Dagblaðið Vísir - DV - 30.04.2012, Blaðsíða 21

Dagblaðið Vísir - DV - 30.04.2012, Blaðsíða 21
Lífsstíll 21Mánudagur 30. apríl 2012 LykiLL þeirra að góðu formi Elísabet Margeirsdóttir næringarfræðingur Hvaða líkamsrækt stundar þú? Ég er að undirbúa mig fyrir maraþonið í Kaupmannahöfn og alpahlaup í sumar og því fer frítíminn mestallur í hlaup eða fjallgöngur. Hvað er gott við þessa líkamsrækt? Að mínu mati eru hlaup ein besta leiðin til að halda sér í góðu formi, bæði líkamlegu og andlegu. Hlaupin eru mun fjölbreyttari en margir halda en þau má stunda inni á bretti, á malbiki, utanvega í fallegri náttúru og fjöllum og að sjálfsögðu í góðum félagsskap. Keppnishlaupin sem eru haldin hér á Íslandi eru líka stórskemmtileg. Hversu oft æfir þú? Ég hleyp yfirleitt fimm til sex sinnum í viku. Hvað gerir þú til að koma í veg fyrir að gefast upp á líkamsræktinni? Markmiðin skipta miklu máli til að halda manni við efnið. Góð líðan, gott form og úthald eru mínir hvatar og fá mig til þess að hlaupa endalaust áfram. Ég mun aldrei gefast upp á því að hlaupa en stundum er gott að taka dágóða hvíld frá erfiðum æfingum til að viðhalda áhuganum. Áttu ráð fyrir þá sem vilja byrja að stunda þessa líkamsrækt? n Byrja mjög hægt og rólega til að byggja upp sterkan grunn. n Best er að hafa góðan félagsskap sem veitir stuðning og hvatningu en þar koma skokkhóparnir sterkir inn. n Setja sér raunhæf en krefjandi markmið. Bjarni Snæbjörnsson leikari Hvaða líkamsrækt stundar þú? Bootcamp, hlaup, sund og hjólreiðar. Hvað er gott við þessa líkamsrækt? Í Bootcamp er einstaklega heimilisleg stemning á æfingum. Þjálfarar eru fljótir að kynnst öllum með nafni og maður æfir alltaf með sama hóp, sem þýðir að fljótlega fer maður að þekkja þá sem æfa með manni. Æfingarnar eru einnig frábærar því það er lögð áhersla á að nota eigin líkamsþyngd. Ég er búinn að vera í Bootcamp í næstum fimm ár og það er magnað að ég hef aldrei farið á sömu æfinguna, þjálfararnir eru skapandi og æfingarnar skemmtilegar. Þetta er samt hörkupuð í klukkutíma, sem hentar mér vel þar sem vanalega er mikið að gera hjá mér í vinnu, þannig að það er gott að vera ekkert að slóra. Alltaf þegar sólin fer á loft þá legg ég bílnum og hjóla allar mínar ferðir, fer út að hlaupa og á sundæfingar. Ég er úr fiskiþorpi og æfði sund í gamla daga, þannig að þetta er leið fyrir mig til að fá vott af náttúru, sérstaklega þegar ég hleyp og hjóla meðfram sjónum. Þetta er allt orðið að hálfgerðri hugleiðslu hjá mér. Með góða tónlist í eyrunum þá er eins og tíminn standi í stað. Hversu oft æfir þú? Allt í allt æfi ég 5–6 sinnum í viku. Hvað gerir þú til að koma í veg fyrir að gefast upp á líkamsræktinni? Ég leyfi mér bara að hvíla inni á milli. Það er allt í lagi að taka sér eina viku á hálfs árs fresti þar sem maður gerir ekkert. Svo hefur reynst mér mjög vel að gera mér raunhæf markmið og skrá hjá mér árangur á hverjum degi til að fylgjast með hvernig gengur. Áttu ráð fyrir þá sem vilja byrja að stunda þessa líkamsrækt? n Varðandi Bootcamp þá er gott að hafa samband og ná persónulegum tengslum við þjálfarana. Þeir eru alltaf til staðar fyrir þig. n Settu þér raunhæf markmið með hjálp þjálfaranna. n Skrifaðu matardagbók og sendu hana inn í Bootcamp. Það er frábær þjónusta sem þau bjóða upp á. Mataræði er 60 prósent af árangri ef maður vill léttast eða þyngjast. n Varðandi hlaupið og hjólið, þá er gott að gera það algerlega á sínum forsendum. Veldu góða tónlist, veldu hlaupaleiðir sem þér finnst góðar og klæddu þig rétt. Svo er bara að byrja nógu hægt og setja sér raunhæf markmið. Reykjavíkurmaraþonið er til dæmis gott mark- mið, enda allt sumarið þangað til það fer fram. Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála hjá mbl.is Hvaða líkamsrækt stundar þú? Ég stunda alls konar líkamsrækt. Í vetur hef ég verið mikið á námskeiðum hjá Önnu Eiríksdóttur í Hreyfingu og hlaupið úti þess á milli. Á sumrin hjóla ég töluvert með fjölskyldunni og svo fer ég í sund þar sem ég rækta andlega heilsu í heita pottinum. Hvað er gott við þessa líkamsrækt? Þessi líkamsrækt er fjörug, skemmtileg og fær hjartað til að slá hraðar og eldast hægar. Hversu oft æfir þú? Það er ákaflega misjafnt, stundum einu sinni í viku og stundum fimm sinnum. Fer eftir hversu upptekin ég er. Hvað gerir þú til að koma í veg fyrir að gefast upp á líkamsræktinni? Það er ekkert sem heitir að gefast upp! Leikfimi gefur lífinu lit. Áttu ráð fyrir þá sem vilja byrja að stunda þessa líkamsrækt? n Skrá sig á námskeið, klæða sig í fötin og fara inn í tíma. Fannar Karvel íþróttafræðingur Hvaða líkamsrækt stundar þú? Ég lyfti lóðum, til dæmis í ólympískum lyftingum. Milli þess fer ég í boltaleiki og trampolínhopp með strákunum mínum og göngutúra með familíunni. Með hækkandi sól verður hjólið tekið fram og bílnum lagt sem mest. Hvað er gott við þessa líkamsrækt? Það besta eru andlegu áhrifin, það verður allt léttara og skemmtilegra þegar maður kemur því við að hreyfa sig reglulega. Hversu oft æfir þú? Ég reyni að hreyfa mig á hverjum degi en skipulegar æfingar eru um það bil 3–4 sinnum í viku. Hvað gerir þú til að koma í veg fyrir að gefast upp á líkams- ræktinni? „Gleymi“ að hreyfa mig í 2–3 daga og þá finn ég þreytustigið rísa í líkam- anum, pirringinn aukast og gleðina minnka, það er oftast nóg til að rífa sig upp :) Áttu ráð fyrir þá sem vilja byrja að stunda þessa líkamsrækt? n Byrjaðu rólega, Róm var ekki byggð á einum degi. Hreyfing tvisvar í viku í eitt ár er betri en hreyfing sex sinnum í viku í mánuð. n Lyftingar geta verið með betri þrekæfingum sem þú kemst í; notaðu flóknar æfingar sem reyna á stóra vöðvahópa, notaðu súpersett og svo framvegis. n Rétt tækni er mikilvægari en miklar þyngdir, lærðu það sem þú ert að gera og lærðu það vel.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.