Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.11.2014, Blaðsíða 13

Skinfaxi - 01.11.2014, Blaðsíða 13
 SKINFAXI – tímarit Ungmennafélags Íslands 13 Mikil upplifun og afrek Thelma Rut sagði fimleikana í stöðugri sókn og að íslenskt fimleikafólk stæði sig vel á Norðurlandamótum og eins á Norður- Evrópumótum og við værum smám saman að vinna okkur upp á stóru Evrópumótunum. „Heimsmeistaramótin eru, eins og gefur að skilja, gríðarlega sterk og þangað komast aðeins þeir bestu. Það var mikil upplifun að komast á Heimsmeistaramótið og í raun afrek. Það var meiri háttar að hitta bestu stelpur heims á þessu sviði sem gera ekkert annað en að stunda fimleika, þær eru ekki í skóla og því atvinnumenn í íþrótt sinni. Stelpurnar frá Rússlandi og Kína eru í fimleikasalnum átta tíma dag á meðan þetta er áhugamál hjá okkur. Við förum þetta á áhuganum og borgum ferðirnar okkar sjálfar á meðan þær bestu úti í heimi fá allt borgað. Í þessu liggur munurinn,“ sagði Thelma Rut. Fimmfaldur Íslandsmeistari - Hvernig hefur þér gengið á mótum síðustu misseri? „Ég get ekki sagt annað en bara rosalega vel. Ég hef unnið Íslandsmeistaratitilinn jafn- oft og Berglind Pétursdóttir sem var okkar fremsta fimleikakona á sínum tíma. Eftir smá- pásu á síðasta sumri tókst mér að koma mér í form og ná þriðja sæti í heildina á Íslands- mótinu og varð síðan Íslandsmeistari á slá og á gólfi sem ég var afar ánægð með. Við fórum þrjár stelpur á Heimsmeistaramótið í Kína, ég, Norma Dögg og Freyja Björk og það er nokkuð sem á eftir að sitja í minningunni alla tíð. Við stóðum okkur allar með prýði en Norma Dögg náði ótrúlegum árangri í stökki. Ég tók þátt í heimsmeistaramóti í Tókýó fyrir þremur árum en það var mun meiri upplifun að koma til Kína. Þetta eru svo ólíkir menn- ingarheimar,“ sagði Thelma Rut sem varð Íslandsmeistari í fjölþraut 2008, 2010, 2011, 2012, 2013 og lenti í þriðja sæti 2014. Tímanum vel varið - Þegar þú lítur til baka og skoðar ferilinn, finnst þér þetta hafa verið gefandi og þrosk- andi tími? „Ég sé aldrei eftir þessum tíma. Margir hafa spurt mig að því hvernig ég nenni að eyða öllum þessum tíma í fimleikasalnum. Þessum tíma hefur verið vel varið, hann verið bæði gefandi og þroskandi. Maður hefur líka öðlast mikla reynslu, bæði með keppni og ferðalögum til ólíkra menningarheima.“ Mikil breyting hefur orðið - Hvernig er að æfa fimleika í dag miðað við það þegar þú varst að byrja? „Það hefur orðið mikil breyting í þeim efn- um. Gerpluhúsið Versalir var tekið í notkun 2005 og er talið á meðal bestu fimleikahúsa á Norðurlöndum. Margir erlendir fimleika- menn, sem hafa keppt í Versölum, hafa lýst „Mér finnst ég vera að leggja stund á íþrótt sem er ofsalega skemmtileg og gefandi í alla staði.“ mikilli ánægju með allar aðstæður þar. Þær eru fyrsta flokks. Ég æfði í gamla Gerpluhús- inu á sínum tíma og að fara þaðan yfir í nýja húsið var algjör bylting svo að ekki sé meira sagt,“ sagði Thelma Rut. Heillandi íþrótt - Af hverju er svona mikill áhugi á fimleikum hér á landi? „Þetta er heillandi íþrótt. Svo hafa fimleikar verið í sviðsljósinu undanfarin ár. Það kemur í kjölfar góðs árangurs í hópfimleikum og eins í áhaldafimleikum. Keppendur hafa staðið sig vel bæði hér heima og erlendis, unnið til verðlauna, og allt hefur þetta áhrif til góðs fyrir fimleikana, það er ekki nokkur spurning. Umfjöllun í fjölmiðlun er æ meiri og það eyk- ur tvímælalaust áhuga barna og unglinga á fimleikum. Fimleikar eru ennfremur grunn- uppbygging fyrir allar íþróttir. Fólk, sem hef- ur náð langt í öðrum íþróttum, hefur notið þess að byrja í fimleikum. Í því sambandi get ég nefnt Crossfit og við Anný Mist æfðum fimleika saman þegar við vorum litlar,“ sagði Thelma. Allur tilfinningaskalinn - Er ekki fimleikaheimurinn harður og þarf ekki að leggja mikið á sig til að ná árangri? „Jú, svo sannarlega. Fimleikar geyma allan tilfinningaskalann og krefjast mikils aga. Auð- vitað þurfa hæfileikarnir að verða til staðar, skapið og alltaf að vera tilbúin að leggja sig fram á æfingum. Fimleikar eru þannig íþrótt að þú verður að gefa þig alla í þá til að ná settum markmiðum, það er bara ekkert öðru- vísi,“ sagði Thelma Rut Hermannsdóttir og var þar með rokin í tíma í Háskóla Íslands.

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.