Skírnir - 01.01.1978, Page 40
38
HRAFNHILDUR HREINSDOTTIR
skírnir
Mismunur á leshópum er lítill. Helst má nefna hve margir
af lesendum Snjólaugar búa í dreifbýli eða 36% þeirra. Eitt
vakti athygli við lesendur Snjólaugar sem bjuggu í kauptúni
eða sveit, en það var hve margir karlar, eða 41%, komu þaðan,
en 35% kvenna. Kann ég enga skýringu á því en upplýsi, að
mörg þessara svara bárust af Suðurlandi. Kannski er skýringar
að leita í sögusviði bókarinnar og efni, en búast mætti við, að
margir karlar hafi unnið við svipaðar kringumstæður og lýst
er og því hafi bókin vakið forvitni þeirra.
3. BÓKLESTUR
3.1. Lesiðni og leshópar
Hvað er bóklestur? Til hvers lesa menn bækur? Hvað verja
lesendur almennt miklum hluta af tómstundum sínum til lestr-
ar? Og hvað lesa þeir?
Hér er eingöngu spurt um bóklestur. En auðvitað lesa menn
annað. Flestir lesa dagblöð reglulega, margir lesa tímarit að
staðaldri. Útvarp og sjónvarp geta komið í stað bóklestrar í
tómstundum manna. Og það er munur á bóklestri eftir því
hvort menn lesa einvörðungu sér til afþreyingar og af áhuga
á efninu, eða af einhvers konar þörf, vegna skólanáms, atvinnu
sinnar, eða öðrum slíkum ástæðum.
Ýmsar aðferðir eru hafðar til að kanna og mæla bóklestur.
I könnun sinni á lestrarvenjum í Noregi skiptir Öystein Noreng
þátttakendum í fjóra flokka eftir „lesiðni“ þeirra: 1) fólk sem
les mikið; 2) fólk sem les að staðaldri; 3) fólk sem les öðru
hverju; 4) fólk sem les ekki bækur. I fyrsta flokk Norengs fara
þeir sem voru að lesa bók þegar könnun fór fram; annan flokk
þeir sem segjast hafa lesið a.m.k. eina bók undanfarna þrjá
mánuði; þriðja þeir sem segjast lesa bækur, en ekki höfðu lesið
neina bók undanfarna þrjá mánuði; fjórða flokk þeir sem segj-
ast aldrei lesa bækur.13 Þessa skiptingu notar Þórir Ólafsson í
könnun sinni á bóklestri og menntun sem fyrr var getið.
Eitt aðalmarkmið þessara athugana var að leita upplýsinga
um hve margar og hvaða bækur þátttakendur læsu. Þeir voru
því beðnir að tiltaka eins nákvæmlega og þeim væri unnt hversu