Vísbending


Vísbending - 21.12.2015, Blaðsíða 34

Vísbending - 21.12.2015, Blaðsíða 34
34 MANNTAFL EINAR KÁRASON RITHÖFUNDUR D rengurinn heyrði eitt sinn er hann var barnungur sagt um föður sinn: „Honum hefur aldrei orðið neitt uppifast“ og þá skildi hann það ekki, vissi ekki einu sinni hvort það var gott eða vont að verða eitthvað uppifast, kunni samt einhvernveginn ekki við að spyrja. Drengnum þótti gaman að heyra óvenjuleg orð og setningar, og honum þótti eins og flestum drengjum faðir sinn vera merkilegur, og þetta sem var sagt þýddi auðvitað að faðir hans var umræðuefni, hann var í frásögur færandi, öðrum köllum þótti hann nógu áhugaverður til að vilja hafa hann á orði, og það var nokkuð. Ekkert uppifast – hefði verið betra að vera uppifastur? Honum lærðist síðar að þetta merkti að faðirinn hafði aldrei eignast neitt, en þá var hann svosem áður búinn að átta sig á þeirri staðreynd; þau fjölskyldan áttu ekkert, hvorki íbúð né bíl, þótt þau byggju á ágætum stað og faðirinn æki stundum á flottum bílum. En aðrir kallar áttu þá bíla og gerðu þá út, faðirinn var bara bílstjórinn. En þetta angraði drenginn svosem ekkert, stundum voru strákar að metast um hversu feður þeirra væru merkilegir, hvað þeir ættu flotta bíla, allra fínast var að vera lögga eða flugmaður, kannski skipstjóri, en hann tók ekki þátt í slíku, leiddi það bara hjá sér, hafði auðvitað af engu að guma. Og í hina röndina þá hafði faðirinn líka sína kosti, hann gat verið mælskur og skemmtilegur, hann var hláturmildur þegar sá gállinn var á honum, og átti skemmtilega vini; að auki rataði hann alltaf allt ef farið var í bíltúra, þekkti hvert fjall, hverja sveit, næstum hvern einasta sveitabæ, og gat orðið mjög skemmtilegur þegar hann sagði frá hinu og þessu sem gerðist í gamla daga. Og að einu leyti gat drengurinn verið endalaust stoltur af föður sínum, og það var þegar hann settist að tafli. Þetta var í þá daga þegar stórfjölskyldur hittust á hátíðum og við ýmis tilefni; allir þessir frændur og frænkur og mágar og svilar; borð svignuðu undan tertum og bakkelsi, þar á meðal brauðtertur þykkt smurðar með mæjónesi, svo voru kjólklæddar konurnar komnar í sófasettin, með kaffibolla og hávært skraf, en kallarnir stóðu í misstórum hópum, allir í eins hvítum skyrtum og með bindi, komnir úr jökkum heitir og örir eftir kaffiþamb, og þá var gjarnan sest að tafli. Einhverjir tveir voru sestir hvor á móti öðrum, léku og slógu á klukkuna, hinir allir fylgdust með, einhver skoraði svo á þann sem vann. Þá voru þeir allir jafningjar, þótt sumir frændanna og svilanna hefðu náð langt í lífinu, allir vissu að þeir voru ríkir, þénuðu vel sem læknar og bankamenn, nokkrir áttu velmegandi fyrirtæki og höfðu marga menn í vinnu, óku á drossíum. En tveir kallar við skákborð á sunnudagseftirmiðdegi í reykvískri stofu, hvor á móti öðrum, báðir í hvítum skyrtum, þeir voru jafnir, munurinn var bara sá að annar var með hvítt en hinn svart, annar vann en hinn tapaði – og drengurinn áttaði sig fljótt á því að þarna var það pabbi hans sem oftast vann, eða alltaf; síðar þegar hann hugsaði til þessara daga gat hann ekki munað eftir einu skipti þar sem faðir hans hafði tapað skák við svona aðstæður. Faðirinn hafði yfirleitt ekki frumkvæðið að því að setjast að skákborðinu, það voru alltaf einhverjir aðrir tveir sem drógu fyrst fram taflið, en faðirinn var áhugasamur á meðan teflt var, fylgdist með og reykti sígarettur, talaði við hina kallana í kring, hrósaði þeim sem sátu að tafli: „Það er ekki lognmollan í kringum þessa menn!“ „Það er bara strax látið sverfa til stáls!“ Svo hrósaði hann þeim sem vann, dáðist að skáklist hans, og svona gekk það þar til allir höfðu tekið „eina bröndótta“ nema hann sjálfur, þá var hann hvattur að borðinu, þar sat einhver einn sem hafði sigrað alla hina, faðirinn mátti ekki skorast undan því að reyna sig á móti honum líka. Þótt hann væri tregur til að fást að skákborðinu, þá var hann í essinu sínu strax og hann var sestur. Væri hann með hvítt lék hann samstundis fyrsta leiknum, kveikti sér svo í sígarettu og fór að rabba í glaðlegum tón við fólkið í kring, leit ekki á skákborðið. Ætti hinn fyrsta leikinn þóttist hann alltaf hrökkva í kút þegar þar að kom, sagði eitthvað sem svo: „Noh! Það er bara byrjað með stórsókn alveg um leið!“ En lék á móti strax og óhikað, gjarnan með orðunum, „nú, eitthvað verður maður að reyna að gera sér til bjargar“, fékk sér svo smók og rabbaði við fólkið í stofunni. Andstæðingurinn sat yfirleitt kyrr og leit ekki af skákborðinu, oftast hálfgrúfði hann sig yfir það,

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.