Lögmannablaðið - 01.03.2010, Blaðsíða 27

Lögmannablaðið - 01.03.2010, Blaðsíða 27
LÖGMANNABLAÐIÐ – 1 / 2010 > 27 Um miðbik námskeiðsins vitna- og aðilaskýrslur fyrir dómi, sem haldið var hjá LMFÍ 11. mars sl., gekk inn ung kona og tók sér sæti framarlega í kennslustofunni. Þegar hálftími var eftir af námskeiðinu stöðvaði bíll fyrir utan LMFÍ með látum og konan rauk út. Uppi varð fótur og fit meðal þátttakenda þegar þeir fylgdust með hörðum átökum milli hennar og manns sem hafði ekið bílnum. Sumir ruku út til að aðstoða konuna, aðrir hringdu í 112 en skyndilega datt allt í dúnalogn. Þá var þátttakendum sagt frá því að atburðirnir hefðu verið settir á svið af einum kennara námskeiðsins, Sigurði Tómasi Magnússyni hrl. og kennara við Háskólann í Reykjavík, til þess að sýna fram á hversu mismunandi vitni upplifðu atburði. Búið var að setja upp réttarsal í bókasafninu og þangað fóru nemendur til að hlusta á vitnaleiðslur. Þátttakendur námskeiðsins voru settir í hlutverk saksóknara, verjanda og vitna. Nokkur munur var á hvernig vitni upplifðu atburðinn. Þannig varð grái fjölskyldubíllinn, sem sést á myndinni að ofan, að dökkum, tveggja dyra sportbíl í framburði eins vitnisins. Í lokin settust „gerandi“ og „þolandi“ í vitnastúkuna og lýstu atburðum eins og þeir gerðust. Það skal tekið fram að öll vitnin voru allsgáð og óvenju skammur tími leið frá því að atburðir gerðust og þar til skýrslutökur fóru fram. Umsagnir þátttakenda: „Þetta var vægast sagt undarleg uppákoma. Ég áttaði mig í sjálfu sér ekki á því hvað var að gerast, enda sat ég ekki gluggamegin í salnum og sá því ekki neitt. Mér brá þó eins og öðrum, sérstaklega þegar einhver fór að tala um að ekið hefði verið á gangandi vegfaranda. Ég tók upp símann og hringdi í 112, enda taldi ég fullvíst að eitthvað alvarlegt hefði átt sér stað! Þessi uppákoma var ótrúlega lærdómsrík og maður fékk að sjá það frá fyrstu hendi hversu erfitt það getur verið fyrir vitni að lýsa atburðum sem það varð vitni að. Í þessu tilfelli liðu ekki nema 15­20 mínútur frá atburðinum og þangað til vitni gáfu skýrslu en þau áttu samt í vandræðum með það.“ „Þetta var mjög raunverulegt, gerðist mjög hratt og skildi áhorfendur eftir í hálfgerðu sjokki.“ „Mjög fróðlegt að fylgjast með hvað vitni eru í rauninni „léleg“, t.a.m. það að veita ekki athygli fyrsta högginu frá konunni. Líklega göngum við öll út frá því að konur byrji ekki líkamleg átök og þeir fordómar okkar skila sér í því að við veitum slíku síður athygli.“ Aðsent efni Uppákoma á námskeiði Leikararnir Saga garðarsdóttir og Kolbeinn arinbjörnsson eru nemar við Leiklistarskóla Íslands og áttu stórleik að mati viðstaddra. „Vitni“ spurt um málsatvik í réttarsal.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.