Vísbending - 21.12.2015, Blaðsíða 42
42
hóranir, fyllirí og grimmd fylgdi þeim eins og skugginn, og eru til nóg
rit samtíða annálaritara, sem sanna þetta.“
Víkingar í hinni víðtækari merkingu orðsins voru oftar nefndir á
nafn í íslenskum ritum þegar leið á 20. öldina, en flatneskjan sem
nú ríkir í allri opinberri umfjöllun um víkingafortíð Íslendinga
kom þó varla til sögu fyrr en á allra síðustu áratugum aldarinnar
og í byrjun þessarar. Heita má að víkingar hafi verið aukapersónur
í flestu sem ritað var um Íslandssöguna fram að því þar á meðal
sögukennslubókum skólanna.
Fornkappar en ekki víkingar
Víkingar koma fyrir í allmörgum íslenskum bókmenntaverkum
12. og 13. aldar, þar sem sögusviðið er landnámsöld og tíminn
fram að kristnitöku (Íslendingasögur og konungasögur) eða
löngu fyrr (fornaldarsögur). Allur þorri þeirra er nafnlausir menn
og andlitslausir, oftar er fjallað um þá sem hóp en einstaklinga;
höfundar sagnanna hafa gripið til „staðalmyndar“ frekar en að
leggjast í flókna persónusköpun. Enginn af köppum Íslendingasagna
er sagður víkingur. Ekki Gunnlaugur ormstunga, Gísli Súrsson,
Grettir Ásmundarson, Björn Hítdælakappi, hvorki Bolli né Kjartan
Ólafsson í Laxdælu, ekki Víga-Styr, Hrafnkell Freysgoði, hvorki
Gunnar á Hlíðarenda né Njáll á Bergþórshvoli, Finnbogi rammi eða
Víga-Glúmur, Leifur heppni eða Þorfinnur karlsefni og ekki Snorri
goði. Enn síður eru kvenskörungar eins og Guðrún Ósvífursdóttir,
Guðríður Þorbjarnardóttir, eða Hallgerður og Bergþóra í Njáls sögu
tengdar víkingum í fornsögunum. Og ekki foringjar kristnitökunnar
árið 1000 samkvæmt Ara fróða, Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason
eða lögsögumaðurinn snjalli sem lagðist undir feldinn, Þorgeir
Ljósvetningagoði. Meira að segja sjálfur Egill Skallgrímsson,
sem var ekki nema sex ára gamall þegar móðir hans kveður hann
„víkingsefni“, er aldrei nefndur víkingur í Egils sögu. Hann er þó
stundum í slagtogi við víkingaflokka og ekki er framferði hans mikið
frábrugðið þeirra nema síður sé.
Í Landnámabók, sem rituð var á 12. og 13. öld, eru víkingar ekki
fyrirferðarmiklir. Heitið er þar notað um innan við 5% hinna rúmlega
400 landnámsmanna sem nafngreindir eru. Fjöldinn er til marks um
hvaða hugmyndir lærðir Íslendingar á ritunartíma bókarinnar hafa
gert sér eða viljað sýna um hlut víkinga í landnáminu. Og þarf svo
sem ekki að koma á óvart. Má vel eiga við rök að styðjast, þótt ekki sé
Landnámabók lengur talin traust heimild um landnámsöldina. Varla
hefur Ísland á þeim tíma verið spennandi staður fyrir víkinga sem
vildu rupla og ræna: óbyggðir úr alfaraleið nyrst í hafi þar sem ekkert
fémætt var að finna.
Ýmislegt forvitnilegt er sagt um víkinga í ritinu. Ölvir barnakarl,
sem sagður er afi tveggja landnámsmanna, fær sérstakt hrós. „Hann
lét eigi henda börn á spjótaoddum, sem þá var víkingum títt.“ Sögur
af norrænum bardagamönnum sem köstuðu börnum á loft og gripu
á spjótaoddum mátti finna í víðlesnu ensku sagnariti frá 12. öld eftir
Henry af Huntingdon. Þaðan gæti hugmyndin verið komin til Íslands.
Landnámsmaðurinn Þorbjörn bitra er sagður „víkingur og illmenni.“
Um víkinginn Þorsteinn Ásgrímsson er sagt að fyrir Íslandsferðina
hafi hann brennt bæ í Þrumu í Noregi með hjúum öllum en rænt
lausafé. Um víkinginn Hella-Björn Herfinnsson er sagt að hann hafi
siglt til Íslands með alskjölduðu skipi; síðan hafi hann verið kallaður
Skjalda-Björn. Hann hefur þá viljað vera viðbúinn hinu versta á
leiðinni. Þetta hefur verið talið óvenjulegt úr því Björn fékk viðurnefni
af skjöldunum. Víkingar gátu líka verið ógn við landnámsmenn á leið
til Íslands. Þórir nokkur snepill var kominn á haf út þegar víkingar
birtast skyndilega. Skipverji hans einn sýnir það hugrekki að höggva
til stafnbúa víkinganna með stýrissveif skipsins. Forðuðu víkingar sér
þá á brott og komst Þórir heilu og höldnu til Íslands með fólk sitt.
Ekki bendir þessi frásögn til þess að víkingar hafi verið álitnir sérlega
hugrakkir menn, frekar vandræðamenn sem gefist upp við minnsta
mótbyr.
Bókfellsvíkingar?
Velta má fyrir sér hvað höfundar Landnámabókar og sagnanna,
kristnir munkar og lærðir menn í höfðingjastétt, vissu fyrir víst um
fornvíkinga sem uppi voru tvö, þrjú eða fjögur hundruð árum áður
en þeir fæddust? Hvað gátu þeir vitað? Hverjar voru heimildir þeirra?
Um innanlandsviðburði var í upphafi eingöngu hægt að styðjast
við arfsagnir. Kannski var hægt að leita í sjóð sagna og ljóða sem
lifðu og mótuðust á vörum manna og gengið höfðu á milli kynslóða.
En eðli málsins samkvæmt voru þetta ótraustar heimildir. Atburðirnir
höfðu gerst mörg hundruð árum fyrr. Hinn sannsögulegi kjarni þeirra,
hafi hann yfirleitt verið fyrir hendi, gat verið týndur þegar farið var
að skrá sagnirnar eða kvæðin. Engin leið var að skera úr um hvað
var byggt á staðreyndum og hvað var tilbúningur. Lærdómsmenn
miðalda gerðu að vísu greinarmun á lygisögum sem eingöngu voru
til skemmtunar, fabulae, og sagnfræðilegum verkum, historiae. En
heimildarýni þeirra var allt önnur en nútímamanna. Á miðöldum var
til dæmis talið gott og gilt að álykta um forsögulegar persónur út frá
örnefnum. Ættartölur voru settar saman út frá tilbúnum forsendum,
en gjarnan af miklum lærdómi. Munur þess sem gerðist og hefði
getað gerst var ekki alltaf skýr. Kristin trú og lærdómur mótuðu líka
sjónarmið höfundanna; sögulegir atburðir voru gjarnan endurskapaðir
og túlkaðir í ljósi kristinna lífsviðhorfa.
Teikning úr Frakklandssögu Guizot frá 1879 sem sýnir árás norrænna
víkinga á París. Þeir líkjast helst frumstæðum hellisbúum.