Skírnir - 01.01.1978, Page 186
184
VÉSTEINN ÓLASON
SKÍRNIR
færir frekari rök að þeim niðurstöðum í viðaukanum. Hann
neitar því þó vitaskuld ekki, að höfundur hafi lesið bæði margar
sögur og annars konar texta, en gerir ráð fyrir að not þessa efnis
hafi verið mjög sjálfstæð og þeir þættir að því leyti algerlega
frumsamdir. Orðalag íslenskra fræðimanna hefur oft bent til að
þeir teldu slík not líkari því er þeir sjálfir sitja við skrifborð
sitt með heimildarrit opið á borðinu, en ég er ekki viss um að
um verulegan skoðanaágreining sé hér að ræða.
Niðurstaða LL í lok þessa kafla sýnir að fjarri fer að hann
líti sömu augum á söguna og gert er í riti Scholes og Kelloggs,
sem fyrr var vitnað til. Hann segir:
We may thus conclude that even though the plot was traditional, the saga
was not; it was an individual literary creation. (Bls. 41).
Þriðji kaflinn, The Language of Tradition, fjallar um þá frá-
sagnarhefð sem sjá má í verki Njáluhöfundar að hann hefur
fengið í arf. Þótt LL hafi sótt innblástur í verk Lords og áhang-
enda hans fer því fjarri að hann sé rétttrúaður lærisveinn þeirra.
Hann gerir bersýnilega ráð fyrir að Njála sé á einhvers konar
millistigi milli munnlegrar og ritaðrar frásagnarlistar. Lord er
hins vegar vantrúaður á að slíkt millistig geti verið til.25
LL gerir ráð fyrir því að frásagnargerð Njálu sé stigveldi
(hierarchy) byggingareininga sem segja má að leggist ofan á hið
almenna málkerfi þegar sagt er frá. Stærstu einingarnar í þessu
stigveldi eru þá hálfsjálfstæðir þcettir. Samkvæmt greiningu á
atburðarásinni virðist hann telja slíka þætti 15 í Njálu (sbr.
bls. 24). Þættirnir skiptast í kapítula en þeim má aftur skipta í
sneiðar (segments). Sneiðarnar telur LL að séu tvenns konar,
atriði (scene), sem felur í sér samtal, og lýsing. Allt eru þetta
formeiningar óháðar inntaki og mjög sveigjanlegar þannig að
lengd getur verið mjög misjöfn. Nokkuð annars eðlis eru for-
múlur, fastmótuð orðasambönd bundin ákveðnu inntaki og
ákveðinni stöðu í frásögninni, svo sem upphafi eða niðurlagi
sneiða eða fastmótuðum atriðum og lýsingum (stock scenes,
stock descriptions), sem eru endurtekin í fleiri sögum en einni
eða innan sömu sögu.