Húnavaka - 01.05.2012, Blaðsíða 125
H Ú N A V A K A 123
GUÐRÚN ANGANTÝSDÓTTIR, Skagaströnd:
Sigríður
Það er sumarið 1957 og það er komið að því að fara í síldarvinnu til Siglu-
fjarðar, ég, Sigurbjörg systir mín og móðir okkar, Jóhanna Jónasdóttir. Sumarið
áður vorum við í síld á Óskarsstöð á Raufarhöfn. Á þessum árum var ekki
mikil vinna á sumrin fyrir kvenfólk á Skagaströnd. Jón Jónsson frá Asparvík á
Ströndum hafði milligöngu með að ráða okkur í síldina í bæði skiptin. Við
fórum með rútunni hans Ágústs Jónssonar á Blönduósi sem keyrði á milli
Skagastrandar og Blönduóss í mörg ár. Þetta var þó nokkur farangur sem
fylgdi okkur, ferðatöskur, rúmfatapokar, pottar, diskar og fleira og fleira.
Við biðum lengi á hótelinu á Blönduósi eftir rútu sem flutti síldarfólk úr
Reykjavík sem við fengum far með. Loksins kom rútan nærri full af fólki. Þetta
var seinfarin leið, náttúrlega bara malarvegir á þessum árum. Við fórum
Siglufjarðarskarðið. Ég hafði aldrei farið þessa leið áður. Mér er minnisstæð
kona ein sem var með hvíta hanska á höndum og reykti hverja sígarettuna eftir
aðra. Hún fór að æpa og hljóða, hún var svona hrædd við skarðið. Konan var
eins og málverk í framan, hún var svo mikið máluð. Ég var forvitin og horfði
mikið niður fyrir veginn. Þetta var allt í lagi, bílstjórinn var svo öruggur við
stýrið og fór varlega. Ég sá aldrei þessa konu aftur.
Þegar við komum í bragga söltunarstöðvarinnar, sem hét Hafliði HF, voru
margar stúlkur þar mættar og nokkrir karlmenn. Farið var að raða stúlkunum
niður í herbergi. Er kom að okkur var bragginn orðinn fullur af stúlkum og
mönnum. En það var líka gamalt hús sem tilheyrði söltunarstöðinni og við
áttum að fara þangað. Einn maður var í húsinu sem hafði herbergi þar, sagði
verkstjórinn. Hann fylgir ykkur þangað og hjálpar ykkur með farangurinn.
Ég fór að líta betur í kring um mig og sá feitlaginn eldri mann. Hann horfði
brúnaþungur á okkur, hefur líklega hugsað, ja það verður líklega ónæði af
þessum stelpum. Maðurinn hét Sæmundur Sveinsson. Svo fórum við að taka
saman farangurinn og þá kom annar maður, Helgi Eyjólfsson og voru þeir
báðir úr Keflavík. Hann hjálpaði okkur líka með dótið í nýja híbýlið okkar.
Þetta gekk allt ljómandi vel. Í herberginu sem við fengum voru 4 kojur. Við
systurnar sváfum í efri kojunum en mamma okkar í kojunni fyrir neðan mig. Í
þeirri auðu geymdum við eitthvað af farangri.
Einn daginn var farið að smíða í herbergi sem var beint á móti eldhúsinu.
Hvað á að fara að smíða hér? spurði ég tvo menn sem voru þar að störfum.
Við erum að smíða hjónarúm, svöruðu þeir. Það koma hjón hingað eftir
nokkra daga. Þeir smíðuðu hjónarúmið og settu tvær dýnur í það en ekki komu