Skírnir - 01.01.1978, Page 12
10 ÓLAFUR JÓNSSON SKÍRNIR
aðhyllst kenningar sósíalismans og fylgja alþýðunni, segir Krist-
inn:
Skáldskapur þeirra endurspeglar hina dýpri strauma þjóðlífsins. Inntak
hans er aðallega hin þjóðfélagslega barátta. Hann er alvöruþrunginn, þrótt-
mikill og hefur sérstakan boðskap að flytja alþýðu og þjóðinni allri. í verk-
um þessara skálda fá bókmenntirnar aftur nýtt og hátt ris.2
Einnig Steingrímur J. Þorsteinsson var á því að eiginleg þátta-
skil í bókmenntasögu þessarar aldar verði á árunum upp úr
1930. Þá lrverfa síðustu skáld 19du aldar af sjónarsviði, en nýtt
raunsæi ryður sér til rúms í skáldsagnagerð sem nú kemst í fyrir-
rúm í bókmenntunum í stað Ijóðagerðar áður. Þá verða skýrust
skil bæði í þjóðfélagsþróun og bókmenntasögu, segir Steingrím-
ur í norrænu bókmenntasögunni sem fyrr var nefnd.3
En við þennan skoðunarhátt er sitthvað að athuga. í fyrsta
lagi verður hann til að rjúfa samhengi bókmenntanna milli
stríða, en vitaskuld voru það sömu höfundar sem mest komu
við söguna bæði fyrir og eftir 1930, og virðir einskis íslensku
höfundana í Danmörku og þeirra verk. Og hann er til þess
fallinn að gera óeðlilega lítið úr nývirkjum þriðja áratugarins
og gildi þeirra eftir á, ekki bara æskuverkum Halldórs Laxness
heldur líka bókum Davíðs Stefánssonar fyrir 1930, því skeiðinu
sem líkast til var frjóast og farsælast á öllum skáldferli hans.
í öðru lagi er með þessu móti hætt við að menn einfaldi og
ýki um leið fyrir sér þau stefnuhvörf sem óumdeilt urðu í bók-
menntum um og upp úr 1930. Þau voru sem sé ekki einvörð-
ungu fólgin í upptekningu þjóðfélagslegra yrkisefna, pólitískri
gagnrýni, sósíalisma í list og lífskoðun hjá höfundum eins og
Halldóri Laxness, Þórbergi, Jóhannesi úr Kötlum. Um svipað
leyti og þó fyrr en hinir rauðu pennar komu fram hér heima
hverfa þeir Gunnar Gunnarsson og Guðmundur Kamban í
Danmörku að sínum sögulegu yrkisefnum á fjórða áratugnum,
Kamban frá sálfræðilegri samtímalýsingu í leikritum og skáld-
sögum sínum að Skálholti, Gunnar frá sinni stóru sjálfsrannsókn
í Fjallkirkjunni að landnámsflokki sínum. Ef til vill er næst að
segja að umskiptin um og upp úr 1930, sem vissulega taka til
fleiri höfunda en nú voru nefndir, felist í því að horfið sé frá