Skírnir - 01.01.1978, Page 143
SKÍRNIR SJÖ ÖRNEFNI OG LANDNÁMA 141
rauða. Segir Hænsa-Þóris saga að Tungu-Oddur hafi að eigin
ósk verið lagður til hinstu hvílu á Skáneyjarfjalli. Kvaðst
hann vilja hvíla þar sem hann sæi yfir lendur sínar (ÍF III, 46).
Að sögn Svarfdælu vildi Karl rauði vera grafinn (heygður) þar
sem hann sæi til siglinga á Eyjafirði (ÍF IX, 190—191). Frá 17.
öld eða eldri er sú sögn að Ingólfur Arnarson hafi látið grafa sig
á Ingólfsfjalli þar sem víða sæi yfir í þeim hól sem Inghóll
heitir (Landn Ing III, 14; Kál I, 78). Samkvæmt munnmælum
vildi Hallvarður súgandi í Súgandafirði láta heygja sig, þar
sem viða sæi yfir. Nefnist ætlaður haugur hans Súgandi (FÍ 1950,
50). Valþjófur vildi sjá vel yfir og valdi legstað í samræmi við
það.8 Randver á Randversstöðum í Breiðdal vildi að sögn sjá
vel yfir frá leiði sínu og mun örnefnið Randver eiga við leiði
hans eða hvílustað sem er klettur eða klettaborg (Breiðdæla 13,
28-29).
Því virðist og hafa verið trúað til forna að sumir menn þyrftu
ekki að láta grafa sig á víðsýnum stöðum til að fá yfirsýn heldur
„dæju í“ hæðir og fjöll. Á 13. öld trúðu menn að heiðnir Þórs-
nesingar hefðu dáið í Helgafell. Svanur á Svanshóli sást ganga
í fjallið Kaldbakshorn (iF XII, 46). Sel-Þórir og fjölskylda dóu
í Þórisbjörg (ÍF I, 48). Kráku-Hreiðar kaus að deyja í Mæli-
fell (ÍF I, 233). Hvammverjar hinir fornu trúðu, samkvæmt
Landnámu, að þeir dæju í Krosshóla (ÍF I, 139—140). Á 19. öld
var sagt frá tveimur mönnum sem dáið hefðu í Haukadalsvatn
og varð vart við þá í vatninu (sbr. Jónas Jónasson 1934, 419, 421).
Stundum virðast liugmyndir blandast um það hvort menn
hafi dáið í staði eða verið heygðir. I sögnum af Grími í Grímsey
segir að Grímur hafi viljað láta heygja sig þar sem liann sæi
til meginlands og líka úthafið (JÁ IV, 118). Var hann „heygður“
eins og sagan segir í stapa einum úti í sjó og nefndist sá á 19.
öld „Grimur bóndi“. Kona hans var „heygð“ í öðrum stapa rétt
hjá. Nefndist sá „Kellingin hans Gríms“. Er þetta skilið svo af
þeim sem skráði söguna að líkin væru dysjuð (urðuð) ofan á
stöpunum. Miklu eðlilegra virðist að ímynda sér að þau hjúin
hafi dáið í samnefnda stapa og búið í þeim en ekki verið dysjuð
ofan á þeim. Vættir með Grímsnöfnum eru kunnar í Noregi.
Fr0ysadal ritar m.a.;