Dagblaðið Vísir - DV - 06.12.2013, Qupperneq 42
42 Lífsstíll Helgarblað 6.–9. desember 2013
B
láa húsið var það stundum
nefnt eftir litnum á því. En í
mínum huga bar það nafnið
Heim. Við félagarnir bjugg-
um þar um nokkurt skeið
og var sú upplifun einstök að mörgu
leyti. Ég kom þar fyrst árið 2003 að
ég held og tók mér búseturétt í einu
herbergi af mörgum, þó ekki fasta
strax, heldur kom þar af og til, en var
orðinn nokkuð rótgróinn ári seinna.
Að búa í frystihúsi
Það gat verið ansi skrautlegur hópur
sem dvaldi þar, flestir komu einu sinn
eða tvisvar en svo rættist úr þeirra
búsetu á annan hátt. Enda var þetta
hús ekki hannað til búsetu og eins
vorum við ekki velkomnir af eigend-
um eða þeim sem þóttust þar ráða
ríkjum. Lýsti það sér aðallega í óstöð-
ugu rafmagni og hita. Var þá brugð-
ið á það ráð að tengjast landrafmagni
sem var að finna við höfnina og not-
aðir til þess rafkaplar sem einhver
hafði skilið eftir við slippinn. Leyst-
um við þar með vanda sem fylgir því
að vera ekki með slíkan munað sem
er nánast nauðsynlegur ekki hvað síst
þeim sem í frystihúsi búa.
Sá galli var þó á að það varð að
rjúfa straum áður en menn fóru á
stjá og ekki ráðlagt að tengja fyrr en
dimmt var orðið. Líkt var farið að
með þvottaaðstöðu, til að leysa það
mál tengdum við affall af hitaveitu,
sem var að finna við verslunina Ell-
ingsen, með slöngum upp á aðra
hæð í „bláa húsinu“ þar sem við vor-
um búin að koma þúsund lítra fiski-
keri sem stöðugt rann í mátulega
heitt vatn. Voru mikil þægindi af því.
Útsýnið úr fiskikarinu
Minning sem tengist þessu kari er
eitthvað á þessa leið: Ég lá í karinu
snemma morguns og var að dást
að Esjunni, hversu formfögur hún
væri. Sólin var nýkomin upp og
baðaði suðurhlíðar Esjunnar sem
glampaði í höfninni sem á sinntu
æðarfugl og mávur. Ég naut kyrrðar-
innar í morgunsárið til fulls þegar
skyndilega fyllist allt af ungu fólki
með myndatökuvélar og alls kyns
annan útbúnað. Lét ég fara eins lítið
fyrir mér sem kostur var enda voru
föt mín smá spöl frá karinu sem stóð
eitt og sér við veggjabrot og í nokkru
skjóli fyrir umferð. Tók liðið til við að
mynda fyrirsætur sem stilltu sér upp
þannig að höfnin var í bakgrunni og
naut ég bætts útsýnis frá keri mínu.
Svona leið dágóð stund eða allt
þar til að ég missti þolinmæðina og
steig upp og gekk í átt að klæðum
mínum. Þá brutust út mikil ólæti í
þessu fólki sem vissi ekkert um mig á
staðnum fyrr en að ég skaust nakinn
yfir sviðið í átt að fötunum. Þustu
þau þá að og vildu vita hvernig stæði
á minni veru þarna en þau kváðust
vera nemar í listaskóla og hafa feng-
ið leyfi hjá yfirvöldum til að nota
þessar húsarústir til myndatöku.
Gerði ég hvað ég gat til að skýra út
veru mína þarna en er ekki viss um
að allt hafi skilist rétt en þetta fólk
var frá Frakklandi. Bauð þeim síð-
an til stofu þar sem við sátum fram
eftir degi, reyktum hass og drukkum
vín. Var að þessu hin mesta skemmt-
un og góð tilbreyting í grámyglunni.
Ekki veit ég hvort þessar mynd-
ir birtust nokkurn tímann á prenti
en þau ætluðu að senda mér kópíur
sem reyndar komu aldrei.
Hætti ég að nota þetta fiskikar til
líkamsþvotta eftir að lífvana rotta
flaut hjá í einni baðferðinni.
Bagalegt þegar stiginn fór
En salernisaðstaða var slæm og ekki
fyrir pempíur, það er nú einu sinni
svo að þegar er verið að brjóta utan
af manni húsið, þá má alltaf finna
stað fyrir hratið í niðurbrotnum
veggjum og gólfum. En að það skyldi
vera búið að taka stigann sem lá úr
kjallaranum, þar sem við komumst
inn, upp á fyrstu hæð var bagalegt og
hreinlega hættulegt því ekki voru all-
ir sem komu við undir það búnir að
fara eftir brattri rennu, sem var ætl-
uð fyrir lyftara – og búið að brjóta
vegginn sem hún studdist við þannig
að engan stuðning var að fá.
Oft var ástandið þannig að menn
biðu niðri eftir að einhver kæmi sem
rataði og hægt var að styðja sig við
og vissi hvar vasaljósið var geymt.
En niðamyrkur var alls staðar nema
þar sem við vorum búin að koma
okkur fyrir. En við notuðum reynd-
ar mjög lítið ljós, nema kerti, það
bauð bara upp á ónæði af lögreglu
eða húshafa. En rafmagnið nýttist
vel til að halda hita og eins var kom-
in kæliskápur og sjónvarp sem Gat-
an gaf okkur til styrktar, sem og svo
margt annað. En götur Reykjavíkur
sáu okkur nánast fyrir öllum nauð-
þurftum. Mat og klæði.
Magaveiki nær óþekkt
Það háttar þannig til að við Mýrar-
götuna er 10–11 verslun og þar var
oftast hægt að fara á bak við og í gám
sem var fullur að hágæðavöru sem
var oft og tíðum ný, en stundum
hafði einhver annar komið og fleytt
rjómann ofan af og sátum við þá
eftir með fullþroska vöru sem ekki
kom að sök ef ostur var. Sá kostur
fylgir því að borða útrunnin mat-
væli að magaveiki er nánast óþekkt
og þakka ég það hinum mikla fjölda
gerla sem eru búnir að brjóta mat-
inn niður að hluta áður en hans er
neytt.
Fórum við í 10-11 til að kaupa
síga rettur og alltaf eitthvað smávegis
af öðrum vörum, þannig að við vor-
um orðnir þekktir af þeim sem þar
unnu, og lét það fólk þannig að ef
við vorum auralitlir þá var það eitt-
hvað annað að bjástra er við löbbuð-
um fram hjá „kardó rekkanum“. Ég
held að það hafi verið skipun frá
verslunarstjóra að hafa þann hátt á
til að hjálpa okkur við daglegt streð,
því að ef eitthvað annað var tekið
ófrjálsri hendi þá varð úr því lög-
reglumál. Lenti ég aldrei í því sjálf-
ur enda var mín veiðislóð annars
staðar. Þessa leið til að afla mat-
væla hafði ég lært árið 2000 þegar ég
kynntist fólki í Rockwell sem aflaði
matar fyrir heimilið á þann hátt og
tók ég fljótlega þátt í því. Það varð að
fara hljóðlega um það því ekki þótti
gott að það spurðist út að sá háttur
væri hafður á. Eins vorum við búin
að finna nokkra staði sem gáfu vel af
sér í dósasöfnun, þannig að oft voru
komnar tvö til þrjú hundruð dósir
og gler, það var nóg til að brúa bilið
þangað til eitthvað fór að koma inn
af klinki eða seðlum eftir því hvernig
gekk hjá hverjum og einum.
En oft þurftum við að hvíla stað-
inn og ekki ósjaldan var búið að
leggja allt í rúst er við snérum til
baka, var það bæði slítandi og ekki
hvað síður svekkjandi að þurfa að
koma sér fyrir aftur og aftur. En við
vorum fjórir eða sex sem höfðum
ekkert annað húsnæði í að hlaupa
nema stund og stund. Reyndar má
segja það um okkur flesta að við gát-
um svo sem verið annars staðar en
það hentar ekki öllum að búa við ör-
yggi og hlýju.
Stóð í ljósum logum
Ekki fær maður ráðið við náttúru-
öflin. Eitt sinn vorum við á leiðinni
heim þegar þustu hjá slökkvibílar
og lögregla. Þegar við komum vest-
ur eftir sáum við hvar helmingur-
inn af húsinu stóð í ljósum logum
og var mikill manngrúi fyrir utan
að fylgjast með slökkvistarfi. Ekki
er ljóst hvernig kviknaði í en einn
af okkur fannst sofandi þar inni og
grunar menn að hann hafi verið að
elda á hlóðum sem við vorum með
í næsta herbergi við það sem við
bjuggum í. En eldstæði þetta hafði
einn af okkur hlaðið úr múrsteinum
og notaði útikerti, sem ólánssamir
verslunareigendur höfðu til skrauts
við inngang að sínum húsum, sem
ylgjafa. Var þeim safnað saman og
kertin notuð til kyndingar þegar
búið var að loka fyrir hita. Þá slóg-
um við upp tjaldi inni í herberginu
og nutum ljóss og hita af kertunum.
Þessi eldsvoði var eiginlega rot-
högg á búsetu manna í þessu merka
húsi. Þarna var áður Hraðfrystistöð
Reykjavíkur til húsa og byrjaði ég
vinnu þar árið 1979; vann þar um
nokkurn tíma við loðnufrystingu.
Eitthvað reyndum við þó að
bjástra áfram í húsinu en það var
vart hægt sökum múrbrots og
annars skarkala. Var ég farin þaðan
norður um vorið 2006 en aðrir brös-
uðu þar eitthvað áfram þangað til að
aftur brann og múrbrot fór vaxandi.
Þá yfirgáfu þeir húsið sem eftir voru,
en tveir voru fallnir frá.
Huggun Þórðar
Það er samt svo að ég minnist þess
tíma sem ég var á Mýrargötunni
með dálitlum söknuði þó að oft og
tíðum hafi það verið erfitt að taka á
móti nýjum degi með bjartsýni sér-
staklega ef maður var einn en þá
er maður mun veikari fyrir því að
detta í eitthvert hugarvíl og sjálfs-
vorkunn. Leitaði ég þá oft huggun-
ar í þá lífsreynslu Þórðar frá Dag-
verðará er hann hékk í skipsreiða í
átján klukkutíma eftir að skipið sem
hann svaf um borð í slitnaði upp frá
festum og rak upp í Ólafsvíkurenni
og strandaði í norðan stórviðri með
gaddi og ofankomu. Þegar hann var
spurður um þessa lífsreynslu svaraði
hann því til að við þetta hafi runnið
af honum öll smámunasemi. n
Höfundur er fyrrverandi
útigangsmaður
„Heimilið“ brann Frystihúsið brann 25. apríl
2005. Það tók reykkafara talsverðan tíma að
leita af sér allan grun um að menn væru í húsinu
en einum var bjargað út. Mynd FréttABlAðið„Það hentar ekki
öllum að búa
við öryggi og hlýu
„Hætti ég að nota
þetta fiskikar til
líkamsþvotta eftir að
lífvana rotta flaut hjá í
einni baðferðinni.
Sofið í frystihúsi
Hans Alfreð Kristjánsson bjó um tíma á
götunni í Reykjavík. Hann var einn þeirra útigangs-
manna sem héldu til í gamla frystihúsinu við Mýrar-
götu 26 í Reykjavík. Hér á eftir lýsir hann daglegu lífi
í þessu yfirgefna húsi; hvernig íbúarnir böðuðu sig í
gömlu fiskikari og urðu sér úti um rafmagn og mat. Í
dag er Hans Alfreð á betri stað í lífinu.
Höfundurinn Hans Alfreð hefur í dag
vinnu á heimaslóðum og þak yfir höfuðið.