Skírnir - 01.01.1978, Síða 123
SKÍRNIR SJÖ ÖRNEFNI OG LANDNAMA 121
til elstu gerðar svo að augljóst sé. Hins vegar gengu svo miklar
sögur af ættum þeirra og afkomendum að mikið má vera hafi
menn 13. aldar ekki varðveitt nöfn þeirra óbrengluð. Sama má
líklega segja um Önund en um ættir Geirólfs er allt ókunnugt.
1. 5. Verkefnið
Vitnisburður Landnámu og náttúrunafnakenning stangast á.
Sé því treyst að Landnáma varðveiti a.m.k. nöfn helstu land-
námsmanna óbrengluð og fari nokkuð nærri lagi um hvar þeir
námu land vaknar sú spurning hvort örnefnin Önundur, Þuríð-
ur, Geirólfur, Náttfari, Bjólfur, Loðmundur og Þrándur hafi
verið gefin ótengd eftir landnámsmönnum með svipuðum hætti
og t.d. Steingrímur, Ögmundur, Páll Arason, Nikulás og mörg
fleiri örnefni sem gefin voru eftir þekktum mönnum á seinni
öldum. Hér verður leitast við að svara þessu. Til eru fjölmörg
dæmi þess að íslensk mannanöfn hafi verið gefin ótengd sem ör-
nefni en skýringarsagnir skortir. Þau veita hugmynd um tíðni
slíkra örnefna en segja fátt um tilefni nafngiftar, og ritaðar
heimildir um aldur eru sjaldgæfar. Sum nöfn eru fornleg og að-
stæður og umhverfi veita stundum vísbendingar um aldur en
sjaldnast um það sem mestu varðar hér, hvort algengt hafi verið
á landnámstíma og fram á seinni hluta 10. aldar að gefa manna-
nöfn ótengd sem örnefni. Hafi svo verið væri þess að vænta að
siðurinn þekktist á Norðurlöndum og hefur verið reynt að grafa
upp færeysk, norsk, sænsk og dönsk dæmi. Einkum ættu sænsk
dæmi að geta gefið vísbendingu um hvort nafngiftarsiðurinn
muni forn, samnorrænn.
Hér verða fyrst birt norræn dæmi sem trúverðugar eða for-
vitnilegar skýringarsagnir fylgja. Síðan verður fjallað um allan
þorra íslenskra og annarra norrænna dæma án skýringarsagna,
þeirra sem fundist hafa, nöfnunum raðað í flokka (sker, steinar,
fjöll, vörður...) og skrár um þá birtar aftast en í meginmáli
gerð grein fyrir fjölda dæmanna og getið þess sem einkum hefur
gildi fyrir rannsóknina. Veitt verður yfirlit yfir flokkana, fjallað
um lengingu og styttingu, aldur og tilefni nafngiftanna og nið-
urstöður notaðar til að varpa Ijósi á þau sjö örnefni sem hér
eru einkum til athugunar.