Dagblaðið Vísir - DV - 11.03.2013, Blaðsíða 8

Dagblaðið Vísir - DV - 11.03.2013, Blaðsíða 8
8 Fréttir 11. mars 2013 Mánudagur Konan gaf honum nýra n Fékk sýkt blóð eftir alvarlegt bílslys n Læknaðist af lifrarbólgu C en þurfti nýtt nýra F yrir rúmum þrjátíu árum lenti Björn Magnússon í alvarlegu bílslysi. Björn stórslasaðist og annað nýrað í honum sprakk. Í kjölfarið þurfti Björn að fara í aðgerð í Bandaríkjunum þar sem hann fékk blóð sem var sýkt af lifrar- bólgu C. Með öflugri lyfjameðferð tókst að lækna Björn af sjúkdómn- um en ekki betur en svo að nýrað í honum skemmdist. Það var svo fyr- ir tveimur árum sem hann fékk nýtt nýra að gjöf frá eiginkonunni. Hélt hann væri með flensu Björn var einn þeirra líffæraþega sem hittast á þriðjudagsmorgnum í húsnæði SÍBS. Þeir gera þetta viku- lega, hittast og bera saman bækur sínar yfir kaffibolla og deila ráðum og reynslu. Nú vilja þeir deila reynslu sinni með þjóðinni til þess að hvetja fólk til umhugsunar. Það getur skipt sköpum að fólk hafi tekið afstöðu og greint upphátt frá því að ef til þess kemur þá megi nýta úr því líffærin. Þeir vita það manna best. Aðstæður þeirra eru eins ólíkar og þeir eru margir. Lengi vel vissi Björn ekki hvað var að honum. „Ég hélt alltaf að ég væri með flensu. Ég fór í skoðun til læknis og allt en fékk alltaf að heyra að ég væri svo fínn og flottur að það væri ekkert að mér þegar það kom svo í ljós að ég var með bullandi lifrarbólgu.“ Slapp alltaf fyrir horn Lifrarbólguna fékk hann á spítala í Bandaríkjunum. „Það eru mörg ár síðan. Að vísu fór ég út með staurfót á hægri og báðar hendur lamaðar. Það gerði illt verra. Ég var orðinn alveg fastur en það var hægt að losa um það. Engu að síður myndi ég sparka í rassgatið á þeim sem gaf mér sýkt blóð ef ég myndi ná honum,“ segir hann. Hann dregur upp peysuna og sýnir stórt ör á hendinni. „Ég er með mörg minnismerki. Hér sérðu ör eft- ir að þeir björguðu á mér hendinni. Þeir færðu taugarnar.“ Áverkana hlaut hann í bílslysi þegar hann var þrítugur. Fram að því var hann hinn hraustasti. „Þess vegna lifði ég þetta bílslys af. Ég var 85 kíló þegar ég fór inn á spítalann og 65 kíló þegar ég kom út af honum. Ég var á Range Rover sem ég gjöreyði- lagði og fékk ofan á mig. Það sprakk í mér annað nýrað og ég stórslasaðist en slapp fyrir horn. Síðan hef ég alltaf verið að sleppa fyrir horn.“ Erfið meðferð Það tókst meira að segja að lækna lifrarbólguna. „Ég var á mjög sterk- um lyfjum og fór í gegnum erfiða meðferð. En ég var heppinn því það var hægt að lækna mig. Um helming- ur þeirra sem voru þarna með mér náðu bata en um einn fjórði hluti hópsins gafst upp á fyrstu vikunum. Ég hélt að ég þyrfti bara að fá sprauturnar einu sinni og trúði því ekki að þetta gæti verið svona vont. Annað átti eftir að koma á daginn. Ég þurfti að fá þessar sprautur fimmtíu sinnum, alltaf á föstudögum því ég varð alltaf fárveikur eftir þær og lá fyrir yfir helgina, hálfmeðvitundar- laus og hristist bara og skalf. Þetta var rosaleg meðferð.“ Lyfin höfðu tilætluð áhrif en þar sem þau voru svo sterk eyðilögðu þau líka í honum nýrað. Á tímabili virtist þessi sjúkraganga aldrei ætla að taka enda og Björn fór í gegnum djúpar lægðir. „Þetta var svo langvar- andi tröppugangur niður á við. Ég var farinn að hugsa „hvað gerist næst? Hvernig gæti þetta versnað?““ Fann fyrir þunglyndi Ekki hjálpaði ljósfælnin. „Á tímabili var ég með svo mikla ljósfælni að ég mátti ekki vera þar sem ljós var þannig að ég var alltaf með lambhús- hettu, meira að segja inni.“ Þunglyndið náði tökum á honum um tíma og hann hálfpartinn gafst upp. „Fyrir mér var þetta orðið hálf- tilgangslaust allt saman. Ég var al- veg búinn á því og fannst allt vera á niðurleið. Það var mjög erfitt. Þetta var aukaverkun sem aldrei er talað um og týnist í öllu hinu. En sem bet- ur fer á ég góða fjölskyldu sem studdi við bakið á mér og gerir það enn.“ Félagi hans skýtur því inn að það sé í raun með ólíkindum að Björn hafi haldið geðheilsunni í gegn- um allt þetta ferli. „Ég veit ekki hvar ég væri ef ég ætti ekki svona sterka konu,“ segir Björn. Loksins orðin eitt Eftir nýrnaskiptin er Björn hressari en hann hefur verið í áraraðir. Í raun má segja að hann hafi öðlast nýtt líf. „Áður en ég fór í aðgerðina fór ég í blóðskilun þrisvar í viku, fjóra tíma í senn. Ég gerði eiginlega ekkert ann- að, þetta tók gífurlega á. Það var verið að hreinsa í mér blóðið og ég var bara þreyttur eftir það. Ég bara tórði.“ Eins og fyrr segir þá fékk Björn nýrað úr konu sinni. „Konan mín gaf mér nýra,“ segir hann brosandi. „Það var fullt af fólki sem bauð mér nýra,“ segir hann, „margir.“ Það er af sem áður var þegar fólk þurfti að vera náskylt til þess að láta nýrun ganga á milli. Nú eru lyfin orðin svo öflug að það þarf ekki. „En hún bauð mér nýrað og það var auðveldast. Í stað þess að taka einhverja menn og senda þá í skoðun fór hún strax í skoðun og þá kom í ljós að hún hentaði vel sem nýrnagjafi. Þannig að þessi ákvörðun var tekin. Hún hefur ekki verið tilbúin til að sjá á eftir mér strax,“ segir hann og kímir. Félagar hans eru hins vegar forvitnir að vita hvort það komi upp á milli þeirra hjóna að hún hafi gef- ið honum líffæri. „Nei, nei. Alls ekki. Ég hef hins vegar stundum sagt að nú værum við loksins orðin eitt,“ segir hann og hlær. „Ég held að hún hafi verið að bjarga sonum okk- ar. En læknirinn talaði við hana til þess að passa upp á að ég væri ekki að pressa á hana eða neitt svoleiðis, það er fylgst vel með því.“ Stefnir á heimsleikana Þegar búið var að taka þessa ákvörðun þurftu þau hjónin að bíða eftir lækni sem kom að utan á hálfs árs fresti til þess að framkvæma þessa aðgerð. „Þessi læknir kemur hingað og gerir nokkrar aðgerðir á meðan hann dvelur hér, eina aðgerð á dag. Það var ekki alveg öruggt að við fengjum að fara í þessa aðgerð á þessum tímapunkti því það kom upp bráðatilvik þar sem einstaklingur þurfti að fara strax í aðgerðina og þá færðumst við aftur. Þannig að það var ekki víst að við myndum nást í þeirri ferð og það var óþægileg tilhugsun að þurfa að bíða í hálft ár í viðbót.“ Sem betur fer gekk þetta þó allt saman upp og á þrettándanum fékk Björn nýrað úr konunni sinni. „Að- gerðin er oft erfiðari fyrir gjafann en hún fann ekki fyrir þessu og var far- in heim daginn eftir. Það var ótrúlegt. Hún fór svo aftur til læknis viku síðar til að láta taka saumana en síðan hef- ur hún ekki fundið fyrir þessu.“ Eftir allt er með ólíkindum hvað Björn er brattur. „Það er mesta furða segir hann og brosir.“ Hann er mun hraustari en áður og stefn- ir á heimsleika líffæraþega í Suður- Afríku í júlí. „Mér líður bara nokkuð vel.“ n Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir ingibjorg@dv.is Úttekt 2. hluti „Nú erum við loksins orðin eitt Samheldin Björn fékk nýra frá eiginkonu sinni og segir að þau séu loksins orðin eitt. MYND SIGTRYGGUR ARI

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.