Bændablaðið - 06.03.2014, Page 20

Bændablaðið - 06.03.2014, Page 20
20 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. mars 2014 Örmerkinganámskeið haldið á Akureyri á vegum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins: Tilgangurinn að tryggja sem best sönnun á eignarrétti og rétta upprunaskráningu Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hélt örmerkinganámskeið á Akureyri nýverið. Þrettán sátu námskeiðið og hlutu réttindi til að örmerkja hross. Námskeið sem þessi eru tvískipt og er fyrri hlutinn bóklegur, þar sem farið er yfir vinnureglur og skýrsluhaldið í kringum örmerkingarnar. Seinni hlutinn er svo verklegur þar sem þátttakendur merkja hross og fylla út einstaklingsmerkingablöð líkt og venja er við merkingar. Steinunn Anna Halldórsdóttir, sem situr í faghópi hrossaræktar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, sá um að kenna nemendunum fræðin en hinn verklegi hluti námskeiðsins fór svo fram í Fornhaga II í Hörgárdal, hjá þeim Arnari Sigfússyni og Önnu Guðrúnu Grétarsdóttur. Örmerkja skal öll hross Steinunn Anna segir að samkvæmt reglugerð skuli örmerkja öll hross og að öll ásetningsfolöld eigi að örmerkja við hlið móður fyrir 10 mánaða aldur. Folöld, sem slátrað er fyrir 10 mánaða aldur, skulu auðkennd þannig að fæðingarnúmer móður sé gefið upp við slátrun. „Tilgangur örmerkinga er að tryggja sem best rétta upprunaskráningu og sönnun á eignarrétti,“ segir hún. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Bændasamtök Íslands veita leyfi til örmerkinga og leiðbeina um framkvæmd, annast skráningu örmerkja ásamt meðferð og vörslu upplýsinga og samþykkja dreifingaraðila. Steinunn Anna segir að örmerkinganámskeið séu haldin á vegum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins eins oft og þurfa þykir, en sá háttur sé hafður á að áhugasamir eru settir á lista og þegar hann hefur náð á bilinu 10 til 20 manns er efnt til námskeiðs. Staðsetning ræðst svo af fjölda þátttakenda á hverju svæði. Næsta námskeið er fyrirhugað á Suðurlandi, annað hvort nú á komandi vori, eða næsta haust, eftir því hvort finnist nógu mörg óörmerkt hross. Mikilvægt að taka starfið alvarlega Allir starfandi dýralæknar hafa réttindi til að örmerkja hross. Öllum er frjálst að sækja námskeiðin, en starfsmenn hrossaræktarsviðs R á ð g j a f a r m i ð s t ö ð v a r landbúnaðarins ákveða síðan hvort menn standist þau. „Það er afar mikilvægt að fara vel að hrossunum, vera vel skrifandi, fylla eyðublöðin samviskusamlega út og skila þeim reglulega á næstu starfsstöð Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins,“ segir Steinunn Anna. Ekki er nauðsynlegt að allt hestafólk hafi þessi réttindi, en því mikilvægara er að þeir sem þau hafa taki starfi sínu alvarlega og sinni verkinu samviskusamlega. „Fólk getur misst réttindin verði það uppvíst af slæmum vinnubrögðum,“ segir hún. / MÞÞ Starfsmenn Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. Steinunn Anna Halldórsdóttir Sauðanesi t.v. og Anna Guðrún Grétarsdóttir Fornhaga II. Bændur í sveitinni mættu með hross til merkinga. Ríkarður Hafdal Glæsibæ II, Albert Jensen Syðra-Brekkukoti og Arnar Sigfússon Fornhaga II. Myndir / Anna Guðrún Grétarsdóttir Steinunn Anna leiðbeinandi og Tryggvi Hauksson við merkingar á námskeiðinu. Ríkarður Hafdal (t.v.) bóndi í Glæsibæ II mætti með folöld til að merkja. Hér er Áhugasamir nemendur á námskeiðinu: Hafdís Bára Óskarsdóttir, Daníel Brynjar Helgason og Helgi Páll Gíslason. Viðar Bragason á Björgum í Hörgárdal (t.h.) mundar pennann við útfyllingu gagna á námskeiðinu.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.