Dagblaðið Vísir - DV - 17.12.2010, Blaðsíða 54
Frakkinn Samir Nasri hefur farið
á kostum með Arsenal í ensku úr-
valsdeildinni í vetur og verið þess
langbesti maður. Hann er búinn að
stýra spili liðsins, skora átta mörk í
deildinni og tólf í öllum keppnum,
heilt yfir frábær byrjun hjá hinum
23 ára gamla Frakka. Hann er nú á
sínu þriðja tímabili með Arsenal en
þangað var hann keyptur frá Mars-
eille á um 15 milljónir punda sam-
kvæmt því sem talið er. Hjá Mars-
eille var Nasri fyrir löngu orðinn
þekkt stærð enda gekk hann í raðir
þess ungur að árum. Árið 2007 var
hann valinn besti ungi leikmaður
frönsku deildarinnar og skákaði þar
sjálfu ungstirninu Karim Benzema.
Það var eftir það sem knattspyrnu-
spekingar í Frakklandi fóru að líkja
honum við sjálfan Zinedine Zidane,
einn besta knattspyrnumann sög-
unnar.
Er um margt líkur Zidane
Eins og Zinedine Zidane er Nasri af
alsírskum uppruna. Foreldrar hans
eru Alsíringar en fluttu áður en
hann fæddist til Frakklands, nán-
ar til tekið La Gavotte Peyret sem
er í úthverfi Marseille. Eins og Zid-
ane, og reyndar margir aðrir knatt-
spyrnumenn, þróaði Nasri hæfi-
leika sína á götunum þar sem hann
lék sér í knattspyrnu alla daga og
öll kvöld. Í umfjöllun um hann á
franskri vefsíðu er sagt að hann
hafi spilað nokkra leiki með einu
af götuliðunum sem samanstóð af
meðlimum glæpagengja.
Eins og Zidane eru styrkleikar
Nasri að rekja boltann og útsjón-
arsemin. Það var vegna alls þessa
sem Nasri fékk viðurnefnið: „Hinn
nýi Zidane“ í Frakklandi. Sjálfur
vill Zidane að Nasri verði sinn eigin
herra. „Nasri er einn af efnilegustu
knattspyrnumönnum Frakklands.
Hæfileikar hans eru óumdeildir.
Það er aldrei gott fyrir neinn að vera
líkt við einhvern annan. Nasri á að
spila þann bolta sem honum hentar
best. Hann verður frábær, ég er ekki
í nokkrum vafa um það og eflaust
mun síðan fæðast einhvers stað-
ar strákur í Frakklandi sem verð-
ur kallaður hinn nýi Nasri,“ sagði
Zidane um nafnbót Nasris.
Besti ungi leikmaðurinn
Foreldrar Nasris skráðu hann í hverf-
isliðið, Pennes Mirabeau, þegar hann
var sex ára gamall. Það var þó alvitað
að hann yrði ekki lengi þar og sú varð
raunin. Eftir aðeins tvö ár var stór-
liðið Marseille búið að koma auga á
þennan mikla hæfileikapilt og gerði
við hann barnasamning. Hóf hann
að æfa með Marseille níu ára gamall
og spilaði hann sinn fyrsta leik með
aðalliðinu sautján ára gamall.
Á sínu fyrsta tímabili 2004/2005
var hann í byrjunarliðinu þrettán
sinnum, kom inn á sem varamaður
ellefu sinnum og skoraði eitt mark.
Hann þótti strax sýna mikla hæfileika
en hann hafði áður slegið í gegn með
U16 ára landsliði Frakklands, aðeins
fjórtán ára. Nasri er einn af fáum
leikmönnum Frakklands sem hefur
spilað með öllum yngri landsliðun-
um auk þess að eiga A-landsleiki.
Nasri hélt áfram að gera frábæra
hluti í Frakklandi og eftir leik-
tíðina 2006/2007 var hann
kjörinn besti ungi leikmað-
ur frönsku deildarinn-
ar. Þar skaut hann hin-
um magnaða Karim
Benzema ref fyrir
rass. Fékk Nasri 62
prósent atkvæð-
anna en það var
eftir þá kosningu að samanburð-
urinn við Zidane hófst.
Wenger kallaði
Sparkspekingar á Englandi haft
oft grínast með að Arsene Wenger,
knattspyrnustjóri Arsenal, megi ekk-
ert franskt sjá án þess að kaupa það.
Hann hefur náttúrulega verið með
frábæra franska leikmenn í sínum
röðum og var því ekkert óeðlilegt við
að hann vildi fá efnilegasta Frakk-
ann til sín. Kaupin á Nasri til Arsen-
al gengu í gegn sumarið 2007. Voru
Arsenal-menn klókir að klára þau
viðskipti snemma því tilboð frá stór-
liðum Real Madrid og Inter voru á
leiðinni. Þau komu þó of seint og var
Nasri orðin skytta.
„Ég hef átt mörg góð ár hjá Mars-
eille. Nú er kominn tími til að taka
næsta skref og ég held að Arsenal sé
frábær kostur fyrir mig. Þar er þjálf-
ari sem talar frönsku og margir leik-
menn sem tala líka frönsku. Frönsk-
um leikmönnum hefur gengið vel
hjá Arsenal og vonandi viðheld ég
þeirri hefð,“ sagði Nasri eftir undir-
skriftina í Lundúnum.
Eins og fimmtán milljóna punda
manni sæmir var Nasri strax hent í
byrjunarliðið og stóð hann sig vel.
Hann lék 29 leiki í deild á sínu fyrsta
tímabili, skoraði sex mörk og gaf
tvær stoðsendingar. Tölurnar voru
svipaðar næsta ár en það hefur ver-
ið á þessu tímabili sem Nasri hefur
virkilega slegið í gegn. Vegna mikill-
ar fjarveru fyrirliðans Cesc Fabregas
hefur Nasri leikið meira inni á miðj-
unni en á kantinum og þar hefur
hann fundið sig. Nasri hefur oft verið
gagnrýndur fyrir að vera ekki nægi-
lega öflugur fyrir framan markið en
hann er nú þegar búinn að skora átta
mörk í úrvalsdeildinni og er einn af
markahæstu leikmönnum ensku úr-
valsdeildarinnar.
Nasri ætlar að gera hvað hann
getur til að hjálpa Arsenal að vinna
titla en þar á bæ hafa menn ekki séð
verðlaunapening í fimm ár. „Þetta er
orðið pirrandi. Við fáum ekki nægi-
legt hrós fyrir allt það góða sem við
gerum inni á vellinum því við vinn-
um enga titla. Það er ósanngjarnt
finnst mér því mér finnst við eiga
meira skilið heldur en lið sem hafa
byggt sinn árangur með peningum
á sama tíma og Arsenal notast við
unga leikmenn sem spila í þeim fal-
lega stíl sem Arsenal spilar,“ sagði
Nasri í viðtali í apríl á þessu ári.
Óvænt ekki í landsliðinu
Það var óhjákvæmilegt að Nasri léki
með franska landsliðinu ungur að
árum enda framfarir hans miklar
ár eftir ár. Hann spilaði sinn fyrsta
A-landsleik nítján ára gamall, æf-
ingaleik gegn Austurríki. Nasri átti
aukaspyrnu í leiknum sem hann
sendi inn á teiginn, beint á höfuðið
á Karim Benzema sem skoraði eina
mark leiksins. Stoðsending í fyrsta
leik. Fyrsta landsliðsmark sitt skor-
aði Nasri svo sjálfur gegn Georgíu í
eins marks sigri í undankeppni EM
2008.
Nasri var valinn af landsliðs-
þjálfaranum Raymond Domenech
í landslið Frakklands sem tók þátt á
Evrópumótinu árið 2008, þá tvítug-
ur. Hann kom tvisvar inn á sem vara-
maður og lék samtals tuttugu og sex
mínútur en skoraði ekki mark. Þrátt
fyrir að vera orðinn fastamaður með
Arsenal og landsliðinu var Nasri
gríðarlega óvænt ekki valinn í loka-
hóp Frakklands fyrir heimsmeistara-
mótið sem fram fór í Suður-Afríku í
sumar. Svona eftir á að hyggja voru
það gleðitíðindi fyrir hann enda urðu
Frakkar sér til skammar á mótinu en
ákvörðunin sló marga engu að síður.
„Ég virði val Domenechs en ég vil
vita hver ástæðan er fyrir þessu. Ég
er að heyra að þetta sé vegna hegð-
unar minnar sem ég skil ekki,“ sagði
Nasri um ákvörðun Domenechs fyrr
á árinu en fékk engin svör. Hver var
fyrstur að rífa upp símann og hringja
í drenginn? Jú, Arsene Wenger. „Ars-
ene hringdi í mig og sagði mér að við
værum ennþá vinir. Hann sagði mér
bara að taka mér gott frí og ekki efast
um hæfileika mína.“
Til allrar hamingju fyrir Nasri
og frönsku þjóðina var Raym-
ond Domenech sagt upp störfum
sem þjálfara Frakklands eftir HM
þar sem liðið fór ekki upp úr riðli.
Laurant Blanc tók við liðinu og var
ekki lengi að hringja í Nasri. Hann
snéri aftur í franska landsliðið í æf-
ingaleik gegn Noregi þann 11. ág-
úst á þessu ári.
54 | Sport 17.–19. desember 2010 Helgarblað
Leikir helgarinnar
Laugardagur 18. desember
12.45 Sunderland - Bolton
15.00 Arsenal - Stoke
15.00 Birmingham - Newcastle
15.00 Wigan - Aston Villa
17.30 Liverpool - Fulham
Sunnudagur 19. desember
12.00 WBA - Úlfarnir
13.30 Blackpool - Tottenham
16.00 Chelsea - Manchester United
Staðan
Lið L U J T M St
1. Arsenal 16 10 2 4 34:18 32
2. Man. City 17 9 5 3 24:13 32
3. Man. Utd 15 8 7 0 35:16 31
4. Chelsea 17 9 4 4 31:12 31
5. Tottenham 17 7 6 4 25:22 27
6. Bolton 17 6 8 3 30:24 26
7. Sunderland 17 5 9 3 20:18 24
8. Newcastle 17 6 4 7 27:26 22
9. Liverpool 17 6 4 7 21:22 22
10. Blackpool 16 6 4 6 24:29 22
11. WBA 17 6 4 7 24:29 22
12. Stoke City 17 6 3 8 21:22 21
13. Blackburn 17 6 3 8 22:27 21
14. Aston Villa 17 5 5 7 19:28 20
15. Everton 17 3 9 5 18:20 18
16. Birmingham 17 3 9 5 17:20 18
17. Fulham 17 2 10 5 16:20 16
18. Wigan 17 3 7 7 13:28 16
19. Wolves 17 4 3 10 18:30 15
20. West Ham 17 2 6 9 15:30 12
n Samir Nasri hefur farið á kostum með Arsenal í vetur n Sló í gegn ungur að árum með Marseille
n Líkist einum besta knattspyrnumanni sögunnar n Var í hópi Frakka á EM 2008 en ekki á HM 2010
HINN NÝI ZIDANE
Vonarstjarna
Frakka Samir
Nasri á að leiða
franska landsliðið í
framtíðinni.
Betri en Benzema Nasri var kjörinn besti ungi leikmaðurinn í Frakklandi 2007 og skákaði
þar Karim Benzema.
Tómas Þór Þórðarson
blaðamaður skrifar tomas@dv.is
Samir Nasri
Þjóðerni: Franskur
Fæddur: 26. júní 1987 (23 ára)
Leikstaða: Vængmaður/Miðjumaður
Félög: Marseille og Arsenal
Landsleikir: 19 (2 mörk)
„Eflaust mun
síðan fæðast
einhvers staðar strák-
ur í Frakklandi sem
verður kallaður hinn
nýi Nasri
Zinedine Zidane
fyrrverandi landsliðsmaður Frakka