Húnavaka - 01.05.1990, Blaðsíða 100
98
HÚNAVAKA
vatn er í ánni, liggja oft tveir til þrír fiskar undan hverju straumbroti,
en færa sig svo niður á breiðuna eftir því sem vatnsmagnið vex.
Við skyggnum hylinn af brúnni og það fer ekki á milli mála að
hann er kvikur af fiski. Þennan hyl er betra að veiða frá norðurbakk-
anum sökum þess að þar er betri aðstaða til að kasta hvort sem
heldur er maðki eða flugu. Sérðu maður, þarna liggja einir sjö hlið
við hlið og róta sér ekki.
Neðri-Rani. Það er eiginlega enginn ákveðinn í því hvar hann
er. Þarna ofan við brúna rennur áin í dálitlum halla og mikið af
stóru grjóti út um alla á, pollur er við hvern stein og þá gjarna
fiskur í pollinum og straumönd á steininum, það er nefnilega töluvert
fuglalífá Laxá.
En takið nú eftir, nú erum við komin að þriðja aflamesta veiði-
staðnum, Efri-Rana. Þarna hefur náttúran ekki verið að spara.
Harður strengur hið efsta en verður síðan að gullfallegum hyl sem
svo endar á broti. Tveir stórir steinar á bakkanum til að skýla sér
bak við og stórgott að landa, hvort sem er fyrir ofan eða neðan
steinana.
Við laumumst til að kíkja í hylinn og það leynir sér ekki, þarna
eru þrír á hinum heíðbundna tökustað og ég sé ekki betur en að
einn sé aðeins ofar og dýpra.
Við setjumst niður um stund og horfum á fiskana, það er líka
gaman að horfa á fiskinn þó að maður geri ekki tilraun til að veiða.
Þaðan sem við sitjum blasir við okkur næsti veiðistaður, Flaumur.
Þetta er allstór hylur með örlitlu fossbroti, mikilli ólgu og hringiðu,
fallegur staður en gefur ekki að sama skapi marga fiska, enda erfitt
að veiða þarna. Þegar brúin var byggð sumarið 1974, lá sami fisk-
urinn á sama stað allt sumarið og hvarf ekki fyrr en undir haust
án þess þó að vera veiddur.
Rétt ofan við brúna rennur áin í stórum sveig frá norðri til suðurs,
þrír-fjórir stórir steinar eru við bakkann, þar framan við heitir Snagi,
fallegur en lítillátur staður.
Nú fer að verða lengra á milli veiðistaða, en rétt neðan við fjárhúsin
á Njálsstöðum komum við að Göngumannahyl. Þetta er langur hylur
í fallegu umhverfi, gefur oft góða veiði og það er eins með þennan
stað og fleiri, að hér væri gaman að nota fallegan spón og draga
eftir endilöngum hylnum.
Suður undan Njálsstaðahúsunum er Húsakvörn, lítill en snotur
maðkveiðistaður.