Skírnir - 01.01.1978, Side 187
SKÍRNIR FRÁSAGNARLIST í FORNUM SÖGUM 185
LL færir að því traust rök að sneiðarnar, atriði og lýsingar,
svo og þættir, séu formeiningar sem eigi rætur að rekja til munn-
legrar frásagnarlistar. Öðru máli telur hann gegna um milli-
stigið, kapítulana. Sú eining er, eins og nafnið reyndar sýnir,
af ætt erlendrar rithefðar og telur LL að sagnahöfundum gangi
misvel að laga þá að eigin rithefð. Þrátt fyrir þetta telur hann
að í Njálu verði að telja kapítulana sérstakt stig frásagnargerðar-
innar komið til fyrir bókleg áhrif. Ef þetta er rétt sýnir það að
djúptæk ummyndun hefur orðið á frásagnargerðinni fyrir áhrif
rithefðar. Etv. mundi rækileg rannsókn á þessu atriði í fleiri
sögum leiða í Ijós hvort líklegt sé að munnleg frásagnarlist hafi
í raun og veru verið án eða getað komist af án einhvers millistigs
milli sneiða og þátta.
í öðrum hluta þessa kapítula fjallar LL um það sem hann
nefnir „heim“ sögunnar, þe. þann heim sem hefðin virðist gera
ráð fyrir beint og óbeint. Sérstaklega athyglisverð er í þessum
þætti viðleitni til að leiða í Ijós hlutverkaskrá eða athafnasvið
í sögunni (sbr. Propp). Þessi atliafnasvið telur hann 10: hetja,
kvenhetja, vitur ráðgjafi, vopnabróðir, þorpari eða andskoti
(villain), vopnabróðir eða aðstoðarmaður andskota, sendiboði,
vitni, fulltrúi örlaganna (agent of fate), dómari. Þetta mætti
einfalda með því að hafa flokk vopnabræðra einn, fyrst aðstoðar-
maður andskota er ekki bara talinn tilheyra athafnasviði hans.
Vitni og fulltrúar örlaga hafa mjög þröngt athafnasvið og eru
sjaldséð í sögum. Hér er átt við þá menn sem verða vitni að
yfirnáttúrlegum fyrirboðum eins og Hildiglúm eða Dörruð (125.
og 157. kap.), en fulltrúar örlaga eru það sem þeir sjá, svartur
riddari á gráum hesti eða valkyrjur. Eins og Lönnroth bendir á
gegna vitnin svipuðu hlutverki og sendiboðar, þe. koma upp-
lýsingum á framfæri, og hæpið finnst mér að telja draumamenn
þeirra eða sýnir til athafnasviða í sögunni. Þessi tvö hlutverk
tilheyra naumast máli hefðarinnar enda tilheyra þau efni sem
líklegt er að sé af klerklegum og bóklegum uppruna. Dómari
er skyldur ráðgjafa en fjarlægari og hlutlausari gagnvart þeim
atburðum sem dæmt er um. Sem dæmi eru hér nefndir Skafti
Þóroddsson eða Þorgeir Ljósvetningagoði.