Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.11.2014, Blaðsíða 15

Skinfaxi - 01.11.2014, Blaðsíða 15
 SKINFAXI – tímarit Ungmennafélags Íslands 15 H arpa Þorsteinsdóttir, leikmaður Íslandsmeistara Stjörnunnar, var markadrottning úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu 2014 og hlaut að launum gullskóinn nú á dögunum. Harpa átti frábært tímabil með Stjörnunni og skoraði 27 mörk í átján leikjum liðsins í deildinni. Tímabil þar sem allt gekk upp „Síðasta keppnistímabil mun ábyggilega renna mér seint úr minni þar sem segja má að eiginlega allt hafi gengið upp. Það verður erfitt að toppa þetta tímabil og það er að þakka mjög góðu liði. Frábær liðsheild hjálp- aði mér til að skora þessi mörk en liðsandinn var einstakur og á stóran þátt í hvað við upp- skárum,“ sagði Harpa Þorsteinsdóttir, knatt- spyrnukona í Stjörnunni, í viðtali við Skinfaxa. Harpa hefur mestan hluta ferils síns leikið með Stjörnunni en á árunum 2007–2010 lék hún með Breiðabliki. Harpa sagðist reyndar hafa byrjað að æfa knattspyrnu með Þrótti þegar hún var sjö ára gömul en hún flutti síðan í Garðabæ þegar hún var 12 ára gömul. Snýst um að halda haus Þegar Harpa var spurð hvaða augum hún horfði til næsta tímabils sagði hún alveg ljóst að það yrði mjög krefjandi og erfitt að fara inn í það með ný markmið. „Við brutum í blað á nokkrum sviðum á síðasta tímabili með því að verja titilinn og vinna tvöfalt. Næsta tímabil snýst um að halda haus og langa virkilega til að vinna tvö- falt aftur. Vonandi munum við síðan standa okkur betur í Evrópukeppninni, þar er vissu- lega markmið sem við setjum okkur,“ sagði Harpa. Hún sagði að æfingar væru að ein- hverju leyti hafnar að nýju fyrir næsta tímabil en eiginlega fer allt á fullt eftir áramótin. Margir mjög góðir leikir „Mér fannst fótboltatímabilið, þegar á allt er litið, nokkuð gott þrátt fyrir að sumum hafi fundist við taka þetta með sannfærandi hætti. Það voru nokkur lið sem veittu okkur verð- uga keppni eins og Fylkir og Selfoss sem tefla fram mjög efnilegum og öflugum liðum. Að mörgu leyti var þetta gott og áhugavert tíma- bil og margir mjög góðir leikir,“ sagði Harpa. Atvinnumaður á Íslandi - Hvað með framtíðina hjá sjálfri þér? Langar þig ekki til að spreyta þig á erlendum vettvangi? „Það væri fyrst og fremst draumur að geta orðið atvinnumaður í íþrótt sinni á Íslandi en það er frekar horft til þess að eyða peningum í erlenda leikmenn. Ég er komin með fjölskyldu og líf mitt er byrjað hér á landi og það er meira en að segja það að rífa sig upp og fara út. Maður rynni svolítið blint í sjóinn að fara til útlanda og það er kannski meiri áhætta en ég vil taka. Það er hins vegar ekki spurning að ég væri til í taka þann slag ef ég væri yngri. Núna er ég með fjölskyldu, í vinnu og námi. Ég á þriggja ára strák og átta ára stjúpdóttur sem býr hjá okkur.“ Maður er aldrei stoltari - Er alltaf jafn gaman að taka þátt í verkefnum með íslenska landsliðinu? „Maður er aldrei stoltari en þegar maður tekur þátt í verkefnum með íslenska lands- liðinu og það eru bara forréttindi að mínu mati. Það voru gríðarleg vonbrigði að kom- ast ekki í umspil um sæti á heimsmeistara- mótinu en mér fannst sem áður við leika vel lengstum. Framtíðin er björt og ég hlakka mikið til að takast á við næstu Evrópukeppni,“ sagði Harpa. Nýt góðu stundanna Eins og kom fram hér að framan skoraði Harpa 27 mörk í deildinni á síðasta tímabili og sagði hún aldrei að vita hvort henni tæk- ist að skora meira á því næsta. „Mér finnst skipta mestu máli að liðið leiki vel og vonandi skila sér þau mörk sem ég skora fyrir liðið. Mér finnst það breytast með árunum hvað ég nýt þess betur að leika knattspyrnu. Með ákveðnum þroska og breyttum áherslum er maður yfirvegaðri og nýtur góðu stundanna,“ sagði Harpa Þor- steinsdóttir í viðtalinu við Skinfaxa. Harpa Þorsteinsdóttir markadrottning úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu: „Það verður erfitt að toppa þetta tímabil“

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.