Skírnir - 01.01.1978, Page 96
94 DAGNÝ KRISTJÁNSDÓTTIR SKIRNIR
Ég fór á burt; gripinn kvíða og köldum hrolli. Eitthvað sem vissi á illt
hafði legið í orðum hennar. Eitthvað sem varðaði mig. Óheiliaspá... Bara
þetta, að hún hafði nefnt nafnið mitt... Örlög hennar, eins og þau höfðu
ráðizt og mundu ráðast — vörðuðu mig. Voru samfléttuð mínum eigin örlög-
uml Voru þá örlög allra manna ofin hvert í annað? Var sá blindur, sem sá
það ekki? Sljór sá, sem ekki fann það? ... Já! Þannig var þetta. Nú varð mér
það ljóst í einni svipan. (281—282)
Þessar hugmyndir Eyjólfs, sem springa þarna út í fullum
blóma, fela í sér stéttarlega upphafningu hans á sinni eigin sekt
sem hann veigrar sér við að horfast í augu við og færir þess
vegna yfir á „alla menn“. Þetta er undankomuleið séra Eyjólfs
og jafnframt það sem hann færir fram sér til réttlætingar. Ef
til vill trúir hann þessari lausn sinni ekki einu sinni sjálfur.
Hann hefur sögu sína á ávarpi til allra þeirra „sem kunna að
sjá þessi blöð“ (7), — blöðin eiga sem sagt að fara víða. Sögu
sinni lýkur Eyjólfur hins vegar á mun auðmjúkari orðum:
Skyldi ég þora að sýna vini mínum, Amori Jónssyni, og minni ástkæru
eiginkonu Ólöfu það, sem ég hér hef skrifað? (304)
Eyjólfur Kolbeinsson er sögumaður okkar í Svartfugli og
túlkun hans á því sem gerðist er vitaskuld ráðandi í verkinu.
Persónusköpun hans er ákaflega margræð — kapelláninn á Saur-
bæ er enginn einfeldningur. Hann efast og pínist og gengur
jafnvel misjafnlega að trúa sínum eigin lausnum. Átökin hið
innra með sögumanni eru mögnuð enn frekar með því að sögu-
höfundur dregur ekki taum hans. Lesandi fær upplýsingar á
bak við hann sem sýna séra Eyjólf í mun skærara Ijósi en hann
kærir sig um að bregða upp sjálfur. Því meira sem séra Eyjólfur
hallar sér að upphafningu því jarðbundnari verður söguhöfund-
ur eins og hér hefur komið fram á undan. Þessi spenna á milli
tveggja ósættanlegra sjónarmiða, hins huglæga og upphafna
annars vegar og hins félagslega og jarðbundna hins vegar, kemur
skýrast í ljós í gerð sögumannsins. Þegar sögumaður segir okkur
aftur á móti frá öðru fólki, sem kemur við þessa sögu, er meiri
vandi að greina á milli mats hans og söguhöfundar; frásögnin
fær meiri svip þriðju persónu sögu og mörkin á milli þeirra
verða óljósari. Lýsingar á öðrum persónum bókarinnar eru