Skírnir - 01.01.1978, Page 138
136
HELGI ÞORLÁKSSON
SKÍRNIR
6. 5. 2. Sœjarendur og fórnir til vcetta
eða annar virðingarvottur
Hafi sjómenn haft illan bifur á boðum og flæðiskerjum, sem
reyndust lífshættuleg, er eins víst að þeir hafi borið góðan hug
til dranga, hæða og fjallahnjúka sem vísuðu þeim veginn. Skv.
frásögn Finnboga Bernódussonar er á Ármúlafjalli við ísafjarð-
ardjúp hóll sem nefnist Flosi (rétt Floshóll á Hamarsfjalli?), eitt
af hinum fornu fiskimiðum Bolvíkinga, en annar hóll í Stiga-
hlíð sem nefnist Ölvir (Ölver) (1969, 150). Sagan segir að þetta
séu haugar samnefndra bræðra en sá þriðji hafi verið Straumur
á Straumsnesi. Ölver vildi láta heygja sig þar sem hann sæi til
beggja bræðra sinna. Var því trúað að allt Isafjarðardjúp væri
verndarsvæði þeirra bræðra (sbr. Heima, feb. 1953, 23). Finn-
bogi Bernódusson segir svo um Ölver:
Allmikill átrúnaður var lengi á Ölver og töldu sjómenn róðraheill stafa af
því að gefa Ölver í soðið. Köstuðu því margir út ýsu eða steinbít, þegar þeir
sigldu eða reru fram hjá Ölver, þegar þeir komu úr fiskiróðrum. Skyldi það
vera fórn til haugbúans, og væntu menn sér góðs gengis af þessu með farsæl-
legar sjóferðir.
Finnbogi þekkir gamla sögn um að Ölver hafi verið kveðinn
upp í haug sínum en kvæðamanni þótt vissara að blíðka Ölver
og kveða hann niður þegar hann sá hversu illa haugbúinn brást
við (1969, 150—152). Jón Grunnvíkingur þekkti sömu sögn um
Ölver og skráði árið 1753. Hann hermir að kvæðamaðurinn
væri kunnur galdramaður á fyrri hluta 17. aldar (JS 90, 4to).
Handan Isafjarðardjúps fremst á Snæfjallaströnd, milli Djúps
og Jökulfjarða, heitir Vébjarnarnúpur (Bjarna(r)núpur). Jó-
hann Hjaltason ritar:
Undir Núpnum er klettur einn í sjó og aðeins frálaus landinu, sem nefndur
er Álka. Til skamms tíma var það siður sjómanna, er þeir reru hjá kletti
þessum, að kasta í hann einhverjum lauslegum hlutum. svo sem smásteinum,
skorðum, tóbakstuggum og jafnvel peningum. Það kölluðu þeir „að gefa
Álku“. Eigi kemur mönnum saman um, i hverri merkingu þetta hafi verið
gert, en þó telja flestir, að þýðingin hafi verið sú, að afla sér með því góðs
gengis í sjóferðinni hjá æðri máttarvöldum þeim, er náttúruöflunum stýra.
Ber því helzt að líta á þennan sið sem einskonar fórn til sjávarguðsins
(1939, 17).