Dagblaðið Vísir - DV - 07.02.2011, Blaðsíða 23
Nærmynd | 23Mánudagur 7. febrúar 2011
ÞAULSÆTINN ÞJÓÐARLEIÐTOGI
Stiklað á stóru í valdatíð
Hosnis Mubaraks
6. október 1981
Hosni Mubarak tekur við embætti forseta Egyptalands í kjölfar banatilræðis íslamskra öfga-
manna gegn Anwar Sadat, forseta landsins. Mubarak er viðurkenndur sem forseti landsins í
þjóðaratkvæðagreiðslu í nóvember og endurkjörinn í október 1987 og október 1993.
26. júní 1995
Vopnaðir menn gera árás á bifreið Mubaraks þegar hann mætir á ráðstefnu Organi za tion
of African Unity í höfuðborg Eþíópíu, Addis Ababa. Mubarak sleppur með skrekkinn og snýr
heim á leið með hraði.
17. nóvember 1997
Al-Gama‘a al-Islamiya, stærstu herskáu samtök íslamista í Egyptalandi, drepa 58 ferða-
menn og fjóra Egypta við forn hof skammt frá Luxor. Sex byssumenn og þrír lögreglumenn
falla í valinn. Í kjölfarið sker Mubarak upp herör gegn herskáum samtökum íslamista og hefur
haldið þeim niðri allar götur síðan.
5. október 1999
Mubarak hefur sitt fjórða kjörtímabil sem forseti landsins.
22. desember 1999
Egyptaland samþykkir að selja jarðgas til Ísraels í kjölfar áralangra samningaviðræðna.
Mars 2005
Götumótmæli Kefaya-hreyfingarinnar laða aðsér hundruð manna víðs vegar í Egyptalandi
sem mótmæla því að Mubarak sitji sitt fimmta kjörtímabil og öllum hugmyndum um að
Gamal, sonur Mubaraks, taki við af honum.
27. september 2005
Hosni Mubarak er settur í embætti forseta landsins í fimmta skipti.
8. desember 2005
Stjórnmálaflokkurinn Múslímska bræðralagið nær að fjölga sætum sínum á þingi í kjölfar
ofbeldisfullra kosninga, en flokkur Mubaraks heldur enn meirihluta.
19. nóvember 2006
Mubarak segist munu axla ábyrgð sína allt til dauðadags.
4. júní 2009
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, talar um „nýja byrjun“ í sambandi Bandaríkjanna og
íslamskra landa í ræðu í Kaíró.
26. mars 2010
Fyrrverandi yfirmaður kjarnorkumálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Mohamed ElBaradei,
kemur fram opinberlega í Egyptalandi, í fyrsta sinn eftir heimkomuna, og viðrar áhuga sinn á
forsetaframboði.
27. mars 2010
Mubarak snýr heim til Egyptalands frá Þýskalandi þar sem hann hafði dvalið í þrjár vikur
vegna aðgerðar á gallblöðru.
25. janúar 2011
Að minnsta kosti fjórir eru drepnir í mótmælum gegn ríkisstjórninni víðs vegar í Egyptalandi.
27. janúar 2011
Öryggissveitir skjóta bedúínskan mótmælanda til bana í norðurhluta Egyptalands.
Mohamed ElBaradei hefur orð á því að það sé orðið tímabært að Mubarak láti gott heita og
láti af forsetaembættinu.
28. janúar 2011
Öryggissveitir skjóta gúmmíkúlum og táragasi að mótmælendum sem kastagrjóti og
krefjast afsagnar Mubaraks. Lögreglan heftir netsamkipti í viðleitni til að gera mótmælend-
um erfitt fyrir. Mótmæli eru skipulögð víðar en í Kaíró, til dæmis í Alexandríu, Mansoura, Suez
og Aswan.
4. febrúar 2011
Í kjölfar ólgu á Tahrir-torgi verður her landsins sýnilegri í Kaíró. Hosni Mubarak segist vera
„uppgefinn“ á að vera við völd en neitar að láta undan þrýstingi um að láta af völdum sem
myndi steypa Egyptalandi í óreiðu.
Það er mat sumra fréttaskýrenda
að leynilögregla Egyptalands, og
leiguþý hennar, hafi í síðustu viku
sýnt sitt rétta andlit og opinberað
gagnvart alþjóðasamfélaginu hina
ljótu og ótæku hlið egypsks „stöðug-
leika“.
Þrennt sem Hosni þarf að huga að
Því er varasamt að ætla að Hosni
Mubarak hyggist gefast upp án átaka,
en hann þarf að mati fréttaskýrenda að
horfa til þriggja mikilvægra þátta; al-
þjóðasamfélagsins með Bandaríkin í
fararbroddi, hersins og egypsku þjóð-
arinnar og hann hefur þurft að taka
erfiða ákvörðun um hvernig best væri
að forgangsraða þessum þremur þátt-
um.
Mubarak er sagður hafa tekið þá
ákvörðun að setja þá í fyrrgreinda röð
því hann byrjaði á því að reka ríkis-
stjórnina, alla á einu bretti, þar á með-
al innanríkisráðherrann sem er í litlu
uppáhaldi hjá þjóðinni. Ákvörðunin
var kannski ekki endilega mikilvæg
hvað Egypta snerti, en átti hugsanlega
að líta út sem ærlegar og ákafar um-
bætur af hálfu Mubaraks í augum
Bandaríkjamanna.
Mubarak hafði erindi sem erfiði
og þrátt fyrir óþolinmæði vina hans í
Hvíta húsinu kváðu þeir ekki fastar að
orði en svo að mælast til þess að hann
léti af embætti í september, sem var
nánast blaut tuska í andlit þeirra þús-
unda sem kröfðust þess að Mubarak
hefði sig á brott hið snarasta.
Samvinna við herinn
Annað skrefið sem Mubarak tók var að
leggja grunninn að samkomulagi um
að deila völdum með hernum. Mikil-
vægur þáttur í því var skipun varafor-
seta og nýs forsætisráðherra. Í embætti
varaforseta skipaði Mubarak Omar
Suleiman, sem er ekki aðeins fyrrver-
andi hershöfðingi heldur býr aukin-
heldur yfir viðamikilli þekkingu á efstu
lögum hersins.
Nýi forsætisráðherrann, Ahmed
Shafiq, er sprottinn úr sama jarðvegi
og Hosni Mubarak, flughernum, en
Ahmed Shafiq var yfirmaður flughers-
ins.
Þannig hefur Mubarak nánast
tryggt sér stuðning eina hópsins sem
getur staðið að valdaráni, því svo fremi
sem enginn skriðdrekaforingi í Kaíró
hafi áhuga á taka völdin er ekki hægt
um vik fyrir mótmælendur að um-
breyta byltingarvilja sínum í raunveru-
legt og þungt högg gagnvart stjórninni.
Herinn gaf út tilkynningu um að hann
myndi ekki skjóta á óvopnaða mót-
mælendur, en hvort hann gengur enn
lengra er alls óvíst en ómögulegt er að
fullyrða um ákvörðun hersins á ögur-
stundu.
Hosni Mubarak liggur ekki lífið á
enn sem komið er. Fimmtungur þjóð-
arinnar lifir undir fátæktarmörkum og
það er því takmörkunum háð hve lengi
mótmælendur gata gengið um götur
Kaíró og annarra borga hrópandi slag-
orð gegn honum. Fyrr eða síðar þurfa
þeir að hverfa aftur til vinnu – ólíkt for-
setanum sjálfum – og því þarf Muba-
rak bara að bíða rólegur.
Heimildir: Wikipedia.org, bbc.co.uk og reuters.com
„Talið er að um
17.000 manns sitji
í varðhaldi vegna neyðar-
laganna og að fjöldi
pólitískra fanga sé um
30.000.
Óþreyjufullir Egyptar
Mubarak segist vera
uppgefinn á að vera forseti
en hyggst ekki víkja til hliðar.