Málfregnir - 01.12.1998, Blaðsíða 29

Málfregnir - 01.12.1998, Blaðsíða 29
Kostirnir eru hins vegar nokkrir ef hugað er að tökuorðaleiðinni. Til að tákna gerand- ann í þessum leik væru þá eftirfarandi vegir færir: 1) Að taka upp enska orðið, laga það svo- lítið til: júgglari, jugglari, jögglari, joggl- ari, eða herma betur eftir framburði: djúggl- ari, djugglari, djögglari, djogglari. 2) Að taka upp úr frændmálunum fransk- ættaða orðið jonglör og gera úr því jonglari. 3) Að taka upp úr frændmálunum hið þýskættaða gögler/gjögler (da./no.) eða gycklare (sæ.) og laga það til, annaðhvort með tilvísun til framburðar eða ritháttar: gojlari, gaulari, gögglari, gigglari, gikklari, gjökklari. 4) Að sækja gamla tökuorðið gegl- ari/geiglari og endurnýja líf þess. Síðastnefnda leiðin (4) er að mörgu leyti álitlegust, þ.e. að leitað verði til 18.-19. ald- ar íslensku og tekin á ný upp orðmyndin geglari um ofangreindan skemmtikraft og þá um leið sögnin gegla um athöfnina að „leika (boltum, kylfum o.þ.u.l.); henda tveimur eða fleiri hlutum þannig að ætíð sé einn á lofti“. Sjálfur leikurinn mætti þá heita gegl hk. Litlu skiptir hvort þessi orð væru borin fram með e eða ei; yrði síðari framburðurinn fyrir valinu mætti vel skrifa þau geiglari, geigla og geigl. Hljóðafar þeirra og ritháttur stofnsérhljóðs félli hvort tveggja vel að íslensku, hvor leiðin sem farin væri. Eins og fyrr segir getur Blöndalsorðabók um beygingu sagnarinnar gegla og kveður hana beygjast sem veika sögn af 2. flokki (gegla - gegldi - geglt, sbr. negla - negldi - neglt). Því er ekki að neita að framburðar- myndir þátíðar, boðháttar og lh. þt. yrðu dá- lítið óheppilegar, einkum ef sögnin yrði bor- in fram með e. M.a. myndu þt. og lh. þt. sennilega falla saman við sömu beygingar- myndir sagnarinnar gelda. Framburður með gómmæltu l er að vísu hugsanlegur og má stundum heyra hann í þessum og nokkrum öðrum beygingarmyndum sagnarinnar negla en líklega er hann þó heldur fátíður í venju- legu talmáli. Til greina kæmi að mæla með því að nýupptekin yrði sögnin í nútímamáli beygð eftir 1. flokki, eins og stagla, spegla, mygla, svo að dæmi séu tekin af sögnum með áþekkt hljóðafar. Um viðskeytið -ari í gerandorðinu þarf ekki að fjölyrða enda er það fjörgamalt viðskeyti af latneskum ættum og dæmi um það í máli bestu skálda, svo sem Egils Skallagrímssonar (,,ljóðpundari“). 5 Orð um listir, leiki og skemmtanir eru mörg hver af erlendum uppruna og þykir ýmsum sem þessi svið menningarinnar séu eða megi vel vera undanþegin þeim virðisaukaskatti sem lengi hefur verið lagður á nýjungar og ný hugtök sem koma frá útlöndum, þ.e. að þau skuli fá íslensk nöfn í stað þeirra sem fylgja þeim við komuna til landsins. Ný- yrðaleiðin hefur þó oft verið reynd og stund- um tekist bærilega, svo sem sjá má af ný- yrðunum blak og keila fyrir e. volleyball og bowling en stundum hafa orðin ekki hitt í mark, hver sem ástæðan er, eins og prýðileg en andvana fædd orð á borð við hnit (e. badminton) sýna. Sum tökuorðin standast svo sem ekki ströngustu kröfur sem gera mætti til góðra tökuorða, þ.e. að hljóðafar, bygging orðsins, stafsetning þess o.fl. sé sem líkast og í íslenskum erfðarorðum. Það á við um sum hljóðfæraheiti og orð um tón- list, t.d. píanó, orgel, kammer(sveit), heiti á leikjum og spilum, t.d. póker, brids, dóminó, nöfn á dönsum og íþróttum, t.d. tangó, tennis og mörg fleiri. Önnur eru hins vegar hin bærilegustu og bera varla með sér að þau séu af erlendum uppruna, t.d. fiðla, flauta, vist, rœll, vals, og sum eru ærið gömul, t.d. leikari, spil, tafl, dans sem koma fyrir í fomu máli. Orðin, sem hér var stung- ið upp á, geglari, gegla og gegl, féllu mætavel í þennan hóp. Þau hafa íslenskt hljóðafar og beyging þeirra brýtur hvergi í bág við reglur íslenskrar tungu. 29

x

Málfregnir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Málfregnir
https://timarit.is/publication/1146

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.