Són - 01.01.2011, Blaðsíða 56
56 HAUKUR ÞORGEIRSSON
sem skjálfta, þrumum og skrímslum ótt
og skæðum tröllum á þessari nótt,
frá aðsóknum og álfa kindanna illsku þrótt.21
Elsta heimild um kvæðið Friðarbón er Vísnabók Guðbrands sem
prent uð var 1612. Þar eru eftirfarandi erindi:
Fyrir vatni, eldi og veðra grandi
voldugur Drottinn hjálpi mér,
geym þú mig á græði og landi
fyrir grimmum skrímslum hvar eg fer.
Minnkast mun þá mein og vandi
nær miskunn þín yfir öllum er.
Sjónhverfingum svikulla anda
sviptu frá mér, Drottinn minn,
álfafólki og umsát fjanda
öllum skýlir krafturinn þinn,
fyrir heimsins öllum háska og vanda
hjálpa þú mér í hvört eitt sinn.22
Það sem erindin úr þessum þremur kvæðum eiga sameiginlegt er að
þar er tvinnuð saman bæn um vernd gegn náttúrulegum og yfir -
náttúrulegum ógnum. Við hljótum að velta fyrir okkur hvaða tiltekna
ógn það er sem stafar af álfunum og getum reynt að ráða það af
samhenginu. Í Friðarbón eru álfar nefndir í sambandi við anda og
fjendur og hafa eflaust verið taldir djöfullegar verur. Í Nættlum eru
álfar nefndir í samhengi við ’aðsókn‘. Sennilegt er að þetta hafi verið
aðsókn af því tagi sem nefnd er í ritgerð um sjúkdómanöfn frá 18. öld:
Aðsókn kallast bæði þá einn lætur illa í svefni sem og hvert og
eitt aðsvif og kast er hastarliga yfirfellur einn eður annan, og sér
í lagi börn, og hvar til menn ei vita neina orsök. Þannig verða
börn á einu augabragði gagntekin af velgju og uppköstum, rétt
upp úr þurru, það kallast almennt aðsókn; fylgir þessu, sem enu
fyrra tilfelli, hjátrúarfullur þanki á stundum, þó af náttúrligum
orsökum leiði.23
21 AM 969 4to, 121r. Stafsetning samræmd.
22 Vísnabók Guðbrands 2000:309.
23 Sveinn Pálsson 1788:185. Stafsetning samræmd.