Skírnir - 01.01.1978, Side 25
SKÍRNIR
BÓKMENNTIR OG SAMFELAG
23
sagna, innlendra og aðfenginna, sem séu að flestu leyti ólíkir
sín í milli, félagsleg samsetning, bókmenntasmekkur og lestrar-
venjur í hópunum. Þorbjörn Broddason gengur svo langt að
tala um „tvær eða fleiri bókmenntahefðir“ sem viðgangist í
landinu.11 Þetta þykir ef til vill ekki ýkja frásagnarvert, þótt það
að vísu brjóti þvert í bága við viðteknar hugmyndir um „bók-
menntaþjóðina“, né þá heldur hitt að lesendahópur afþreyingar-
sagna upp og ofan sé mun fjölmennari en alvarlega stílaðra
frumsaminna skáldrita. Hitt er óneitanlega eftirtektarverðara, ef
rétt reynist, að mun meira sé lesið og meiri áhugi á bókum í hin-
um alþýðlega lesendahóp en á meðal betur settra og menntaðra
lesenda sem einkum gefa sig að svonefndum góðum bókmennt-
um. Ekki síst ef bókmenntamarkaðurinn er á sama tíma smátt
og smátt að ganga saman — jafnvel svo mjög að nálgast lágmark
starfhæfrar útgáfustarfsemi eins og útgefendur stundum láta í
veðri vaka.12 Hér má einnig spyrja um stöðu bókmenntanna,
hinna frumsömdu og nýskapandi bókmennta sem þekkingar-
miðils — á meðal annarra fjölmiðla. Er ef til vill svo komið að
síðustu leifar „bókmenntaþjóðarinnar" dragi fram lífið á inn-
lendum „kerlingabókum" og útlendu reyfararusli? Slíkum og
þvílíkum spurningum verður að vísu ekki svarað, ef þeim verður
þá svarað, nema með rækilegri rannsókn á almennri bókmenn-
ingu í landinu.
Slíkar athuganir, sem ýtarlegust könnun á daglegri bók-
menningu, bókakaupum og bókaeign, lestrarsiðum, bókmennta-
smekk á meðal alls almennings, eftir því sem slíkt verður mælt
og talið í tölum, væru á hinn bóginn einkar eftirsóknarverðar.
Ekki bara vegna þeirrar vitneskju sem þær gætu veitt um hvers-
dagslega bókmenningu, starfskjör bókmennta og bókaútgáfu,
hlutdeild bókmennta og rithöfunda á menningarmarkaði og í
daglegu menningarlífi, svo fróðlegt sem allt þetta þó væri, held-
ur fyrst og fremst til vísbendingar um starfssvið bókmennta í
samfélaginu, þau kjör og kringumstæður sem til langframa ráða
framvindu bókmenntanna sjálfra.
Við höfum allgóða raun af bókmenntum sem uppistöðu þjóð-
legrar menningar og menningarlífs í hinu fyrra samfélagi í land-
inu. En þótt bókmenntirnar hafi áður gefist okkur vel er ekki