Húnavaka - 01.05.2012, Blaðsíða 98
H Ú N A V A K A 96
Þegar ég kom niður á bryggju var klukkan langt gengin í sjö. Pabbi var að
bæta net og spurði:
Hvar hafiði verið? Að selja rauðmaga, svaraði ég. Ætlið þið að segja mér að
þið hafið verið rúma sex tíma að selja þessa titti? sagði pabbi. Já, svo datt hjólið
af kerrunni og við urðum að gera við. Páll skólastjóri lánaði okkur verkfæri,
svaraði ég. Var ekki hægt að spyrja einhvern annan en Pál? spurði pabbi.
Nú kom Almar hlaupandi, móður og másandi. Jæja, hvað fenguð þið fyrir
rauðmagann? spurði pabbi. Ég bara veit það ekki, svaraði ég og dró upp úr
vasanum talsverðan samankuðlaðan bunka af rauðum tíu krónu seðlum og
nokkrum grænum fimm krónu seðlum og rétti pabba. Almar hefur líka seðla,
sagði ég.
Pabbi tók við seðlunum og notaði góðan tíma til að slétta úr þeim og telja
þá. Nú, þetta eru hundrað krónur, sagði hann. Fenguð þið ekki meira fyrir
rauðmagann? Nei, við urðum að selja hann fyrir hálfvirði, því hann var svo
drullugur.
Drullugur? Hvað gerðuð þið eiginlega við rauðmagann? spurði pabbi. Svo
skýrðum við frá hvað hafði gerst.
Jæja, en næst verðið þið að fá betri útkomu, sagði pabbi.
Ég fer ekki að selja rauðmaga aftur, sagði ég þrjóskur. En við getum ekki
hent rauðmaganum þegar hægt er að selja hann, sagði pabbi. Mér er alveg
sama um rauðmagann, sagði ég. Ég sel hann bara ekki.
Hvað ætlar þú þá að gera? spurði pabbi.
Tja, bæta net. Bæta net, svaraði ég.
Kannt þú nú að bæta net? spurði pabbi vantrúaður.
Já, ég lærði það í fyrra þegar mamma var að bæta síldarnetin heima í
kjallara. Svo hún kenndi þér að bæta net? Já, ég bara horfði á hana og gerði
svo eins og hún. Ég hefi verið að hjálpa Kela gamla að laga rauðmaganetin í
vor og þá lærði ég meira.
Kela gamla, hefur þú verið að hjálpa Kela gamla? Nú hef ég ekki heyrt
annað eins. Jæja, láttu mig sjá hve flinkur netamaður þú ert, sagði pabbi.
Ég gekk að körfunni með netanálunum og tók eina nál úr aluminium og
þræddi í hana. Svo leitaði ég að kríulöpp í netinu og bætti hana. Pabbi kom og
leit á verkið og sagði ekkert.
Jæja, það er tími til kominn að koma sér heim og borða kvöldmat, sagði
hann. Klukkan er orðin sjö.
Við tókum nú eftir að við vorum banhungraðir enda höfðum við ekkert
borðað síðan í hádeginu. Þá borðuðum við rauðmaga.
Nú var skapleg tíð um tíma og fiskaðist ágætlega. Við vorum komnir með
næstum 20 net í sjó og vitjuðum um hvert net annan hvorn dag. Pabbi var líka
búinn að gera samning við einhverja trillukarla um að fá hjá þeim grásleppuna
svo nóg var að gera í verkuninni á hrognunum. Mamma var líka farin að taka
þátt í verkuninni og kom oft niður í skúr eftir hádegi.
Einn daginn birtist ókunnur maður og kynnti sig sem ráðunaut úr
Reykjavík. Hann var í lakkskóm og með hanska og hatt og í fínum frakka.