Hagskýrslur um atvinnuveg - 01.01.1986, Blaðsíða 25
23
sameiginlegan efnahagsreikning fyrir skyldar atvinnugreinar. Annars vegar er
um að ræða heilbrigðisþjónustu á vegum einkaaðila, en það eru atvinnugreinar
nr. 826, 827 og 829, og hins vegar lögfræði- og viðskiptaþjónusta við
atvinnurekstur, en það eru atvinnugreinar nr. 841 og 842.
Efnahagsreikningum fyrirtækja sem starfa í fleiri en einni atvinnugrein hefur
oft verið sleppt í úrtaki við gerð efnahagsyfirlita þótt rekstrarreikningar sömu
fyrirtækja hafi verið notaðir við gerð rekstraryfirlita. Sérstaklega á þetta við, ef
um óskyldan atvinnurekstur er að ræða. Því er að jafnaði byggt á minna úrtaki
fyrirtækja við gerð efnahagsyfirlita en við gerð rekstraryfirlita. Fullyrða má, að
í sumum atvinnugreinum, einkanlega þeim minnstu og þar sem fyrirtæki í úrtaki
eru fá, geti niðurstöður efnahagsyfirlitanna verið hæpnar. Af þessum sökum
eru nú ekki gerð efnahagsyfirlit fyrir atvinnugreinar nr. 252, trétunnu-,
trékassa- og körfugerð, nr. 291, sútun og nr. 385, reiðhjólaviðgerðir.
Auk framangreindra erfiðleika við úrvinnslu á efnahagsreikningum má nefna
að enn vantar alveg efnahagsreikninga fyrir heilar atvinnugreinar eins og
landbúnað, fiskveiðar og fiskvinnsiu. Á þessu hefur nú verið ráðin bót hvað
fiskvinnsluna varðar, því frá og með 1983 hóf Þjóðhagsstofnun reglulega
úrvinnslu úr efnahagsreikningum fiskvinnslufyrirtækja.
Nýju skattalögunum, sem komu til framkvæmda við ársreikningauppgjör
1979, fylgdu ýmsar breytingar á gerð efnahagsreikninga. Þannig voru rýmkaðar
heimildir til endurmats ýmissa eignaliða vegna verðlagsþróunar. Fyrirtæki hafa
í vaxandi mæli notfært sér þessar heimildir, og hefur það leitt til þess, að
efnahagsyfirlitin eru nú orðin mun traustari og áhugaverðari heimild um eignir
en áður var. Alveg sérstaklega á þetta þó við um hagskýrslugerð af því tagi, sem
hér birtist, þar sem saman er slegið eignum, misjafnlega gömlum, og
fyrirtækjum á öllum aldri. Án endurmats þessara liða, þar sem þeir eru færðir
til nokkurn veginn sambærilegs verðlags, eins og nú er gert, hefðu slík yfirlit
afar takmarkað gildi.
Að formi til eru efnahagsyfirlitin í samræmi við tillögur reikningsskilanefndar
Félags löggiltra endurskoðenda, og munu endurskoðendur almennt fylgja
þessu eða áþekku formi við uppsetningu efnahagsreikninga.
Athygli skal vakin á því, að varanlegir rekstrarfjármunir, eins og fasteignir,
vélar og tæki, bifreiðar og skip, eru skráðir á bókfærðu verði í efnahagsyfirlit-
unum. En með bókfærðu verði er átt við framreiknaðan fyrningargrunn
eignanna að frádregnum fyrningum frá kaupári eða byggingarári. Þótt bókfært
verð eignanna sé eitt sýnt í skýrslunni er einnig safnað upplýsingum um
óafskrifaðan fyrningargrunn eignanna, svo og fyrningar. Þessi gögn eru tiltæk
hjá Þjóðhagsstofnun.
Til frekari glöggvunar á stöðu og þróun einstakra atvinnugreina hefur verið
reiknað út úr efnahagsyfirlitunum veltufjárhlutfall og eiginfjárhlutfall atvinnu-
greina fyrir árin 1979-1983. Þessar stærðir eru birtar í töflu 2.4.