjustu myndir hans séu sendar sem framlag
Finna til verðlaunanna. Hann vill miklu
frekar koma til Reykjavíkur, en hér verða
honum veitt verðlaun fyrir framúrskarandi
listræna kvikmyndasýn. Svonefndur
Finnlands-þríleikur Kaurismäkis verður
sýndur á hátíðinni í tilefni af komu hans.
Schygulla verður einnig heiðruð fyrir
ævistarf sitt og í þakkarskyni mun hún
halda tónleika fyrir íslenska áhorfendur
þar sem hún flytur lög sem snertu hana
á lífsleiðinni – hvort sem lögin voru eftir
Schubert, Brecht eða Dylan.
Dagskrá Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar
er alltof umfangsmikil til að hægt sé með
góðu móti að gera grein fyrir henni hér
og því viljum við benda áhugasömum
lesendum á vefsíðu hátíðarinnar:
www.riff.is.
Metnaðarfull
sky
,
dagskrá
Texti: Atli Bollason