Húnavaka - 01.05.1990, Blaðsíða 217
HÚNAVAKA
215
að heimilin ættu að vera hornsteinar þjóðfélagsins og frumskilyrði
fyrir uppfóstrun og vernd barna, svo og athvarf hinna öldruðu. Hún
vann í ræðu og riti að þessum áhugamálum sínum og óhætt er að
fullyrða, að hún hafi unnið mikið og gagnlegt starf í menningarmál-
um kvenna og til styrktar heimilisiðjunni í landinu.
í skólasetningarræðu sinni árið 1954 kemst hún svo að orði: „Eng-
inn getur talist gæfumaður, sem ekki hefir komið auga á skyldurnar
við samferðamennina, heimili sín, skóla og þjóðfélag - skyldurnar
við lífið.“
Ég hygg, að þessi orð lýsi vel hugsjónum og starfi Huldu Stefáns-
dóttur. Hún var miklum hæfileikum búin, merk og vinsæl meðal
nemenda sinna, sveitunga og annarra samferðamanna. Hún hafði
svo trútt minni, að orð fór af og hélt minni sínu nær óskertu allt
til dauðadags. Hún var fædd mælskukona, talaði blaðalaust, hreif
jafnan áheyrendur sína. íslenskt mál lék henni á tungu. Hún var
ritfær í besta lagi. Frásagnarlist hennar var frábær.
Einn vina hennar komst svo að orði, er æfisaga hennar kom út:
„Á vissan hátt náði hún hápunkti á ferli sínum á efri árum æfi sinnar
með ritun minningabóka sinna. Orðið blífur.“
Með þeim bókum hefir hún bjargað frá gleymsku og glötun, verð-
mætum hlutum varðandi fólk, atvinnuhætti, aldaranda og menningu
á Norðurlandi á áratugunum fyrir og eftir síðustu aldamót.
Hulda var manna glöðust á góðri stund, skemmtileg og veitandi,
greip þá oft til tónlistarinnar, sem hún haíði iðkað frá unga aldri.
Hún unni sögu og tungu forfeðranna meir en flestir aðrir. Hún
áleit að lærdómar helgra minninga væru hverri þjóð nauðsynlegir.
Að varðveita þá varðar miklu hvað maðurinn geymir í minni sér
og hvernig. Það að hann hafi minningar, sem kjölfestu og áttavita
í lífi sínu, helgaðar af trú og bæn. Sama gegnir um þjóðir. Sameigin-
legar minningar, sameiginlegur arfur. Þetta er það sem skapar þjóð.
Farsæld hennar, heill og hamingja, er að verulegu leyti undir því
komin, hvernig henni tekst að rækja minningar sínar. Sú þjóð, sem
vill eiga framtíð, þarf að treysta böndin milli hins liðna og ókomna,
því fremur, sem hún er minni. Það er staðreynd, að þar sem böndin
eru traustust milli feðra og niðja, milli liðinna og komandi kynslóða,
þar er þjóðlífið traust og sterkt. Öllu öðru framar þarf þjóð að rækja
þær minningar, sem augljósast vitna um málefni Guðs í lífi hennar
og sögu.