Húnavaka - 01.05.2012, Blaðsíða 54
H Ú N A V A K A 52
Þeir setjast inn í eldhús. Afi kann best við sig þar.
Hann hellir vatni og setur kaffi í könnuna, kveikir á. Hann kann þetta eitt
af eldhússtörfum og að þvo upp með því að setja diska í vél og styðja á hnapp.
„Hvað segirðu í fréttum, langafi?“ spyr hann.
„Fréttum, hvað ætli ég segi í fréttum frá þessu Gamlingjakotshæli,“ svarar
langafi, snöggur upp á lagið. Hann hefur löngum þótt hrjúfur á yfirborði en
allir vita að undir slær heitt hjarta. „Þetta eru allt daufgerð gamalmenni. Ekki
hægt að tala við neinn, þetta heyrir ekki neitt.“
Hann veit að „þetta“ merkir fólkið sem dvelst með afa á heimilinu, flest ef
ekki allt yngra en hann. Honum finnst spaugilegt að heyra langafa segja þetta.
Heyrn hans er ekki upp á það besta enda notar hann heyrnartæki. Loksins.
Hafði lengi þráast við.
Hann hellir kaffi í bolla, fær sér sjálfur mjólk.
„Viltu brauð, afi?“
„Kom með nýtt brauð, stúfur, ljúfur,“ segir langafi og réttir honum poka.
„Rúgbrauð handa mér, eitthvert skelfingarinnar hollustubrauð úr frauði
handa þér. Réttu mér viðbit og hníf, ekkert kíf, sjálfur sker ég og smyr sem fyrr,
þykkt hvoru tveggja, brauð okkar beggja.“
Honum finnst skemmtilegt að heyra afa sinn velja saman rímorð þó að
stundum finnist honum nóg um.
„Heyrðu, annars, góurinn, spóakjóinn. Kannski þykir þér gaman að vita að
þú ert í ætt við kraftakarl. Jón Páll trúi ég hann heiti og sagður er sterkastur í
heimi en það held ég sé ofsagt, þau keppa máski ekki öll, hraustmennin í henni
versu,“ segir langafi.
„Ha? Henni hvað?“
„Henni versu. Í veröldinni víðri, misblíðri, sonarsonarsonur sæll og dæll,“
segir langafi og hlær hrossahlátri.
„Voruð þið að tala um Jón Pál?“
Silla systir hans staulast fram á náttfötunum, stírur og spurn í augum, sest í
fang langafa.
„Já, anginn hans langafa. Víst nefndum við hann, sterkan mann og er
skyldmenni ykkar, það held ég nú!“ segir langafi.
„Hvað þýðir það?“ spyr Silla og á erfitt með að skilja.
„Hann er víst frændi okkar, Silla,“ svarar hann.
„Vá, er hann mikill frændi okkar?“
„Ha, ha,“ hlær langafi. „Mikill frændi – já og nei. Hann er ekki mikið
skyldur ykkur, ekki náskyldur, en mikill er hann um sig.
Ha, humm... ha, humm,“ tautar hann og horfir fram hjá þeim. Jamm...
Varla frændi mikill minn,
mikill þó á velli...
humm...
Ei við hæfi framhald finn,
fann þó botn í hvelli.