Vísbending - 21.12.2015, Blaðsíða 5
5
Rétti dagurinn
BENEDIKT
JÓHANNESSON
A
llir vilja græða á jólunum. Kirkjan sjálf notar þau í eins
konar markaðsherferð, því að mörgum finnst notalegt
að hlusta á spjall á aðventunni og aðventutónleikar eru
fastur liður í lífi margra, hátíðleg stund og staður, jafnvel
hjá þeim sem eru vantrúaðir á boðskap prestanna um kraftaverk og
guðlega forsjón, þó að flestir fallist á siðalögmál kirkjunnar.
Á hverju ári heyrist alls kyns bull um jólin. Í byrjun desember
heyrðist auglýst í útvarpinu: Jólin eru komin! Sumir telja að í stað
þess að vera hátíð gleði og kyrrðar valdi jólin í raun streitu og öfund.
Þeir sem vilja veg jólanna sem minnstan segja að þau séu upprunalega
heiðin hátíð til þess að fagna rísandi sól. En hvaða máli skiptir það?
Mega ekki þeir sem vilja njóta jólanna sem trúarhátiðar gera það
óáreittir? Og hvað með það, þó að einhverjir trúlausir hafi gaman
af því að fá gjafir eða borða hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld?
Það er auðvitað mjög leiðinlegt þegar trúleysi verður ofstæki gegn
trúarbrögðum, umburðarlyndi er farsælast í trúmálum, svo fremi sem
menn predika ekki ofbeldi.
Auðvitað eru trúmál skemmtileg uppspretta rökræðna eins og
til dæmis um það hvort Eva hafi haft nafla eða hve margir englar
komist fyrir á nálaroddi, en um þetta er sagt að deilt hafi verið á
kirkjuþingum. Ekki veit ég hvers vegna englarnir ættu að sækja í
nálaroddinn, en einu sinni stóð í Æskunni að allir jarðarbúar kæmust
fyrir á Suðurlandsundirlendi. En þar yrði þröng á þingi. Það sama
hlýtur að gilda um nálaroddinn, ef þar eru einn eða fleiri englar.
Sagt er að Ágústus keisari hafi látið skrásetja alla heimsbyggðina.
Það manntal er löngu týnt, hafi það verið tekið, en gott hefði verið að
fletta þar upp fæðingardegi frelsarans. Það var ekki fyrr en nokkur
hundrað árum síðar sem menn áttuðu sig á því að hann hlyti að
hafa fæðst í desember, en áður hafði 20. maí verið nefndur, en það
hefði ekki verið góður dagur því að þá hefði hann fallið saman við
vorprófin í skólum. Nú vitum við öll (nema bráðlátir kaupmenn)
að jólin koma 24. desember, en margir útlendingar eru enn haldnir
þeirri firru að þau byrji 25. desember.
Eftir jól koma áramót og við tekur nýtt ár, sem er í hugum margra
ný byrjun og það er ágætt. Allt of margir burðast stöðugt með
fortíðina og grípa ekki tækifærin til þess að byrja upp á nýtt. Hver
nýr dagur er rétti dagurinn og við eigum að njóta hans eins og við
getum. Það gott að hafa í huga speki sem gengur á netinu þar sem
Kalli Bjarna segir dapur við hundinn sinn: En dag skal vi alle dø og
seppi svarar: Ja, men alle andre dage skal vi det ikke.
Benedikt Jóhannesson
Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Benedikt Jóhannesson. Útgefandi: Heimur hf., Borgartúni 23, 105 Reykjavík. Sími: 512 7575.
Netfang: benedikt@heimur.is Umbrot og hönnun: Ágústa Ragnarsdóttir, agustaragnars@simnet.is Prentun: Oddi.
Forsíðumynd: Páll Kjartansson. Myndir af höfundum: Páll Kjartansson og Geir Ólafsson.
Öll réttindi áskilin. © Ritið má ekki afrita án leyfis útgefanda.
Ljósm. Páll Kjartansson.