Bændablaðið - 06.03.2014, Page 48
48 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. febrúar 2014
5. tölublað 2014 Fimmtudagur 6. mars
Næsta tölublað Bændablaðsins kemur út
20. mars
„Þetta er ljómandi góður pískari og
mér fannst á sínum tíma engin ástæða
til að henda honum,“ segir Benjamín
Baldursson bóndi á Ytri-Tjörnum í
Eyjafjarðarsveit. Hann hefur dregið
fram pískara sem hann keypti um
miðjan áttunda áratug síðustu aldar
og notaði óspart um nokkurra ára
skeið, en var síðan lagður á hilluna
þar sem hann lá í 33 ár þar til hann
var dregin fram í dagsljósið á ný.
Pískarann notar Benjamín til að
hræra út mjólkurduftsblöndu sem
hann gefur kálfum sínum.
Benjamín og eiginkona hans Hulda
M. Jónsdóttur hófu búskap á Ytri-
Tjörnum árið 1974, fyrst í félagi við
foreldra hans, Baldur H. Kristjánsson
og Þuríði Kristjánsdóttur.
„Á þeim tíma var mikill uppgangur
í íslenskum landbúnaði og við
kappkostuðum að framleiða sem mesta
mjólk. Margir byggðu á árunum upp
úr 1970 ný fjós og þá var stefnan að
framleiða sem sem mest til að borga
nýbyggingar upp á sem skemmstum
tíma,“ rifjar Benjamín upp. Flestar
voru kýrnar 54 talsins árið 1978 og
framleiðslan nam um 212 þúsund lítrum
á ári.
„Til að framleiða sem mesta mjólk
ákváðum við að gefa smákálfunum
mjólkurduft sem hrært var út í volgu
vatni. Ég lagði því leið mína í bæinn
og keypti fljótlega á mínum ferli sem
kúabóndi þennan svonefnda pískara
til að hræra út blönduna. Hann var í
notkun hér á bænum til ársins 1980,“
segir Benjamín. Á þeim tíma fór að
syrta í álinn, tímabil offramleiðslu
var runnið upp og kvóti var settur á
mjólkurframleiðslu.
Nýtni í blóð borinn
Pískarinn var lagður á hilluna, komið
fyrir í blásaraskúr sem þá var, en hýsir
nú mjólkurdælu, rafmagnstöflu og
fleira.
„Ef til vill var það nýtni sem manni
er í blóð borinn,“ svarar Benjamín
spurður um af hverju pískarinn hafi
hreinlega ekki lent í ruslinu.
„Hann var í ágætu ásigkomulagi,
vel brúklegur þó auðvitað hafi hann
látið á sjá.“
Næstu 33 árin lá pískarinn óhreyfður
þar sem honum hafði verið komið
fyrir, engin not voru fyrir hann enda
var kálfum gefin spenvolg mjólk í stað
mjólkurduftshrærunnar.
„Mjólkurkvóti okkar fór niður í
163 þúsund lítra þegar minnst var og
skerðingar höfðu dunið yfir, sáralítið
eða ekkert fékkst fyrir umframmjólk
þannig að ekki borgaði sig lengur að
kaupa duftin, næg mjólk var til fyrir
kálfana,“ segir Benjamín.
Fljótvirkasta aðferðin að skjóta inn
erlendu erfðaefni
Á liðnu hausti voru bændur hvattir til
að auka mjólkurframleiðslu og varð
Benjamín eins og margir fleiri við
þeirri hvatningu. Þá var aftur tekið til
við að hræra í fjósinu á Ytri-Tjörnum
og pískurinn dreginn fram á ný. Alls eru
53 kýr í fjósi og framleiðslan nemur um
280 til 300 þúsund lítrum af mjólk á ári.
„Skilvirkasta aðferðin nú til að
auka framleiðsluna er sú að skjóta
inn í íslenska kúastofninn erlendu
erfðaefni. Fullur vilji er til þess meðal
bænda að anna aukinni eftirspurn
eftir mjólkurvörum, það gerum við
best að mínu mati með því að fá
inn í íslenska kúastofninni erfðaefni
frá Noregi. Ávinningur af því yrði
tvöfaldur, bæði væri þá hægt að auka
mjólkurframleiðsluna en einnig gefa
þær af sér meira kjöt en þær íslensku.
Eins og staðan er núna er
innflutningur á nautakjöti töluverður.
Með þessu fyrirkomulagi myndum við
slá tvær flugur í einu höggi.“ /MÞÞ
Benjamín Baldursson bóndi á Ytri-Tjörnum að auka mjólkurframleiðsluna:
Pískari frá miðjum sjöunda
áratugnum dreginn fram á ný
-Dugar vel við að hræra út mjólkurduftsblöndum handa kálfunum
Benjamín Baldursson bóndi á Ytri-Tjörnum dró fram písk sem ekki hafði
verið notaður í 33 ár og notar á ný þegar aftur er tekið til við að hræra
Mynd / MÞÞ