Ský - 01.08.2007, Qupperneq 67
ský 67
Menn taka að hverfa
Um uppvöxt Björns er þess helst getið að hann hafi þótt dulur í
skapi og harðger. Einhvern tíma er sagt að hann hafi legið sofandi
um messutímann inni í bæ og dreymir hann þá að til hans kemur
maður sem vísar honum á stein uppi á Axlarhyrnu. „Það sem þú
finnur norðan undir honum skaltu eiga og nota vel; fylgir því sú
náttúra að þú munt verða nafnkunnur maður.“ Daginn eftir leitar
Björn steinsins og finnur undir honum litla öxi. Björn tekur hana
og felur undir klæðum sínum en sýnir félögum sínum hana
daginn eftir og spyr: „Hver ykkar vill eiga náttstað undir
þessari?“ Skömmu síðar hverfur fjósamaður á Knerri,
félagi Björns.
Guðmundur sonur Orms á Knerri var
vinur Björns og þegar Ormur dó fékk
Guðmundur honum jörðina Öxl, en
hún er skammt fyrir ofan þar sem Hótel
Búðir eru nú. Björn giftist vinnukonu
sem Steinunn hét. Var mikið ástríki með þeim
hjónum og var talið að hún hefði hjálpað honum við
ódæðin eða að minnsta kosti að fela líkin. Búnaðist þeim
vel en athygli vakti hve marga hesta Björn átti og þótti mörgum
það ekki einleikið.
Vinnumenn tveir áttu að fara í sjóróðra undir Jökli og var
húsbóndi þeirra kunningi Björns og ætlaði að biðja hann fyrir
mennina. Þeir komu að Öxl að kvöldlagi og voru vel búnir með væna
hesta. Þegar Björn sá það bauð hann þeim með sér út í fjós. Þóttist
annar þeirra sjá glampa á eitthvað í hendi Björns og flýtti sér þá að
segja erindið og nefna húsbónda sinn. Veitti hann þeim þá hinn besta
beina og greiddi för þeirra. Þegar upp komst um voðaverk Björns
þóttust mennirnir vita að ekki hefði farið jafn vel ef þeir hefðu dregið
að segja deili á sér.
Dauður maður undir rúmi
Ein saga segir að maður hafi komið að Öxl og verið fengin gisting í
rúmi. Honum varð ekki svefnsamt, fer framúr og þreifar undir rúmið
og finnur þar kalda hönd, en þar lá dauður maður undir. Voru nú
góð ráð dýr því að hann óttaðist að komast ekki burt fyrir þeim
hjónum. Afræður hann í skyndi að færa þann dauða upp í rúmið
og skríða þangað sjálfur sem hinn var áður. Fljótlega koma Björn og
Steinunn inn og er engum togum að skipta að Björn leggur öxinni
í þann dauða. Fara þau svo aftur skötuhjú en maðurinn beið undir
rúminu þar til birti og kom sér þá á brott.
Ekki fór hjá því að grunsemdir vöknuðu um atferli Björns en hann
naut vináttu Guðmundar á Knerri og enginn þorði að stugga við
honum. Fór þó svo að Björn bauð gistingu systkinum tveimur, pilti
og stúlku. Systirin fór fram og heyrist fljótlega frá henni óp. Bróðir
hennar ákvað þá að forða sér hið snarasta og tókst að komast undan
Birni í myrkrinu. Fljótlega eftir þetta voru páskar. Á páskasunnudag
kom Ingimundur hreppstjóri sem bjó að Hellnum á Brekkubæ í
kirkju. Sól skein í heiði og menn stóðu utan við kirkjuna. Er þá
sagt og Björn á Öxl hafi komið og sagt: „Nú eru sólarlitlir dagar,
bræður.“ Menn þekktu að Björn var í fötum af Sigurði vinnumanni
Ingimundar sem hafði horfið tveimur árum áður. Var hann þá tekinn
og færður til sýslumanns.
„Heldur
tekur nú að
saxast á limina“
Þjóðsagan segir að Björn hafi
drepið átján manns en samkvæmt
annálum játaði hann ekki að hafa
drepið nema níu. Þó fundust fleiri
lík en Björn sagðist hafa fundið það
fólk dautt í hrauninu og ekki nennt að
draga líkin til kirkju. Sagt var að þau hjón
hefðu falið líkin í Íglutjörn sem er skammt frá bænum. Björn
var dæmdur til dauða en ákveðið að fyrst skyldi hann beinbrotinn á
öllum útlimum. Steinunni konu hans var þyrmt, líklega vegna þess
að hún var þunguð. Sagt er að Björn hafi borið sig vel meðan beinin
voru mölvuð, en til þess var notuð trésleggja. Þegar búið var að brjóta
þannig hendur og fætur er sagt að Steinunn hafi sagt við nærstadda:
„Heldur tekur nú að saxast á limina hans Björns míns.“ Sagt er að
Björn hafi þá svarað: „Einn er þó eftir og væri hann betur af.“ Var
hann þá hálshöggvinn. Þetta var árið 1596.
Óslitinn þráður?
Þó að Björn væri úr sögunni var ódæðum ættarinnar ekki lokið.
Steinunn kona hans varð léttari og fæddi son sem nefndur var Sveinn
skotti. Nafnið er dregið af því að hann ólst upp á Skottastöðum í
Svartárdal. Sveinn varð enginn föðurbetrungur því að hann fór um
landið, stal og áreitti konur. Hann fór vestur á firði og lagði þar lag
sitt við Jón nokkurn galdramann Sýjuson. Sagt var að Sveinn hefði
lært galdur og veðsett sig djöflinum. Endalok Sveins voru þau að hann
vildi nauðga húsfreyjunni í Rauðsdal á Barðaströnd, en bóndi var ekki
heima. Náðist Sveinn þá og var dæmdur og hengdur í Rauðuskriðum
árið 1648.
Sonur Sveins hét Gísli sem kallaður var hrókur. Um Gísla var
sagt að hann hefði verið þjófur og annað illt að honum. Hann fylgdi
ættarhefðum og var hengdur í Dyrhólum.
Stærstur hluti þess sem hér er sagt er úr þjóðsögum Jóns Árnasonar
en þó að sagan af Birni hafi á sér þjóðsagnablæ var hann til og um
ódæði hans er getið bæði í annálum og dómabókum. Sömu sögu er að
segja um þá Svein skotta og Gísla hrók að báða má finna í annálum.
Það sem meira er að af Gísla eru komnir ættir og þúsundir Íslendinga
frá þeim langfeðgum komnar. Menn geta sér til gamans kannað í
Íslendingabók hvort þeir eigi ættir að rekja til þessara óskemmtilegu
kóna. Þess skal getið að höfundur greinarinnar fann engan skyldleika
þegar hann reyndi að rekja saman ættir sínar við Axlar-Björn.
fjöldamorðingi
sky
,