Húnavaka - 01.05.2012, Blaðsíða 65
H Ú N A V A K A 63
eftir hjálp. Þegar búið var að losa um aktygin og stugga við honum spratt hann
á fætur og virtist alheill en með sár á hægri lend. Nagli hafði stungist á kaf í
hægri lend og þannig lá klárgreyið grafkyrrt í æðilangan tíma.
En nú styttist í óvanalega atburði þar sem einnig kerran og Blesi koma við
sögu. Mér var sagt að þvo kerruna vel og vandlega, til þess varð ég að fara
niður í á og það var Blesa ekkert vel við því megnið af sumrinu höfðum við
farið tvisvar á dag að sækja vatn í 200 lítra tunnu. Blesi var orðinn leiður á
þessu sífellda ónæði og kargur við þennan strákgepil. Ég held að þetta hafi
verið þurrkasumarið mikla og mörg vatnsból á bæjum orðin þurr.
Tveir stálpaðir kálfar voru skildir frá kúnum, reknir suður að fjárhúsum og
hurðirnar teknar af lömum. Grímur kom með kindabyssuna og skaut báða
kálfana sem gerðir voru til í snatri og var kjötið síðan lagt í kerruna þannig að
það kólnaði sem fyrst. Nú var ljóst að við Grímur áttum langferð fyrir
höndum. Kjötið þurfti að komast í kæli sem allra fyrst og við þurftum því út í
Vatnsdalshóla í veg fyrir Norðurleiðarbílinn. Ég fékk fjöl þversum á kerruna
sem sæti en Grímur var ríðandi.
Við fengum mikið og gott að borða og lögðum síðan af stað undir nóttina.
Þetta var hlý sumarnótt, logn og ilmur af þurrheyi lá í lofti. En hundurinn sást
hvergi, hefur líklega verið lokaður inni, stakk ég upp á. Þess þurfti ekki, hann
flýði af bænum þegar hann sá byssuna, sagði Grímur.
Þegar leið á nótt sótti svefn fast á okkur alla, menn og hesta, þar sem við
siluðumst áfram í logninu. Skyndilega sveipaðist um okkur hvít móða sem
huldi dalbotninn nánast hlíða á milli, þéttust yfir ánni. Dalalæða eða
kerlingarvella öðru nafni, sagði Grímur. Um þetta leyti hafði ég komist í
mannkynssöguna og rakst þar á hetjuna Spartacus sem þeysti um í stríðsvagni
sem dreginn var af tveim gæðingum. Í svefnmókinu þótti mér heldur lítil reisn
yfir okkur Blesa með tvo dauða kálfa þar sem við siluðumst upp með
túngarðinum á Hnjúki.
Skyndilega hrökk ég upp við æðisgengið gelt og urr, Blesi greikkaði sporið
og ég var nærri dottinn afturábak ofan á kálfana. Ófriðurinn stóð af tveimur
mórauðum ljóngrimmum heimilishundum á Hnjúki. Bersýnilegt var að þeir
höfðu legið í leyni innan við túngarðinn og ekki látið til skarar skríða fyrr en
við vorum komnir í dauðafæri. Lengi síðan var ég hræddur við hundana á
Hnjúki þótt þeir reyndar þyrðu ekki út fyrir túngarðinn. Fyrir innan garð voru
þeir öruggir. Á heimleiðinni gelti ég og sigaði á móti og þá urðu þeir alveg óðir
og froðufelldu af æsingi.
Nú hafði ég nógan tíma til að hugsa um ýmis vandamál mín, þar á meðal
eitt sem snerti hundinn okkar og kallaður var Kátur. Hann var góðlyndur,
gulmórauður á litinn með hringað skott og lafandi eyru og fremur loðinn. Við
mig var hann latur og svikull og virtist enga rellu gera sér þótt hann svikist frá
mér í hrossaleit. Þegar ég var búinn að binda á mig beislið, kominn með
svipuna, sem ég varð að smíða sjálfur, og kallaði á hundinn þá sveikst hann frá
mér áður en ég náði upp á efri brún. Honum tókst yfirleitt að hverfa án þess
ég tæki eftir fyrr en um seinan. Hann nennti ekki einu sinni að taka á móti mér
þegar ég rak hestana að heimahliðinu leiri stokkinn og hungraður.