Skírnir - 01.01.1978, Side 22
20 ÓLAFUR JÓNSSON SKÍRNIR
öld, Sjálfstœtt fólk. Hvaða bækur og höfundar eftir stríð hafa
skipt öðru eins máli fyrir lesendur sem nú eru á miðjum aldri
og þaðan af yngri? Einstök dæmi eru sjálfsagt auðfundin, og
getur þá hver lesandi vitnað fyrir sig. En hafa bókmenntirnar
skipt öðru eins máli fyrir allan almenning nú eins og þá? Nema
þetta sé bara rómantískur hugarburður um liðna daga.
6
Þegar litið er í svipsýn yfir sögu bókmenntanna eftir stríð má
segja að hún skipti sér af sjálfsdáðum upp í þrjú nokkurn veginn
aðgreinileg tímabil. Hið fyrsta er þá einkum tímabil form-
breytinga í ljóðagerðinni, og má tam. tímasetja það frá útkomu
Þorpsins eftir Jón úr Vör, 1946, til Sjödœgru eftir Jóhannes úr
Kötlum, 1955. Sama ár kom út Kvœðabók Hannesar Péturssonar,
og má þá segja að næsta skeið hefjist með henni, en ljúki, til
dæmis, með síðustu ljóðabók Snorra Hjartarsonar, Laufi og
stjörnum, 1966, og auðkennist annarsvegar af formlegri mála-
miðlun milli hefðar og nýmæla, hinsvegar af meira eða minna
sársaukafullu endurmati fornra lífsgilda á nýrri tíð. Á þessum
tíma rankar skáldsagan við sér á nýjan leik með Indriða G. Þor-
steinssyni og síðan Jakobínu Sigurðardóttur. Þriðja skeið þess-
arar samtímasögu bókmenntanna hefst þá með hinni margróm-
uðu skáldsögu Guðbergs Bergssonar, Tómas Jónsson, metsölu-
bók, árið 1966, þeirri formbreytingu eða -byltingu skáldsagna-
gerðar sem þá var hafin og þar með tilraun til að lýsa með nýj-
um hætti, nýju raunsæi kannski, samfélaginu og samtíðinni.
Svo mikið er víst að þjóðfélagsleg yrkisefni hafa á undanförnum
áratug upp á nýtt komist í fyrirrúm í bókmenntunum, og kveð-
ur meir að sagnagerð, og kannski í seinni tíð leikritun, en að
ljóðagerð.
En líka má segja að meginviðfangsefni, eða þema bókmennt-
anna öll þessi þrjátíu ár, sé gagnger umskipti samfélagsins, þjóð-
lífs og mannlífs, sem samtímis hafa verið að gerast, síðasta skeið-
ið í þróun bændasamfélagsins gamla til iðnaðar- og neyslusam-
félags okkar daga, sem vitanlega var hafin miklu fyrr á öldinni
og ekki síðar en um fyrra stríðið. Og það lætur að líkum að
þjóðfélagsbreytingar þessara ára hafa að sínu leyti breytt hinum